„Þetta er bara vara sem ég er að selja,“ segir Bragi Ólafsson rithöfundur í viðtali við Reykjavík vikublað um þá ákvörðun sína að selja fjárfestingarfyrirtækinu GAMMA skáldverkið Bögglapóststofuna fyrir síðustu jól. GAMMA gaf viðskiptavinum sínum og velunnurum svo bókina til að auglýsa fyrirtækið. Verkið var skilgreint sem „markpóstur“ - ekki bókmenntaverk - og var tilnefnt til markaðsverðlauna. Alls var um að ræða 300 eintök af bókinni sem GAMMA gaf.
Loksins þegar einhver fær Braga til að tala um Bögglapóststofuna kemur í ljós að forsendurnar fyrir útgáfunni virðast vera byggðar á misskilningi hjá honum.
Bögglapóststofan og beikonbugður
Bragi virðist telja að hann hafi bara verið að selja vöruna Bögglapóststofuna til GAMMA og ekkert annað. Varan Bögglapósstofan er samkvæmt þessu ekki ólík tveggja lítra kókflösku, Lindu-Buffi eða poka af brakandi beikonbugðum sem gengur frá seljanda til kaupanda fyrir tiltekið verð.
Almennt séð má segja að þegar seljandi hefur afhent slíkar vörur til kaupandans að viðskiptunum sé þar með yfirleitt lokið og engar spurningar vakna um siðferðilegt réttmæti sölunnar. Við efumst yfirleitt ekki um réttmæti slíkra viðskipta af því að þau eru klippt og skorin og það sem gengur kaupum og sölum er bara það sem skiptir um hendur: Bónus fær 370 kall og viðskiptavinurinn fær beikonbugðurnar sínar. Viðskiptin búin - sögulok.
Á þetta einnig við um viðskipti Braga og GAMMA? Eru þau viðskipti svona einföld, bara eins og að skjótast út í búð eftir nýjustu DVD-ræmunni? Hvað segir innsæi þitt um það? Fjandinn hafi það: Nei.
Forsendur GAMMA
GAMMA hefur að ég held takmarkaðan áhuga í raun á vörunni sem Bragi er að selja enda er fjármálafyrirtækið ekki bara að kaupa þetta uppkast að leikriti sem rithöfundurinn selur því. Höfundurinn hefði getað selt GAMMA einblöðung með engum texta á og kallað verkið „Án titils“ - það hefði uppfyllt þörf GAMMA eftir hugverki í auglýsingaskyni úr hendi Braga. Engu skiptir hvaða hugsmíð hann hefði dregið upp úr hatti sínum.
Án þess að ég viti nokkuð um það þá finnst mér líka líklegt að flest þessara 300 eintaka séu ólesin hjá viðtakendunum þó sendingin hafi örugglega kallað fram jákvæð og sérstök hughrif fyrst um sinn. Ástæðan: Les fólk yfirleitt „markpóst“? Nei, sjálfsagt ekki þó fleiri lesi hann örugglega ef hann er eftir Braga Ólafsson.
Bragi er að selja GAMMA nafn sitt, ímynd sína og orðspor í gegnum söluna á vörunni Bögglapóststofunni. GAMMA vill tengja nafn sitt og nafn Braga saman af því að hann er þekktur og mikils metinn rithöfundur. Sömu forsendur liggja á bak við það þegar GAMMA ákveður að styrkja Sinfóníuhljómsveit Íslands; fyrirtækið vill að sú góða og óumdeilda ímynd sem sinfónían eðlilega hefur smitist yfir á þetta umdeilda og harðsnúna fjárfestingarfélag.
Varan Bögglapóststofan er hins vegar lykillinn að viðskiptunum því Bragi skrifar og selur bækur, þó yfirleitt sé það á öðrum forsendum, og þess vegna virðist hann halda að hann sé bara að selja GAMMA hverja aðra vöru. Ólíklegt verður að teljast að Bragi hefði leikið í auglýsingu fyrir GAMMA en hann selur fyrirtækinu bók af því það er það sem að hann fæst við, það er hans fag.
Bragi er því ekki „bara“ að selja GAMMA vöru sem hann hefur búið til; vöru sem líkja má við hvers konar annan hlut. Bragi er fyrst og fremst „bara“ að selja GAMMA Braga. Auðvitað er Bragi ekki að selja GAMMA sig til eignar heldur er hann að selja fyrirtækinu ímynd sína tímabundið til auglýsingar.
