Forsætisráðherrann situr uppljómaður í sófanum fyrir framan sjónvarpið; Mission Impossible 2 er alveg örugglega besta bíómynd sem gerð hefur verið. Á hulstrinu treður Tom Cruise eldhafið og virðist vera fullkomlega æðrulaus. Sigmundur kinkar kolli sannfærður. Það er sko alveg ljóst hvaða stjórnmálaflokk þessi gaukur myndi kjósa. Sérstaklega þarna í atriðinu þegar hann stökk út um gluggann og sagði „time‘s up, baby cakes“. Þá var hann alveg pottþétt framsóknarmaður.
Einhvern veginn svona sé ég fyrir mér kósíkvöldin hjá forsætisráðherra. Bíómyndin heldur áfram að rúlla í kollinum á honum og endar ekki fyrr en söguhetjan er komin inn í kjörklefann og búin að setja lítinn kross framan við B-ið. Þá kemur textinn upp og Sigmundur getur loksins farið að sofa.
John F. Kennedy var framsóknarmaður
Sigmundur Davíð upplýsti flokkssystkini sín um stjórnmálaskoðanir John F. Kennedy á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem haldinn var um síðustu helgi. Þessi fyrrum forseti Bandaríkjanna var samkvæmt forsætisráðherra góður og gegn framsóknarmaður – sérstaklega þarna í atriðinu þegar hann pírði augun í myndavélina og sagði: „Ask not what your country can do for you – ask what you can do for your country.“ Það var alveg dæmigert framsóknarmóment.
Hann lauk síðan ræðu sinni með annarri tilvitnun í framsóknarmanninn John F. Kennedy: „All this will not be finished in the first one hundred days. Nor will it be finished in the first one thousand days, not in the life of this administration, nor even perhaps in our lifetime on this planet. But let us begin.“
Þessi orð eru viðeigandi á fyrsta degi þjóðhöfðingja í embætti, eins og í tilfelli Kennedys. En þegar þeim er droppað á seinni helmingi kjörtímabilsins hljóma þau hins vegar eins og afsökun fyrir að hafa ekki gert meira.
Jón forseti Sigurðsson var framsóknarmaður
Sigmundur Davíð hvatti sína menn til dáða á 31. flokksþingi Framsóknarflokksins með því að rifja upp helstu afrek Jóns Sigurðssonar. Hann sagði þeim síðan frá „magatilfinningu“ sinni varðandi sjálfstæðishetjuna og hvaða stjórnmálaflokk hún myndi kjósa í dag.
„Það væri ekki við hæfi að einhver þeirra stjórnmálaflokka sem starfa nú, 200 árum eftir fæðingu Jóns Sigurðssonar, reyndi að gera tilkall til Jóns eða stjórnmálastefnu hans,“ sagði Sigmundur og dýpkaði róminn örlítið. „Innra með mér þykist ég hins vegar vita hvar í flokki hann ætti heima.“
Barack Obama er framsóknarmaður
Daginn eftir að Barack Obama tók við embætti forseta Bandaríkjanna birtist frétt á Vísi með fyrirsögninni: Óbeinn sigur fyrir Framsókn.
„Við í Framsóknarflokknum höfum skilgreint Obama sem framsóknarmann þannig að okkur þykir þetta ákveðinn sigur fyrir flokkinn,“ sagði Sigmundur Davíð og bætti við að sigurinn væri óbeinn. Hann kvað embættistökuna mikið fagnaðarefni og sagðist hafa trú á Obama. Að minnsta kosti fyrst um sinn.
Sigmundur Davíð er framsóknarmaður
Auðvitað er ómögulegt að segja nokkuð til um það, hvaða stjórnmálaflokka Kennedy og Jón Sigurðsson myndu kjósa í dag. Og ég efast stórlega um að Obama nenni að mynda sér skoðun á málinu. Þeir koma allir úr samfélagi sem er svo ólíkt okkar að allur samanburður verður meira og minna marklaus.
Sigmundur getur þó hæglega haldið áfram að sækja í smiðjur þessara merkilegu stjórnmálamanna, þó að líklega hafi þeir aldrei verið framsóknarmenn. Hann gæti til dæmis prófað að máta boðskap Kennedys við sjálfan sig og hugleitt hversu vel hann á við: „Ask not what your country can do for you – ask what you can do for your country.“
Athugasemdir