Davíð Oddsson líkti sjálfum sér við Eið Smára í upphafi kosningabaráttunnar. „Hann er kannski ekki sá sprækasti, hann hleypur ekki allan tímann – en ef það er kominn ofboðslega mikill taugatitringur í liðið ... Þá er einn algjörlega kúl sem sennilega mun negla boltanum inn!“
Taugatitringurinn var sannarlega mikill þegar bankarnir hrundu einn af öðrum í upphafi októbermánaðar árið 2008. Seðlabankinn var algjörlega stjórnlaus á þessum tíma, að sögn starfsmanna hans, og þar ríkti örvænting og upplausn; seðlabankastjórinn Davíð Oddsson missti kúlið á ögurstundu.
Sem sagt: Davíð er ekkert líkur Eiði Smára að þessu leyti.
En hverjum líkist hann þá?
Skagamaðurinn Pétur Pétursson er einn besti knattspyrnumaður í sögu Íslands. Hann var þekktur fyrir ótrúlegt innsæi og enginn var honum hárprúðari. Árið 1978 setti hann markamet í efstu deild á Íslandi og það stendur enn. Þá var hann nítján ára gamall.
Hann fór fljótlega til Hollands og var meðal markahæstu leikmanna Evrópu þegar best lét. Pétur segir þó farir sínar ekki sléttar í viðtali við Mannlíf árið 1986. Heimurinn getur verið harður þegar margir bítast um að fá pláss.
Gefum honum orðið: „Það er mikil öfundsýki á milli leikmanna í atvinnumennskunni og alltaf einhver reiðubúinn að svíkja mann svo lengi sem hann hagnast á því sjálfur. Besti vinur minn í Feyenoord sagði til dæmis þjálfaranum að ég væri ekki í standi til þess að spila, allt til að komast sjálfur inn á. [...] Þetta er auðvitað svarta hliðin á málunum, en svona er þetta samt.“
Við skulum kalla þennan ónafngreinda mann Svarta-Pétur. Honum tókst með ósannindum og rangfærslum að kippa besta leikmanninum úr umferð. Það samrýmist augljóslega ekki hagsmunum Feyenoord, en Svarti-Pétur var líklega ekkert að pæla í því. Hann fékk að spila!
Forsetaframbjóðandinn Davíð Oddsson notar sömu taktík og Svarti-Pétur. Hann reynir að komast í liðið með því að tala illa um keppinauta sína. Erfitt er að sjá hvernig það samrýmist hagsmunum þjóðarinnar.
Þannig erum við best
Lars Lagerbäck lagði sérstaka áherslu á liðsheildina þegar hann tók við sem þjálfari árið 2011. Hún væri forsenda árangurs og aðalatriðið að menn standi saman. – Allir þekkja framhaldið. Íslenska liðið hefur aldrei verið betra.
Landsliðsþjálfarinn var með framsögu hjá Félagi atvinnurekenda árið 2015. Þar hvatti hann forystumenn íslenskra fyrirtækja til þess að tileinka sér þessa einföldu hugsun: Mikilvægast er að tala saman; baktal skilar engu.
Davíð hefur notað kosningabaráttu sína til þess að gera lítið úr öðrum frambjóðendum. Hann hefur eitrað kappræður og snúið þeim upp í leðjuslag. Baráttan miðar fyrst og fremst að því að grafa upp drauga fortíðarinnar og bjóða þeim í dans. Og það er synd og skömm. Forsetakosningar eiga að snúast um framtíðina.
Við getum lært margt af Lars Lagerbäck. Hann hefur litla þolinmæði fyrir mönnum eins og Svarta-Pétri. Þeir eiga ekki einu sinni heima á bekknum. Mikilvægasta lexían er þó þessi: Við eigum að standa saman. Þannig erum við best.
Athugasemdir