Alltaf annað veifið gerist það að við heyrum orðræðu sem gefur okkur tilefni til að staldra við og hugsa. Það er einsog við sjáum nýtt samhengi eða nýja leið til að sjá samhengið. Ein merkileg samsuða orða kemur oft fram þegar við ræðum um þjóðir, hneigðir og afstöðu ólíkra hópa. Stundum gerist þetta með þeim hætti að einum hóp er ýtt til hliðar svo annar megi sjást. Eða þá að einn hópur er sérstaklega settur á stall. En þá er einnig dulin ætlun að gera öðrum hópum þann óleik að láta þá nánast vera ósýnilega.
Um daginn heyrði ég mann, sem er kvæntur konu af asískum uppruna, taka þannig til orða að „þetta fólk“ ætti að njóta stuðnings Íslendinga, að „þetta fólk“ ætti að fá að standa Íslendingum jafnfætis, að „þetta fólk“ ætti að fá sömu tækifæri og „við hin“ í samfélagi sem ætti ekki að vera háð lúalegu og niðurlægjandi flokkunarkerfi.
Ég tek fram að þessir frasar sem eru innan gæsaleppa eru ekki nein einkauppfinning þessa manns, þeir eru okkur svo tamir á tungu að þeir flögra um án allrar áreynslu. Við lítum svo á, að okkur sé eðlilegt að flokka heimsbyggðina í „þetta fólk“ og „okkur hin“ svona til þess að aðgreiningin megi vera augljós í orðræðunni og þá er hugsunin oftar en ekki sú, að þessi þáttur orðanna megi ekki teygja sig út fyrir orðarammann. Við viljum aðgreina mátt orða og mátt merkingar í samskiptum. En ef „þetta fólk“ og „við hin“ – aðgreinanlegir hópar – eigum að geta notið sannmælis og sams konar réttinda þá verðum við að gæta tungu okkar, reyna að forðast niðurlægjandi aðgreiningu, vegna þess að orðræðuaðgreining er svo skelfilega lúmsk.
Það er í raun og veru hræsni falin í því að mikla sig t.d. af því að „við“ tökum á móti svo og svo mörgum flóttamönnum og að við „sættum okkur við“ trúhneigð þeirra sem hingað koma. Staðreyndin er sú, að óttinn sem hin vestræna pólitík heldur að okkur, fær okkur til að hugsa þá hugsun að líklega væri best ef allir væru einsog við. „Við hin“ erum nefnilega svo svakalega klár og við getum alltaf skákað í skjóli hugtaks sem kallast kristilegt siðgæði. Og jafnvel þótt enginn skilji þetta hugtak þá skal það hafa gildi sem er æðra öðrum.
Nýverið heyrði ég umræðu um þrifnað og sóðaskap. Ung kona var þar nefnd til sögunnar. En þegar móðir hennar hafði tjáð sig um yfirburði dótturinnar á sviði sóðaskapar, þá tók systir hennar upp hanskann og sagði: „Þess vegna elskum við hana.“ Já, okkur má ljóst vera að „við hin“ og „þetta fólk“ er sama hjörðin og það sem styrkir okkur og virkilega gefur okkur hlutverk er sú staðreynd að við erum einstök vegna þess að við erum ólík.
Ég fyrirmynd vart finna má
og fæ ég því sem slíkur
að vera, einsog allir sjá,
engum manni líkur.
Athugasemdir