Fyrir skemmstu var upplýst um þátttöku þriggja ráðherra ríkisstjórnar Íslands í skattaskjólsiðnaði – þeirri meinsemd í alþjóðahagkerfinu sem ríki OECD hafa um árabil beitt sér gegn. Í kjölfar þessara afhjúpana hafa ráðandi öfl beitt ýmsum brögðum, annars vegar til að beina athyglinni frá því að íslenskir ráðherrar koma fyrir í Panama-skjölunum og hins vegar til að gera hvers kyns umfjöllun um málið tortryggilega. Þessar tilraunir, sem oft á köflum hafa reynst klaufalegar, eru afhjúpandi fyrir þá sem að þeim standa og því ágætt að halda þeim til haga.
1.
Í marsmánuði fjallaði Ríkisútvarpið talsvert um Wintris-mál Sigmundar Davíðs í fréttum og fréttatengdri dagskrá. Tveimur fræðimönnum við Háskóla Íslands, heimspekingunum Jóni Ólafssyni og Vilhjálmi Árnasyni, var boðið í viðtöl auk þess sem rætt var við Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi skattrannsóknarstjóra, um málefni aflandsfélaga almennt (enda fáir Íslendingar betur að sér um málefnið). Þá var spjallað við þingmenn stjórnflokkanna um málið, þá Frosta Sigurjónsson og Vilhjálm Bjarnason og leitað til Jóhannesar Þórs Skúlasonar aðstoðarmanns Sigmundar vegna spurninga sem vöknuðu. Sjálfur kærði forsætisráðherra sig ekki um að koma í viðtal, en RÚV gerði engu að síður útskýringum hans og eiginkonu hans ítarleg skil.
Þegar umræðan um málefni Sigmundar færðist í aukana brugðu þingmenn Framsóknarflokksins, þeir Karl Garðarsson og Þorsteinn Sæmundsson, á það ráð að hjóla í Ríkisútvarpið og saka það um „herferð gegn forsætisráðherra“. Í leiðinni gerðu þeir sitt besta til að grafa undan trúverðugleika þeirra þriggja sérfræðinga sem getið er hér að ofan. Þeir höfðu jú dirfst að tjá sig, ýmist um stjórnmálasiðferði eða málefni aflandsfélaga. Jón Ólafsson var brennimerktur sem „sérstakur trúnaðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur“ og ýjað að því að hann væri bara svekktur yfir því að hafa misst bitling. Eins þótti þingmönnunum ótækt að Vilhjálmur Árnason fengi að tjá sig um málefni forsætisráðherra, hann hefði jú verið hlynntur samningaleiðinni í Icesave-málinu og hlyti að hafa óbeit á Sigmundi Davíð. Indriði Þorláksson var undir sömu sökina seldur – alveg óboðlegt að leyfa honum að tala um aflandsfélög í Ríkisútvarpinu, hann sat í Icesave-samninganefndinni og hlýtur að hata Sigmund.
Þorsteinn Sæmundsson skrifaði tvo pistla til varnar forsætisráðherra. Annar þeirra var að miklu leyti orðrétt endurbirting á texta eftir Karl Garðarsson og hinn pistillinn var mikil lofræða um yfirburðamanninn Sigmund Davíð. „Hann á framsýni, kjark og dug (...) Þess vegna hefur þetta ógæfufólk hamast á forsætisráðherra hvern dag í þrjú ár en auðvitað án árangurs því niðurrifið og hælbitin efla Sigmund Davíð í hverri raun,“ skrifaði Þorsteinn og úthúðaði þvínæst Vilhjálmi Bjarnasyni, eina þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem hafði vogað sér að gagnrýna forsætisráðherra. Að sögn Þorsteins er Vilhjálmur „hjárænulegur”, „í vandræðum með sjálfsmynd sína“ og lætur „vinstrið siga sér eins og rakka vegna einhverrar minnimáttarkenndar“ á forsætisráðherra. Greinin er satt best að segja einhver fyndnasta birtingarmynd foringjadýrkunar í íslenskum stjórnmálum sem ég hef séð.
Karl Garðarsson er sjálfur fyrrverandi fréttamaður og ég efast um að hann trúi því raunverulega að Ríkisútvarpið sé í samstilltri eða skipulegri herferð gegn Sigmundi Davíð. Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort markmið þingmannanna með kenningum þess efnis hafi kannski helst verið að grafa undan trúverðugleika Ríkisútvarpsins rétt áður en þáttur Kastljóss um aflandsfélög ráðamanna fór í loftið. Að sá þeirri hugmynd að í Efstaleiti réðu annarlegar hvatir för. Um leið sendu þingmennirnir skýr skilaboð um að fræðimenn og aðrir sem voguðu sér að tjá sig um málefni forsætisráðherra mættu eiga von á rætnum persónuárásum og að verða stimplaðir sem handbendi stjórnmálaafla.