Reyndar er svo ákveðinn varanleiki í þeirri sölu þar sem hluturinn, varan Bögglapóststofan, minnir alltaf á viðskiptasamband Braga og GAMMA. Prentaða verkið Bögglapóststofan er til bara af því að þetta viðskiptasamband komst á milli Braga og GAMMA.
Bragi er auðvitað frjáls
Nú mun örugglega einhver dæsa og segja að nú sé nóg komið, að verið sé að gera of mikið úr litlu, og að þessi „díll“ Braga og GAMMA skipti nú ekki svo miklu. Auðvitað getur og má Bragi skrifa það sem hann vill fyrir hvern sem er á þeim forsendum sem hann vill. Bragi er frjáls maður og höfundur og getur ákveðið að selja þær hugsmíðar sem hann býr til.
En svör hans um viðskiptin við GAMMA benda til að hann viti ekki alveg hvað hann var að selja og þá líka hvað það var sem GAMMA var að kaupa af honum og af hverju. Þeir sem vilja mega líka og geta gagnrýnt Braga fyrir það sem hann gerði út frá þeim forsendum sem hann gerði það á. Bragi er frjáls en hugsanlegur gagnrýnandi hans er það líka.
Þannig er Bragi að selja ímynd sína og orðspor til umdeilds fjárfestingarfélags svo það geti notað hana til að mýkja ímynd sína með því að tengja sig við persónu frægs og virts rithöfundar. Hann virðist meira að segja átta sig á þessu sjálfur miðað við hvernig hann talar um verkið, „vöruna“, sem hann seldi GAMMA; eins og hann viti sjálfur að þetta uppkast sé nú ekki mikils virði í listrænum skilningi. Hann hlýtur því að spyrja sig að því af hverju GAMMA vilji eiga í þessum viðskiptum við hann. Jú: Þetta er fáguð og flott markaðsmennska fyrir fyrirtæki sem hefur áhuga á jákvæðu PR-i fyrir sig.
„Ég lít ekki svo á að rithöfundur hafi meiri samfélagslega ábyrgð en myndlistarmaður eða tónlistarmaður eða bara múrari og hvað sem er.“
Afleiðingar misskilnings
Ýmislegt annað sem Bragi segir í viðtalinu er afleiðing af þessum misskilningi hans um hvað það er sem hann var að selja. Bragi segir til dæmis að hann telji ekki að rithöfundar hafi meiri samfélagslega ábyrgð en aðrir. „Ég lít ekki svo á að rithöfundur hafi meiri samfélagslega ábyrgð en myndlistarmaður eða tónlistarmaður eða bara múrari og hvað sem er.“
Þessi staðhæfing Braga bendir til þess - aftur - að hann átti sig ekki á því hvað hann var að selja til GAMMA. Af hverju hefur GAMMA áhuga á því að nota verk eftir Braga í auglýsingaskyni frekar en til dæmis einhverja smíð eftir ótilgreindan múrara? Það er af því Bragi er virtur og mikils metinn og fyrirtækið telur sig græða orðsporslega á tengingunni við hann út á við. Sá gróði er hins vegar ómælanlegur og algjörlega huglægur; þetta er hugmyndafræðileg viðskiptavild. Bragi Ólafsson er ekki eins og hver annar óþekktur múrari - með fullri virðingu fyrir þeim - og það er einmitt þess vegna sem GAMMA vill nota hann í auglýsingaskyni fyrir sig.
Kynnti sér ekki kaupandann
Svo bætist við þetta að Bragi kynnti sér ekki fyrirtækið sem hann var að selja ímynd sína áður en hann gerði það. Þetta kom fram i viðtalinu við hann. GAMMA hefur stundað það í miklum mæli á undanförnum árum að kaupa upp íbúðarhúsnæði á frjálsum markaði í samkeppni við einstaklinga og fjölskyldur sem eru ekki eins fjárhagslega burðugar og þetta fyrirtæki. Svo leigir fyrirtækið þessar eignir til einstaklinga og fjölskyldna á uppsprengu verði. GAMMA hefur því tekið þátt í því - ég fullyrði ekkert um hversu lítið eða mikið - að ýta upp fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu og einnig leiguverði með því að byrja að veðja á húsnæðismarkaðinn í von um gróða.
Bragi segist ekki hafa samfélagslega ábyrgð umfram aðra en hann vill örugglega ekki að ímynd hans sé misnotuð. Hann vill örugglega bera ábyrgð á sjálfum sér en þarna virðist hann hafa gleymt því eða ekki áttað sig á stöðunni. Með öðrum orðum: Bragi virðist ekki hafa vitað almennilega hvað hann var að gera.
„Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að ef ég færi að stunda þetta reglulega að birta fyrir útvaldan lesendahóp þá fyndist mér það mjög rangt.“
Leiðinlegt og sorglegt
Sjálfum finnst mér að rithöfundar, að minnsta kosti þeir færustu og bestu sem ná sem flestum eyrum, beri ákveðna samfélagslega ábyrgð eða geti gert það með orðum sínum og hyggjuviti. Enski rithöfundurinn Martin Amis sagði einhvern tímann að rithöfundar væru, eða gætu verið, í því hlutverki að vera eins og hjörtu þjóða sinna. Þetta kann að hljóma dramatískt en mér finnst vera sannleikskorn í þessu og þegar ég lít á til dæmis höfunda eins og Guðmund Andra og Jón Kalman þá eru þeir einmitt tvö góð dæmi um nákvæmlega þetta þegar þeir blanda sér í samfélagsumræðuna. Þeir reyna að segja það sem þeir telja satt, siðlegt og skynsamlegt. Þeir reyna að vera siðvitar á eigin forsendum.
Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst leiðinlegt og sorglegt að sjá eins færan rithöfund og Braga láta fjárfestingarfélag eins og GAMMA misnota nafn sitt og ímynd með þessum hætti. Það er af því að ég met Braga mikils sem lesandi bóka hans í gegnum tíðina, þó ég verði að viðurkenna að mér finnist fyrstu skáldsögur hans betri en þær síðustu.
Hugsanlega hljómar það hátimbrað en mér finnst Bragi vera yfir þetta hafinn; mér finnst hann yfir GAMMA hafinn. GAMMA er ekki Rauði krossinn, Unicef eða Læknar án landamæra heldur harðsvírað fyrirtæki sem stundar áhættufjárfestingar í gróðaskyni fyrir eigendur sína. Fjárfestingarfyrirtækið þjónar engum samfélagslegum tilgangi og gerir ekkert gagn fyrir neina nema starfsmenn sína og hluthafa. Hið sama ætti við ef einhver annar fær og mikils metinn íslenskur rithöfundur myndi gera það sem Bragi gerði.
Þegar við bætist að Bragi virðist hafa misskilið eðli viðskiptanna, eða segir að minnsta kosti frá þeim eins og hann hafi „bara“ verið að selja „vöru“ en ekki sjálfan sig, ímynd sína og orðspor, þá versnar skoðun mín á málinu enn frekar því viðskiptin virðast byggð á misskilningi Braga.
Bragi virðist samt átta sig en...
Loks áttar hann sig á því sjálfur að „salan á verkinu“ er á gráu svæði því hann segir í viðtalinu við Reykjavík vikublað: „Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að ef ég færi að stunda þetta reglulega að birta fyrir útvaldan lesendahóp þá fyndist mér það mjög rangt.“ Í þessum orðum felst að hann veit betur en hann segist vita en kannski eðlilega er hann í vörn í ljósi stöðunnar. Eða er kannski í lagi að gera það sem Bragi gerði einu sinni en ekki fimm sinnum? Hvar liggur markið þar? Hvenær byrja slíkir „dílar“ að verða vafasamir fyrir rithöfundinn?
Maður missir eilitla trú á manninum sem veru þegar einhver sem maður virðir verður markaðsöflunum - og það nokkuð vafasömum - að bráð með þessum hætti og fyrir vikið þá bætist enn frekar við í boxi þeirra ótal hluta og gæða sem eru föl fyrir fé.
Þessi örsaga um Braga og GAMMA er svo bara enn ein fréttin sem bendir til þess að íslensk samfélag sé á nákvæmlega sömu leið og í aðdraganda síðasta hruns. Þá líka voru flest vígin fallin og múrarnir á milli viðskiptalífsins og annarra þátta samfélagsins voru orðnir óljósir, eða jafnvel horfnir alveg, og auðmenn voru hylltir á leigðu sviði Þjóðleikhússins eftir að hafa horft á uppfærslu um eigið líf. Kannski kenndi það hrun okkur ekkert þrátt fyrir allt.
Þeir sem eiga og stýra fjármagninu vilja á endanum eignast allt, líka menninguna því hún er eins og blóm fyrir boðung þess sem kannski hefur eitthvað að fela og vill líta út fyrir að vera siðlegri og manneskjulegri.
Ég vona svo bara innilega að Bragi Ólafsson skrifi fleiri góðar bækur í framtíðinni, líkt og hann hefur gert hingað til, en að Bögglapóststofan verði sú eina fyrir GAMMA eða önnur fyrirtæki.
Athugasemdir