Um daginn datt Íslendingur í lukkupottinn og vann 47 milljónir í Lottóinu. Þetta er upphæð sem samsvarar um 200 sinnum lágmarkslaunum á íslenskum vinnumarkaði, bæði þeim almenna og hinu opinbera. Fyrir þessa upphæð má gera ýmislegt, en ekki verður farið nánar út í þá sálma hér.
Um daginn var einnig gerður nýr búvörusamningur við hina íslensku bændastétt, en spurningin er hvort bændur hafi dottið í lukkupottinn? Kostnaður íslenska ríkisins og þar með skattborgara þessa lands vegna nýrra búvörusamninga er um 200 milljarðar króna – tvö hundruð þúsund milljónir króna! Þá er talið með tollvernd og annað slíkt , plús beinn stuðningur við greinina, þ.e. sauðfjár og nautgriparækt, sem og mjólkurframleiðslu og garðyrkju. Svína og kjúklingarækt eru svo einskonar afgangsstærðir í þessu dæmi og koma í raun lítið að honum, enda líta sumir á þessar tvær greinar sem iðnað en ekki landbúnað. Út í þá sálma verður ekki farið hér.
Árum saman hefur umræða um heilbrigðismál og slæmt ástand í heilbrigðiskerfinu verið eitt meginþemað í opinberri umræðu hér á landi. Sjúklingar hafa sífellt þurft að taka á sig meiri kostnað, í grein á dv.is fyrr á þessu ári kom til dæmis fram að krabbameinssjúklingar þurfa nú að borgar tvöfalt meira nú fyrir meðferð, en árið 1983. Komugjöld, sem og önnur gjöld fyrir heilsugæslu og meðferð hafa öll meira eða minna hækkað.
Tvö hátæknisjúkrahús
Hluti af þessari umræðu er svo hátæknisjúkrahúsið margumrædda. Við Íslendingar viljum nefnilega flokka okkur sem velferðarþjóðfélag, þrátt fyrir a sífellt sé verið að meitla úr kerfinu. Sem er í raun óskiljanleg stefna.
Kostnaður við hátæknisjúkrahúsið er talinn vera um 90 milljarðar króna. Það mætti s.s. byggja tvö slík sjúkrahús fyrir þá upphæð sem áætlað er að styrkja landbúnaðinn um á næstu tíu árum. Er þetta virkilega ásættanlegt? Að styrkja starfsgrein þar sem starfa innan við 5000 manns á ársgrundvelli, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.
Hvar eru hagtölurnar?
Reyndar er erfitt að finna gagnlegar tölur frá Bændasamtökum Íslands um íslenskan landbúnað og hafa samtökin (sem fá um 5-600 milljónir á ári frá ríkinu til eigin reksturs) fengið á sig harða gagnrýni úr eigin röðum fyrir þetta, eða eins og kemur fram í áskorun og greinargerð frá Búnaðarsambandi Skagfirðinga(!) á Búnaðarþingi árið 2104: „Búnaðarþing 2014 beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að beita sér fyrir öflun hagtalna í landbúnaði og úrvinnslu þeirra á markvissan hátt.Þær upplýsingar sem safnast skulu nýtast til að kortleggja rekstur bænda og veita þeim rekstrarleiðbeiningar í framhaldinu.“ Í greinargerð segir svo: „Engin samantekt rekstrartalna í landbúnaði hefur verið birt vegna rekstrarársins 2012 sem er algjörlega óviðunandi.“
Reyndar var gefinn út bæklingur árið 2013, „Svona er íslenskur landbúnaður“ en hann fjallaði að stærstum hluta um matvælaverð og um leið voru Íslendingar varaðir við því að ganga í ESB. Bændasamtökin fá nefnilega ríkisstyrk á hverju ári til að vera á móti ESB og reka botnlausan áróður gegn sambandinu í málgagni sínu, Bændablaðinu. Neituðu samtökin að vera með í aðildarviðræðum á meðan þær stóðu, þrátt fyrir að hafa verið boðið.
Reykfyllt bakberbergi Bændahallarinnar?