Háttsemi Karls og Þorsteins er reyndar hluti af mynstri sem teygir sig mörg ár aftur í tímann. Ekki eru nema tvö ár síðan forsætisráðherra kvartaði undan „krossförum“ í háskólasamfélaginu og virtist þá sérstaklega vísa til Þórólfs Matthíassonar hagfræðings. Ef leitað er ögn lengra sjáum við Vigdísi Hauksdóttur, núverandi formann fjárlaganefndar, beinlínis kalla eftir atvinnumissi fræðimanns sem viðrað hafði skoðanir sem voru henni ekki þóknanlegar.
2.
Þann 28. mars, eftir að upplýst hafði verið um aflandsfélag forsætisráðherrahjónanna birti Eyjan frétt þar sem fullyrt var að nöfn „áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni“ væri að finna í Panama-gögnum Alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðsins Süddeutsche Zeitung. „Eyjan hefur heimildir fyrir því að áhrifamaður innan Samfylkingarinnar eigi einnig aflandsfélag sem vistað er í skattaskjóli,“ sagði í fréttinni. „Sá hefur tekið virkan þátt í stefnumótun Samfylkingarinnar í efnahagsmálum undanfarin ár, einnig þegar hún fór með forsæti í ríkisstjórn.“ Tveimur dögum síðar birti Eyjan aðra frétt þar sem fram kom að áhrifamaðurinn væri Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, sem skömmu síðar sagði sig úr stjórn flokksins. Áður hafði komið fram í frétt DV árið 2012 að Vilhjálmur ætti félag í Lúxemborg. Þannig var ekki um nýjar upplýsingar að ræða í frétt Eyjunnar. Nú liggur fyrir að nafn Vilhjálms er hvergi að finna í gögnum ICIJ og Süddeutsche Zeitung og fullyrðing Eyjunnar þess efnis því röng.
Morgunblaðið hjó svo í sama knérunn og bendlaði Sigurmar K. Albertsson, eiginmann Álfheiðar Ingadóttur, fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna, við aflandsfélag með vísan til Panama-gagnanna. Síðar um daginn var greint frá því að Sigurmar hafði hætt í stjórn umrædds félags þann 10. febrúar 2006, en samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá Lúxemborgar var félagið skráð á Bresku Jómfrúareyjunum í árslok 2010. Loks kom í ljós að nafn Sigurmars er hvergi að finna í Panama-skjölunum, ekki frekar en nafn Vilhjálms Þorsteinssonar.
Með því að spyrða menn tengda stjórnarandstöðuflokkunum ranglega við Panama-skjölin er athyglinni beint frá þeirri staðreynd að forystufólk stjórnarflokkanna geymdi eignir í aflandsfélögum án þess að greina frá því og virðist raunar ekki telja neitt athugavert við að pólitíkusar taki þátt í skattaskjólsiðnaði á borð við þann sem Mossack Fonseca stendur fyrir. Auk þess er ýtt undir þá hugmynd að annar hver stjórnmálaflokkur sé hvorteðer á kafi í einhverju aflandsbixi.
3.
Eftir að Wintris-málið komst í hámæli notaði Sigmundur Davíð óspart eiginkonu sína, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, sem skjöld gegn gagnrýni. Bandamenn hans í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum gerðu slíkt hið sama auk þess sem forseti Alþingis beinlínis harmaði „þá uppákomu“ að rætt væri um málið í þingsal. Látið var í veðri vaka að það væri ósmekklegt gagnvart Önnu Sigurlaugu að spyrja spurninga um félagið Wintris.
Það mátti hins vegar allt frá upphafi vera ljóst að Wintris-málið snerist ekki um Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur heldur um tengsl forsætisráðherra Íslands við aflandsfélag, það að hann kaus að halda tilvist þess leyndu og loks þá staðreynd að Sigmundur átti hundruða milljóna króna hagsmuna að gæta af viðureign stjórnvalda við kröfuhafa – í hagsmunamáli og ferli sem hann tók sjálfur þátt í að móta og fylgja eftir.
Sigmundur skrifaði sérstaka grein um eiginkonu sína og gekk svo langt að spyrja hvort hann þyrfti að skilja við hana til að geta haldið áfram þátttöku í stjórnmálum. Þegar Kastljóssþátturinn frægi var loks sýndur kom í ljós að Sigmundur átti sjálfur prókúru að félaginu Wintris auk þess sem ekkert í gögnum Mossack Fonseca bendir til þess að prókúra hans hafi verið afturkölluð né að félagið hafi verið skráð á hann sjálfan fyrir misskilning eða mistök. Viðleitni Sigmundar til að fjarlægja sjálfan sig félaginu og beina athyglinni að eiginkonu sinni virðist því ekki bara hafa verið ómakleg og hallærisleg, heldur einnig villandi.
