Í kjölfar tilnefningar Kjarnans til blaðamannaverðlauna Íslands fyrir umfjöllun um misskiptingu auðs og gæða á Íslandi ritar ritstjóri Kjarnans eftirfarandi um mikilvægi þeirrar umfjöllunar og annarrar um fjármál Íslendinga:
Framsetning ofangreindra staðreynda, samhengi þeirra og greining á þeim er mikilvægur grundvöllur fyrir vitræna umræðu um kjarna pólitískra átaka, skiptingu þeirra gæða sem verða til í íslensku samfélagi.
Þetta er hárrétt, og vil ég leggja mitt af mörkum til umræðunnar með því að leiðrétta nokkur atriði í fréttaskýringu Kjarnans sem birtist 4. október síðastliðinn. Hér verður eingöngu horft til þriggja fyrstu efnisgreina þeirrar fréttaskýringar. Þar má finna að minnsta kosti tvær alvarlegar villur, eitt dæmi um afleita framsetningu og ein augljós mistök. Þar segir:
Af þeirri hreinu eign sem orðið hefur til frá 2010 hafa 527,4 milljarðar króna runnið til þeirra tíu prósent Íslendinga, alls 20.251 einstaklinga, sem eiga mest. Það þýðir að tæplega fjórar af hverjum tíu krónum sem orðið hafa til af nýjum auð á þessum sex árum hafa farið til ríkasta hóps landsmanna. Í fyrra jókst auður þessarar tíundar um 185 milljarða króna, eða um 9,1 milljón krónur að meðaltali á hvern einstakling sem tilheyrir henni.
Raunin er þó sú að gögnin taka ekki til einstaklinga heldur fjölskyldna, auður aðila í ríkustu tíundinni jókst ekki um 9,1 milljón krónur á árinu 2015, og hlutfall króna sem runnið hefur til tíundarinnar er blekkjandi mælikvarði á aukna misskiptingu eigna.
Sem áður sagði taka gögnin sem unnið er með ekki til einstaklinga, heldur fjölskyldna, þar sem fjölskylda telst vera annað hvort einstaklingur eða hjón. Því er um að ræða 20.251 fjölskyldu, en mun fleiri einstaklinga. Ef hlutfallið milli samskattaðra (hjóna) og einhleypinga meðal þeirra sem áttu mesta verga eign í árslok 2015 er notað til að meta fjölda einstaklinga sést að fjöldi einstaklinga er nær 36.500 (1). Þessum mun á fjölskyldu og einstaklingi verður að halda til haga þar sem hrein eign tveggja einstaklinga er lögð saman í gögnunum þegar um hjón er að ræða.
Seinni villan er sú að ekki er rétt reiknað hvernig auður aðila í ríkustu tíund jókst á árinu 2015, en samkvæmt Kjarnanum var aukningin um 9,1 milljón króna að meðaltali milli ára (fréttaskýringin er rituð 2016). Sú niðurstaða er fengin með því að deila mismuni á heildarauði hópsins í árslok 2015 og árslok 2014 með fjölda í hópnum árið 2015. Þessi nálgun tekur ekki tillit til fjölgunar í hópnum milli ára. Þegar rétt er reiknað fæst út að heildareign jókst um 6,8 milljónir. Sú tala fangar þó ekki raunverulega eignaaukningu þar sem um ræðir aukningu á nafnvirði. Þegar rétt er reiknað og tekið tillit til verðbólgu jókst heildareign um 5,1 milljón á verðlagi 2015 (2). Þegar rétt er reiknað, tillit tekið til verðbólgu, og haft í huga að í flestum tilfellum er um hjón að ræða, jókst heildareignin á einstakling enn minna.
Sú fullyrðing að fjórar krónur af tíu hafi fallið í skaut ríkustu tíundar er svo í meira lagi blekkjandi. Á umræddu tímabili hefur verið verðbólga, sem þýðir að eignameiri hópar þurfa meiri aukningu á höfuðstól sínum en aðrir í krónum talið bara til að halda í við breytt verðlag. Það er þannig tæknilega rétt að hópurinn hafi eignast fjórar af hverjum tíu krónum, en hópurinn eignaðist umtalsvert minna af auknum kaupmætti, eða tuttugu og sex prósent (3). Enn fremur má hafa í huga að þessi ríkasta tíund telur fleiri hjón en lægri tíundir, svo þessi kaupmáttaraukning deilist á yfir tíu prósent einstaklinga yfir sextán ára aldri. Við þetta bætist svo á hinn bóginn fyrirvari þess efnis að hlutabréfaverð er talið á nafnvirði, en ekki markaðsvirði, og er það til óþekktrar lækkunar á mældri eignaaukningu.
Þau mistök sem nefnd voru í upphafi greinar voru svo að milli ársloka 2010 og ársloka 2015 liðu ekki sex ár, heldur fimm. Það er þó auðvitað algjört aukaatriði.
Gögn Hafstofunnar eru mjög takmörkuð. Þar er hjónum og einstaklingum blandað saman, unglingar í foreldrahúsum eru taldir sem sérstök fjölskylda frá 16 ára aldri, og hlutabréf talin á nafnvirði svo eitthvað sé nefnt. Sérstaka aðgát verður því að hafa við notkun gagnanna, því jafnvel þegar rétt er reiknað gætu niðurstöður verið misvísandi eða hreinlega rangar. Því miður virðist eitthvað hafa farið úrskeiðis í þetta sinnið.
Annars þakka ég Kjarnanum — og ritstjóranum sérstaklega — fyrir góð störf gegnum árin og hvet alla til að styrkja Kjarnann mánaðarlega, sem og Stundina og aðra frjálsa fjölmiðla.
--------------------------------------------------
Útreikningar og heimildir:
(1) http://stundin.is/pistill/malflutningur-oddnyjar-hardardottur-um-ojofnud-lei/
(2) (eign á mann í ríkustu tíund 2015)−(eign á mann í ríkustu tíund 2014, núvirt til 2015) = (1880100÷20251)−((1695403×(430,8÷422,3))÷19711) = eignaaukning um 5,1 milljón milli ára á verðlagi 2015. Heimild: Hagstofan, sjá http://px.hagstofa.is/pxis/sq/e6327349-fa11-4018-88b1-9486a3f65015 og http://px.hagstofa.is/pxis/sq/1562d886-1bfd-4b70-905a-ad053f349c4d
(3) (eiginfjáraukning ríkustu tíundar)÷(eiginfjáraukning allra tíunda) = (1880100−1589181)÷(2949212−1838494) = 26% af eiginfjáraukningu. Heimild: Hagstofan, sjá http://px.hagstofa.is/pxis/sq/7a42b8ae-be24-4145-8d2a-c05a4289163c og http://px.hagstofa.is/pxis/sq/017dab7c-8232-441c-93ae-5f2b31269db2
---------------------------------------------------
Fyrri umfjöllun höfundar um gagnameðferð:
Forsíðufrétt Fréttablaðsins um ójöfnuð leiðrétt
Málflutningur Oddnýjar Harðardóttur um ójöfnuð leiðréttur
Málflutningur Bjarna Benediktssonar um tekjuskatt leiðréttur
Athugasemdir