Ég er nýkominn heim af rúmlega þriggja vikna túr með Skálmöld. Í dag vaknaði ég frávita af svefnleysi eftir heimferðina og of stuttan svefn og efndi loforðið við konuna mína, hana Agnesi, þar sem ég ferjaði sjálfan mig upp í Snyrtiakademíuna. Þar er hún nú við það að ljúka snyrtinámi og vantaði karlkyns módel til fótsnyrtingar. Mér er ekkert svakalega vel við svona lagað en ég treysti Agnesi vel og þar að auki var því ekki að leyna að ég var ekkert rosalega snyrtilegur til fótanna eftir þessa ferð. Ég spila alltaf berfættur á tónleikum, sama með hvaða hljómsveit það er. Baldur bróðir byrjaði á þessu fyrir nokkrum árum og ég apaði þetta upp eftir honum. Fyrst gerði ég þetta til þess að þurfa síður að díla við svitastorkna sokka og draghreðjandi skó á túrum en síðar varð þetta svo sterkur ávani að mér líður hreinlega eins og ég sé að spila á bassann með vettlinga ef ég er ekki berfættur. Hljómar eins og eitthvert helvítis hippakjaftæði auðvitað. En þetta er samt satt.
Ég svitna alveg svakalega mikið. Svo mikið að á svona túrum skipti ég um öll innri föt einu sinni á dag, undantekningarlaust. Sokka, brækur og boli sum sé. Eftir tónleika er ég gegnblautur af svita. Alltaf. Og eftir það held ég áfram að svitna í á að giska klukkutíma. Eftir það tek ég ákvörðun um hvort ég ætli í sturtu eða ekki. Það gerist oftar en ekki, ég myndi giska á að ég hafi farið í sturtu af sirka 3 giggum af hverjum 5 á þessum túr sem var að líða. Og þá tekur við ótrúlegt ferli. Tónleikastaðirnir sem við spilum á eru vissulega misgeðslegir en sjaldan frábærir. Sturturnar og klósettin eru verst af þessu öllu. Einu sinni hefði ég getað farið í sturtu sem var líka klósett. Grínlaust, gat í gólfinu og slanga með vatni á veggnum. Ég fór svitastorkinn í koju það kvöld. Ítalía er ekki nefnd „Shitaly“ í þessari kreðsu fyrir ekki neitt. En reyndar voru ítölsku giggin okkar tvö á þessum túr drullunæs og á góðum og vel reknum stöðum.
En svona týpísk sturtuferð? Hún gæti litið svona út:
Ég lauma mér inn í sturtu-/klósettrýmið. Þar er rakt og skítug handklæði á gólfum, handklæði þeirra fjölmörgu þungarokkara, tæknimanna, bílstjóra og annarra sem voru á undan mér þann daginn. Og mögulega dagana á undan. Ég leita að stað fyrir fötin mín og bakpokann, kannski snaga eða mögulega hillu. Ekkert að sjá. Ég þurrka bleytuna úr handlauginni og legg bakpokann minn þar ofan í. Hann er vandaður og með vatnsþéttum botni. Ég er berfættur en nokkuð sama enn sem komið er þar sem ég er svartur á iljunum eftir bjórstorkið svið og grútdrulluga aðstöðuna baksviðs. Ég fer úr sviðsbuxunum og legg þær ofan á bakpokann eftir að hafa veitt nýtt undirfatasett upp úr honum og komið því fyrir ofan á klósettinu. Handklæðið fer síðan þar við hliðina og ég fer úr undirf ... Ok, sko. Undirfötin eru brók og sokkar. Sorrí, hitt hefði verið meira djúsí og farið vel við hárauða tánaglalakkið sem Agnes setti á mig rétt fyrir túr. Aftur, skólaverkefni, en mér líkaði það ansi hreint vel. Brók og bolur fara í þvalblautan hnykil og á stað þar sem hann blotnar ekki enn meira. Ég er svo með sérstakan sekk úti í rútu þar sem ég safna þessu saman. Þið viljið ekki opna hann.
Ég kem sjampóinu fyrir inni í sturtuklefanum og skrúfa frá. Ef vatnið er ekki skítkalt heldur það illa hitastillingu. Þessi tilfinning þegar maður er alltaf klár í að stökkva undan og getur aldrei notið þess að standa undir sturtunni. Já, ef það væri hægt. Afar oft er það svo að hvergi er hægt að hengja sturtuhausinn og því verður maður bara að bleyta sig, skrúfa fyrir, leggja hausinn frá sér, sápa sig, skrúfa frá og skola síðan. Illa. Þetta er verra. Þetta er verra fyrir alla. Þetta gerir mig alveg brjálaðan. En stundum er hægt að hengja dótið upp. Þá stendur maður undir bununni með lokuð augun og reynir að gleyma því hversu langt er í að maður komist heim. Maður vaknar svo við drauminn þegar rotta strýkst við fótinn á manni. Augun galopnast og taugakerfið kippir fætinum upp. Þarna er engin rotta. Sturtubotninn er stíflaður og orðinn fullur. Vonandi hefur ekki allt flætt út á gólf en rottuhelvítið er eiginlega enn ógeðslegri hlutur en rotta. Nefnilega hnausþykk hárflækja sem flotið hefur upp úr svelgnum og er samtvinnað genamengi allra síðhærðu þungarokkaranna sem þarna hafa baðað sig þetta árið. Þarna er ekkert annað að gera en að stíga út úr sturtunni, skola á sér fæturna og horfa framhjá því hvað maður er enn ógeðslegur.
Handklæðið er pínulítið og slitið og fljótlega hætt að þerra mann heldur færist bleytan bara svona um líkamann. Gólfið er grútdrullugt og þá er ég að tala um svarta, þunnfljótandi leðju sem er blanda af skósólaskít og yfirfalli úr sturtunni. Hér fer allt á random. Ég klæði mig í einhverri móðu, pakka öllu ofan í töskuna í flýti og geng síðan á jörkunum út úr þessu helvíti sveppasýkinga og svartadauða.
Fótsnyrtingin í dag var fullkomlega frábær. Nudd og rasp og klipp og krem og hiti. Og hreinlæti. Hún meira að segja tók af mér naglalakksleifarnar sem voru orðnar ansi sjabbí eftir túrinn. Nýtt lakk í kvöld. Spurning um að halda sig við rauða litinn eða vera pínu væld og prófa eitthvað annað?
Athugasemdir