4.
Þann 24. mars veitti þáverandi forsætisráðherra Útvarp Sögu viðtal um Wintris-málið. Í viðtalinu hvatti Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri hann eindregið til að aflétta 110 ára leynd af því sem hún kallaði „110 ára fjármálaboxið“. „Er ekki hægt að aflétta þeim lögum og bara opinbera það sem er í þessu boxi?“ spurði Arnþrúður. „Það hlýtur að vera hægt,“ svaraði Sigmundur. „Ef það eru hagsmunir almennings að gera það, þá hlýtur það að vera hægt.“
Nokkrum dögum síðar birtist eftirfarandi tilkynning á vef Framsóknarflokksins:
Fjölmiðlar átu þetta hrátt upp. Fyrst birti RÚV (miðillinn sem framsóknarmönnum finnst óalandi og óferjandi) frétt um að Framsókn vildi aflétta „110 ára leynd yfir öllum gögnum er varða uppgjör á þrotabúi föllnu bankanna, allt frá hruni og til dagsins í dag“. Þar á eftir birti Eyjan frétt þar sem vísað var til 110 ára reglunnar og fullyrt að undir hana féllu „gögn er varða uppgjör á þrotabúi föllnu bankanna“.
Það þurfti hins vegar ekki nema lágmarkseftirgrennslan á Alþingisvefnum til að átta sig á að 110 ára reglan hefur ekkert með „gögn er varða uppgjör á þrotabúi föllnu bankanna“ að gera. Í fyrsta lagi hefur reglunni aldrei verið beitt, líkt og skýrt kom fram í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur í fyrra og þingmenn Framsóknarflokksins máttu vita (þjóðskjalavörður fann sig knúinn til að ítreka, vegna þeirrar umræðu sem Framsókn hratt af stað, að engin gögn njóta 110 ára leyndar). Í öðru lagi var reglan fest í sessi á yfirstandandi kjörtímabili með lögum Illuga Gunnarssonar um opinber skjalasöfn. Hið kaldhæðnislega er að þingflokkur Framsóknarflokksins greiddi atkvæði með lögunum, þar á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ásmundur Einar Daðason, Frosti Sigurjónsson, Sigrún Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Vigdís Hauksdóttir. Auk þess var Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona flokksins, framsögumaður allsherjar- og menntamálanefndar þegar málið var til meðferðar á þinginu.
Eftir standa spurningar eins og þessar: Hafði þingflokkurinn ekki hugmynd um efni frumvarpsins sem hann greiddi atkvæði með? Las Vigdís Hauksdóttir ekki svarið við fyrirspurn sinni eða las kannski enginn í þingflokki Framsóknarflokksins svarið? Vissi í alvörunni enginn þingmaður flokksins að 110 ára reglan hefur ekkert með gögn um þrotabú föllnu bankanna að gera og að reglunni hefur aldrei verið beitt? Las enginn sér til um málið áður en þingflokksfundurinn hófst? Fann enginn sig knúinn til að láta leiðrétta tilkynninguna sem birt var á vef flokksins? Á maður að trúa því að heill þingflokkur hafi ákveðið að hunsa staðreyndir vísvitandi, gengist hugarórum Arnþrúðar Karlsdóttur á hönd og gert sig að athlægi til þess eins að beina athyglinni frá vandræðamáli leiðtoga síns?
Um daginn líkti ágætur pistlahöfundur þingmönnum Framsóknarflokksins við „sannfærða stuðningsmenn Vísindakirkjunnar“. Það er hálfóhugnanlegt að horfa upp á hóp manna sem fer með raunveruleg völd í samfélaginu afsala sér gagnrýninni hugsun og vaða áfram í blindri sannfæringu þess að þeir og leiðtogi þeirra hafi höndlað sannleikann; allir sem halli á þá orði hljóti annaðhvort að misskilja eða stjórnast af annarlegum hvötum. Þegar þetta mentalítet ræður för helgar tilgangurinn meðalið. Þá má afvegaleiða og skrökva til að verja sinn mann og rógbera gagnrýnendur hans.
Frænka Davíðs Oddssonar klíndi smjörklípum á skott kisunnar sinnar. Hann tileinkaði sér þá list í pólitík, en hjá þingflokki Framsóknarflokksins virðast smjörklípurnar aðallega lenda á þeirra eigin skottum. Einn daginn, þegar rykið hefur sest, munu þau kannski losna úr álögunum og líða eins og kjánum.
Athugasemdir