Mannskepnan ræður ekki við að vinna saman í hópum því við skemmum alltaf allt, við getum ekki talað saman og fávitarnir taka alltaf yfir. Og þetta á við um allt.
Sem dæmi:
Ég er í nokkrum skemmtilegum grúppum á Facebook. Eða nei, þær voru skemmtilegar þar til fávitarnir tóku yfir og eyðilögðu þær. Ein af þeim er hópur fyrir áhugafólk um stafsetningu og íslenskt mál og hún var óskaplega skemmtileg í byrjun. Þar veltum við upp alls konar álitamálum, spurðum spurninga og svöruðum, bentum á kómískar villur eða alvarlegar á misalvarlegum vettvangi. Góðlátlegt og gaman. En fávitarnir voru fljótir að sölsa vegginn undir sig og nú er svo komið að þarna inni er ekkert nema yfirdrull og dónaskapur hausaveiðara sem vita ekkert betra en að steypa netvillur í eilífðarmót skjáskotsins og smyrja svo yfir okkur á tilgerðarlega kjarnyrtu máli hve þessi blaðamannsauli sé nú klaufalegur og óboðlegur þeirra hávirðulega sjálfi. Stundum er auðvitað einhver ástæða fyrir kvartinu og svona fer vitanlega í taugarnar á okkur sem höfum áhugann. En þótt einhver aumingjans blaðasnápur í hlutastarfi gerist sekur um innsláttarvillu, gleymi staf eða skrifi „vikt“ í stað „vigt“ (raunverulegt dæmi) er ekki réttlætanlegt að setja sig á hæsta hestinn og saurga allt og alla, blaðamannastéttina í heild sinni og fjölskyldu viðkomandi. Ég læt málklúður blaðamanna alveg fara í taugarnar á mér. En annaðhvort geri ég betur sjálfur eða læt mér nægja að benda kurteislega á alvarlegustu ambögurnar og halda kjafti ella.
Annar hópur á Facebook byrjaði vel og rýnir í fjölmiðla og hegðun þeirra. Byrjaði skemmtilega, þarna fóru fram vangaveltur um siðareglur og almenna vinnu fjölmiðla, stór fréttamál fóru oft í eftirmeðferð þar sem við öll krufðum það sem fram hafði farið og sýn hvers og eins fékk að njóta sín. Aðhald vissulega og oft blöskraði viðstöddum en umfjöllunin var innan málefnalegra marka. En ekki lengur. Núna er ekki annað að sjá en að allir sem leyfa sér að setja frá sér frétt, auglýsingu, pistil eða ljósmynd í fjölmiðil hljóti að vera misindismanneskjur. Fávitarnir finna öllu allt til foráttu og setja fram á þann hátt að þeirra sjálfra skoðunum, sem auðvitað eru þær einu réttu og þar af leiðindi heilagar, sé sárlega ógnað og að bóta sé krafist. Orð eins og „mannréttindabrot“ eru misnotuð þarna inni og allir vita auðvitað hvernig rétt væri að gera hlutina. En enginn virðist nú samt ætla að gera neitt í því.
Ég man eftir einu dæmi þar sem lítill hópur eyðilagðist vegna þess að einn aðili hóf að pósta myndum þar inn með gríðarlega stuttu millibili, myndum sem tengdust efni hópsins ekki nema svona rétt passlega mikið. Látum liggja milli hluta hvort þessar sendingar ljósmyndarans voru eðlilegar en fávitarnir sáu nú samt til þess að eyðileggja hópinn með rifrildi um einmitt það, hvort þetta ætti rétt á sér. Eins og þetta var nú skemmtilegur hópur.
Sem betur fer er þetta ekki algilt. Ein af mínum uppáhalds grúppum á Facebook er kaup- og sölusíða fyrir notuð hljóðfæri. Hún hefur margoft stefnt í óefni en snjallmennið sem stofnaði hana og rekur tekur fyrir slíkt. Hann er einræðisherra og hann vill hafa hlutina í lagi.
En nóg af Facebook, enda þótt hegðun fólks þar inni endurspegli þetta einmitt ágætlega.
„Fólkið sem í alvörunni hélt að það mætti vera með í Skálmöld og ákveða hvað gerðist næst.“
Ég er í hljómsveit sem heitir Skálmöld. Við gáfum út fyrstu plötuna okkar fyrir nokkrum árum og vorum þá algerlega óþekkt nafn. Platan sló í gegn og umtalið var almennt frábært. Við gáfum út aðra plötu tveimur árum síðar. Og þá komu fávitarnir. Nú er ég ekki að tala um að fólk sé skyldugt til að fíla tónlistina mína og heldur ekki að það væri sjálfsagt að fólk sem fannst fyrsta platan skemmtileg ætti að þekkjast þá næstu. Mér finnst gaman að tala við fólk sem fílar ekki það sem ég geri, ef það er gert á málefnalegum grundvelli. En fávitarnir eru ekki þannig. Ég veit ekki hversu mörg símtöl ég fékk en þau voru of mörg (sem endaði með því að ég skráði mig úr símaskránni og eini alnafninn minn breytti skráningunni sinni á já.is og bætti við „ekki bassaleikari“ (sorrí, nafni, sem ég þekki ekki neitt)), og samtölin sem ég átti við lítt- eða ókunnuga maður á mann voru mun fleiri. Fólkið sem sagði mér að fyrri platan hefði verið miklu betri, við hefðum gert rangt á þeirri næstu og hóf svo að útskýra fyrir mér hvað hefði farið úrskeiðis, hvernig þetta hefði valdið þeim skaða og hvað við ættum að gera til að gera betur á næstu plötu. Fólkið sem í alvörunni hélt að það mætti vera með í Skálmöld og ákveða hvað gerðist næst. Mér finnast allar plötur Skálmaldar góðar og ég myndi aldrei láta neitt frá mér sem ég er ekki sáttur við. Og ég, í samráði við þá fimm sem eru í bandinu (og mögulega pródúser til viðbótar), ráðum hvernig þær eru. Það síðasta sem við megum gera er að hlusta á áhangendur sem vilja hafa þetta meira svona eða meira hinsegin. Þá taka fávitarnir yfir og þá er allt ónýtt. Við erum einræðisherrar í Skálmöld.
Ég er viss um að það var gott fólk sem stofnaði Framsóknarflokkinn á sínum tíma en nú hafa fávitarnir því miður bara tekið yfir. Ísland var numið af fólki sem vissi hvað það ætlaði að gera og þetta hefur pottþétt farið vel af stað. En fávitarnir tóku yfir. Ég held að við ættum að gera eins og Skálmöld og hljóðfærasíðan. Við þurfum einræðisherra.
Athugasemdir