Sturla bílstjóri ætlar sér að verða forseti. Hann er bjáni. Ari þarna ráðvillti YouTube-afglapinn líka. Ástþór starir á okkur með ennþá óeðlilegra augnaráði en síðast og Bjarkar-sleikjan Andri Snær hefur varla tíma til þess að tala við okkur því hann þarf að drekka úr enn einu tandurhreina stöðuvatninu uppi á einhverri heiðinni. Við vitum sem betur fer eiginlega ekkert hverjir hinir allir eru því þetta eru allt saman drullusokkar og/eða fávitar. Nema auðvitað Ólafur Ragnar, hann er nú versti sauðurinn af þeim öllum, búinn að sitja í 20 ár og ætlar að gubba yfir okkur ósvífni og frekju í 4–8 ár í viðbót ef konan hans leyfir honum það. Jú og Maggi Texas sem er of white trash til að geta verið frá Texas í alvörunni. Þorgrímur hætti nú sem betur fer við framboð enda ekki annað hægt eftir að hann nánast sleit alla brjóstmylkinga af geirvörtum snjallsímasjúkra mæðra sinna og smurði heilræðaslepjunni í góminn á þeim. Fulltrúar innri og ytri fegurðar, séra Davíð Þór og hennar hátign Linda Pé, stukku til hliðar og gáfust upp enda er ekki nóg að sveifla svartri bók eða skrautkórónu þegar til kastanna kemur. Og ef við hugsum enn lengra aftur í tímann rétt sluppum við við Jón Gnarr, Katrínu Jakobs og Gunna og Felix. Svona sirka.
Sigmundur Davíð er kominn í frí og alveg örugglega á fullum launum eftir lélegustu tilraun Íslandssögunnar til að halda andliti eftir lygar og svik. Bjarni Ben hoppar um í skugganum af skammarstrikum Sigmundar og blótar sjálfum sér í laumi fyrir að hafa ekki stofnað gmail-addressu fyrir Icehot og aflandsviðskipti. Ég hugsa að icehot1ogaflandsvidskipti@gmail.com sé ennþá laust og gæti verið gott að eiga. Sigurður Ingi veit svo alveg greinilega bara ekki neitt. Hann er bara að hanga. Og þau reyndar öll þarna. Þau segjast ætla að sleppa okkur með puttana í málin í haust. Hvað þýðir það? Hvenær kemur haust? Ágúst? Desember? Við vitum ekki skít og þau ætla að hafa það þannig. Við verðum bara á need to know basis þar til þau finna leið til þess að ná aftur tryggu haldi á valdataumunum. Þeir hárbjálfar, Óttarr Proppé og Helgi Hrafn, tuða svo eitthvað við fréttamenn um að allt sé ómögulegt og setjast síðan bara aftur inn í þingsal og ýta máttlaust á einhverja hnappa sem senda atkvæði þeirra með rafrænum boðum upp í rassgatið á kjósendum. Drullusokkar eða aumingjar, það er ekkert þarna á milli.
„Það skiptir engu máli hvernig fólkið er sem býður sig fram til að stjórna landinu, hvort það er gott eða slæmt, fávitar, snillingar, drullusokkar, dýrlingar eða hvernig það almennt hagar sér. Við ráðum.“
Þetta eru hitamálin á Íslandi í dag, tilvonandi forsetakosningar annars vegar og yfirstandandi þingstörf hins vegar. Við tölum ekki um annað, enda kannski eðlilegt, bæði málin snerta okkur öll og eru bæði yfirþyrmandi og fáránleg. Svona er umræðan öll og enda þótt þessi fyrri helmingur pistilsins hafi komið úr mínu heilabúi og verið settur fram órökstutt og úr samhengi við hvað mér finnst um fólk og málefni rímar orðtakið algerlega við það sem við lesum daglega á internetinu þessa dagana. Allir eru annað hvort fávitar eða aumingjar og enginn ætlar að taka annað í mál.
Gefum okkur að það sé rétt. Setjum sem svo að allir séu ómögulegir og ekki treystandi til neins.
Gott og vel. Ólafur Ragnar ætlar sem sagt að bjóða sig fram aftur og öllum finnst það fáránlegt. Hey, ég er með hugmynd: Ekki kjósa hann, svona ef ykkur finnst það slæm hugmynd. Ef Einar Þorvarðarson myndi gefa kost á sér núna sem landsliðsmarkvörður Íslands í handbolta þá myndum við ekki ganga að þeim samningum. Alveg sama þótt hann myndi vilja það ógeðslega mikið sjálfur og hafi gert það mjög gott fyrir 30 árum. Sigmundur Davíð, Bjarni Ben og allt þeirra lið segjast ætla að blása til kosninga fljótlega, og þótt svo fari að það dragist þá er lengsti mögulegi tími fram að kosningum ekki svo langur. Hugmynd: Ekki kjósa þá.
Þegar dóttir mín vildi fá að borða alla afmæliskökuna á afmælinu sínu um daginn þá sagði ég nei. Hún fékk enga köku því hún er eins árs og þess vegna óviti. Ef ég hefði látið að vilja hennar hefðu gestirnir ekki fengið neitt og henni hefði orðið illt. Og þetta er heila málið. Við erum vanhæfir foreldrar í eigin landi. Það skiptir engu máli hvernig fólkið er sem býður sig fram til að stjórna landinu, hvort það er gott eða slæmt, fávitar, snillingar, drullusokkar, dýrlingar eða hvernig það almennt hagar sér. Við ráðum. Viltu ekki að Andri Snær verði forseti? Ekki þá kjósa hann. Það virkar mun betur en að skrifa hálfan Facebook-metra um að hann eigi ekki að bjóða sig fram. Hann má það bara vel og hefur fullan rétt á því, rétt eins og ef ég myndi sækjast eftir því að verða bassaleikari í Iron Maiden. Það myndi enginn vilja það nema ég, en ég hef samt rétt til að lýsa yfir löngun minni til þess. Steve og Bruce ráða því samt, ekki ég. Og á Íslandi erum við öll Steve og Bruce.
Það er sturlun að eyða svona miklu púðri í að tala illa um fólk sem við erum með í vinnu eða sækist eftir því að komast í vinnu hjá okkur. Ef við getum ekki raðað góðu fólki í störfin sem þarf að vinna þá erum við mestu hálfvitarnir, ekki þau.
Leiðinleg börn eru leiðinleg vegna þess að foreldrarnir eru vanhæfir, ekki vegna vilja barnanna sjálfra. Sigmundur á alltaf eftir að vilja meiri köku, bara rétt eins og dóttir mín. En maður verður að segja nei við óvitana. Við erum vanhæfir foreldrar.
Athugasemdir