Um daginn keypti ég svo í fyrsta sinn þjónustu frá fyrirtæki sem kemur með mat í þrjár máltíðir heim að dyrum til þín. Þú eldar samkvæmt uppskrift frá þeim og allir eru að sögn sáttir. Af hverju gerði ég þetta? Jú, allar kúl húsmæðurnar eru að gera þetta og þetta er svo ótrúlega sniðugt. Svokallað stundarbrjálæði sumsé. Fyrsta máltíðin? Kjúklingur. Ég ætlaði nú aldeilis að sjá í gegnum fingur mér með þennan kjúkling, svona einu sinni. En það gekk ekki svo vel.
Ég las nefnilega einhvern tímann að maður ætti að vera mannlegur gagnvart börnunum sínum. Viðurkenna mistök, segja fyrirgefðu og ræða galla sína opinskátt. Ég ákvað að þetta væri góð leið að umræðunni um kjötát. Ég er uppgjafargrænmetisæta og nokkuð plöguð af samviskubiti yfir því. Í jólaboðum ét ég hangikjötið þegjandi. Þegar ég er stöðugt með vesen yfir femínisma, hinsegin málefnum, spillingu, kapítalisma, réttindum fatlaðs fólks og öllu hinu þá lendir dýraverndin því miður frekar neðarlega á forgangslistanum. Auk þess er grillað lambakjöt veikleiki minn. Hvernig get ég sagt nei við tengdó þegar hún grillar svo listilega vel og býður vínglas með? Ég hef ekki viljastyrkinn í það ennþá.
Heima setjum við samt maukað chillí í staðinn fyrir pepperóní á pitsuna, borðum pasta með sojakjöti og ræðum verksmiðjubúskap. Börnunum finnst auðvitað ekki gott mál hvernig farið er með dýrin en þar sem annað barnið veit ekkert betra en steik og beikon og hitt barnið kúgast af flestu sem heitir grænmeti hefur það að gerast grænmetisæta vafist alveg jafn mikið fyrir þeim og mér. Og þá höfum við rætt það hvernig samfélagið gerir yfirleitt ekki ráð fyrir því að fólk sé grænmetisætur og hvernig það getur verið erfitt að brjóta upp vanann. Einnig að það sé samt gott að gera sitt besta og vera meðvitaður. Það má vera breyskur.
Hvernig fór þetta þá þegar ég hafði í stundarbrjálæði pantað kjúkling heim að dyrum til að elda? Börnunum líkaði auðvitað ekki marineringin á honum. Sólþurrkaðir tómatar og eitthvað rugl í gangi. Þá vippuðu þau fimlega út grænmetisætusamviskubitstrompinu! Þetta hefur maður uppúr því að viðurkenna breyskleika sinn fyrir 7 ára fólki. Bíddu, mamma, ert þú ekki á móti því að borða kjúkling? Nema þá kannski bara þann sem er búið að fara vel með á meðan hann lifði en samt helst ekki hann heldur? Er þetta velferðarkjúklingur? Veistu það ekkert einu sinni, mamma?! Og þurfum við að borða þetta samt? Megum við sleppa kjúkling og borða bara sætu kartöflurnar? - Mínum eigin rökum slengt framan í mig á ögurstundu. Samviskubitið ljóslifandi mætt, klætt holdi afkvæma minna. Hið fullkomna sjálfskaparvíti. Hvað er annað hægt en að lúta í lægra haldi fyrir sinni eigin röksemdafærslu? Fáið ykkur endilega sætar kartöflur, lömbin mín. Þessi kjúklingur borðar sig bara sjálfur.
Athugasemdir