Bændasamtökin héldu því ávallt fram að þær viðræður væru lokaðar og færu fram á bakvið ,,luktar dyr.“ En það er einmitt gagnrýni sem samningaviðræðurnar um nýju bændasamningana hafa fengið á sig. Var samið í reykfylltum bakherbergjum í Bændahöllinni? ASÍ hefur gagnrýnt samráðsleysi vegna sjónarmiða neytenda harkalega og í frétt á MBL.is þann 3.mars segir að ,,...nefnd sem átti að vinna að stefnumótun í mjólkurframleiðslu vorið 2014 hafi verið lögð niður og aldrei kölluð saman eftir að skýrsla Hagfræðistofnunar um stöðu og horfur í mjólkurframleiðslu kom út. Síðan þá hafi Alþýðusambandið enga aðkomu haft að undirbúningi búvörusamninga. Það verði að teljast stórundarlegt, í ljósu gríðarlegra hagsmuna launafólks og neytenda, að búvörusamningar séu gerðir bak við luktar dyr.“
Í viðræðum Íslands og ESB, var sambandið búið að viðurkenna sérstöðu Íslands í landbúnaðarmálum og það er fullvissa undirritaðs að landið hefði fengið hagstæða útkomu út úr samningaviðræðunum. En bændur börðu höfðinu í steininn, enda vel hvattir áfram í því efni af íhaldssömum landbúnaðarráðherra, sem gerði allt sem í hans valdi stóð til að torvelda samninga.
Nefndin sem varð ekki nefnd
Þá verðu einnig að teljast merkilegt það sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokki sagði í þættinum Sprengisandi fyrir skömmu, þess efnis að nefnd sem hefði átt að vinna að samningunum hafi aldrei verið kölluð saman: „Ef ég man rétt þá í október 2014 fengu allir þingflokkar bréf frá ráðherra [Sigurði Inga] um að skipa fulltrúa sína í nefnd um búvörusamninga. Að minnsta kom sú tillaga inn til okkar sjálfstæðismanna og flokkurinn skipaði Harald Benediktsson og Ragnheiði Ríkharðsdóttur í þá nefnd. En sú nefnd var aldrei kölluð saman og ekki get ég svarað af hverju,“ segir Ragnheiður sem þykir það harla óeðlilegt í ljósi „kröfu samtímans“ um aukið samráð og opið og gegnsætt ákvarðanatökuferli.“ Þetta hljóta að teljast mjög undarleg vinnubrögð og undarleg stjórnsýsla.
Málið er frá – punktur!
Hinum nýju búvörusamningum er ætlað að færa íslenskan landbúnað inn í nútímann, sem hljómar svolítið skringilega árið 2016. En betra seint en aldrei! Honum er líka ætlað að hamla fækkun í stéttinni, stuðla að nýliðun og halda lífi í „fjölskyldubúinu“, væntanlega þar sem öll fjölskyldan vinnur við landbúnað og unir glöð við sitt. Það er hinsvegar staðreynd að laun og kjör margra bænda eru svo slök að margir þeirra þurfa að vinna tvö störf til þess að hafa í sig og á. Einnig er það svo að hluti bænda hefur hætt búrekstri og til að mynda fært sig yfir í ferðaþjónustu. Saga bænda frá því um miðja síðustu öld er saga fækkunar í stéttinni og spilar þar meðal annars inni í tæknivæðing og breytingar á atvinnuháttum landsmanna.
Þetta rándýralandbúnaðarkerfi virkar því sem tímaskekkja, það hlýtur að vera hægt að komast af með íslenskan landbúnað fyrir minni pening. En það virðist vera þannig að það megi ekki gagnrýna þessa samninga, ef marka má viðbrögð forsætisráðherra Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar: „Það er búið að undirrita þessa samningu og málið er frá,“ sagði hann á forsíðu Morgunblaðsins þann 22.febrúar. Mjög ,,Sigmundarlegt“ verður að segjast.
Kannski er þetta bara hugsað þannig að bæði bændur og íslenska þjóðin eigi að taka það sem að þeim er rétt – og þegja svo.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og elskar íslenskt lambakjöt.
Athugasemdir