„Bentu á sökudólginn,“ segir hávaxinn maður í svörtum lögreglubúningi. „Hver þeirra fokkaði upp peningamálunum þínum?“
Hinum megin við skyggða glerið eru fígúrur hagfræðinnar; ógæfulegur flokkur að sjá.
Lengst til vinstri er Gengisvísitalan. Hún stendur þarna þreytuleg með skyrtuna fráhneppta og krullað hár út í loftið. Við hlið hennar stendur Neysluverðsvísitalan og baksar við að ná tyggjói úr hárinu. Næst kemur pattaraleg Verðbólgan, þá Húsnæðisverðið og loks Verðtryggingin – en sú síðastnefnda er klædd eins og Batman.
„Þarna er hún ... Þetta er allt henni að kenna!“ Vitnið brast í grát og lögregluþjónninn sendi Verðtryggingunni illt auga.
Að utan berast mikil læti og inn í herbergið hendist smávaxinn maður úr tæknideildinni. Hann var í miklu uppnámi og pataði höndum í allar áttir.
„Ég er búinn að leysa gátuna ...“ segir hann og benti í gegnum glerið. „Þau eru öll saklaus ... líka Verðtryggingin!“
„Hvað áttu við?“ spurði lögregluþjónninn.
„Allar þessar hagstærðir vinna fyrir sama manninn, beint eða óbeint,“ svaraði tæknimaðurinn og kreppti hnefann. „Hann neyðir þær til þess að fremja alls konar ódæði; þær eru seldar undir vilja hans og vald. Þær verða að hlýða!“
Fréttirnar komu illa við lögregluþjóninn sem þóttist vera búinn að leysa gátuna. Hann reis á fætur og hleypti vitninu út. Því næst gekk hann að glugganum og kveikti í sígarettu.
„Og hver er svo þessi höfuðpaur?“
„Hann er kallaður Krónan og er í forsvari fyrir allt gengið,“ svaraði tæknimaðurinn hikandi. „Að minnsta kosti það sem er á Íslandi.“
„Þú veist að ég er með skriflegan vitnisburð frá 50.000 Íslendingum um að Verðtryggingin sé stórhættulegt fjárglæfrakvendi,“ sagði lögregluþjónninn nú. „Hafa þeir allir rangt fyrir sér?“
„Það er misskilningur,“ svaraði tæknimaðurinn. „Verðtryggingin var búin til af vísindamönnum til þess að stemma stigu við ofríki Krónunnar. Og það hefur hún gert frá árinu 1979. Þess vegna er hún klædd eins og Batman.“
„En hún fokkar upp húsnæðislánunum – er það ekki?“ spurði lögregluþjónninn. Hann var óviss með þetta allt saman.
„Sjáðu til,“ sagði tæknimaðurinn og rótaði í blaðabunka sem hann hafði komið með. „Hér eru vinsælustu lánakostirnir á Íslandi undanfarin ár.“
„Verðtryggingin er eina lánið sem fer ekki í kleinu þegar illa árar. Þar munar aðeins fimm prósentum á hæstu og lægstu mánaðarlegu greiðslunum. Hjá hinum lánunum er þessi munur tvöfaldur og jafnvel fjórfaldur. Og hver ræður eiginlega við það?“
Lögregluþjónninn virti myndina fyrir sér. Getur þetta verið? Hann dró djúpt inn andann í gegnum stautinn. Tæknimaðurinn gróf upp aðra mynd og hélt áfram að útskýra.
„Það er rétt að ég sýni þér þessa mynd líka. Verðtryggingin er svo sannarlega ekki gallalaus. Hér sérðu hvað það tekur langan tíma að greiða niður sjálft lánið. Þetta er náttúrlega ekki nógu gott. Og svo fer það líka svo illa í sálina.“
„En hvað er þá til ráða,“ spurði lögregluþjónninn og drap í sígarettunni. „Hvað leggur þú til?“
„Þessar hagstærðir munu vera til vandræða svo lengi sem Krónan lifir,“ sagði tæknimaðurinn og benti í gegnum skyggða glerið. „Þannig hefur það alltaf verið – skoðaðu bara sögubækurnar.“
„Ertu þá að tala um að ...“ sagði lögregluþjónninn og bjó til byssu með puttunum.
„Það er eina lausnin!“ sagði tæknimaðurinn og lamdi í borðið. Hann fór upp að glerinu og staðnæmdist beint fyrir framan Batman. „Eitt er þó ljóst: Við þurfum á Verðtryggingunni að halda svo lengi sem Krónan leikur lausum hala.“
Athugasemdir