Í síðasta pistli skrifaði ég um hversu gott ég hef það í Kúrdistan og hve lífið þar er fjarri þeirri hugmynd sem ég hafði um Írak áður en ég kom hingað. Mér finnst afskaplega mikilvægt að fólk fái líka að heyra um þessa hlið landsins og átti sig á að hér býr auðvitað alls konar fólk. Flestir eru jafnvel ósköp venjulegt fólk sem vill bara lifa sínu venjulega lífi. Fólk eins og ég og þú sem vinnur sína vinnu og fer í bíó og slakar á um helgar; einhleypir karlar, konur og fjölskyldufólk. Sumir eru trúaðir, aðrir ekki; sumir eru hámenntaðir, aðrir ekki; sumir keyra um á splunkunýjum og dýrum jeppum, aðrir á druslum eins og ég; sumir eru umburðarlyndir, aðrir ekki. Ekkert er annaðhvort bara svart eða hvítt. Ekki frekar en á Íslandinu góða.
En auðvitað er lífið í Írak, þessu stríðshrjáða landi sem nýlega var útnefnt þriðja hættulegasta land í heimi, fjarri því að vera almennt friðsælt allsnægtarlíf. Og í starfi mínu fyrir Lækna án landamæra í Ninawa-héraði í norðanverðu Írak fæ ég líka að sjá hina hliðina af landinu. Stríðshrjáðu og sorglegu hliðina. Ég kem hingað úteftir á sunnudögum og eyði vinnuvikunni hér. Á leiðinni frá borginni og hingað blasa við mér eyðilegging og vandamál. Úr bílnum sé ég heilu þorpin sem hafa bókstaflega verið jöfnuð við jörðu. Í öðrum þorpum hafa bara sum húsin verið sprengd upp en á veggjum annarra má sjá ótal för eftir byssukúlur. Vegurinn er sums staðar tættur í sundur eftir sprengjur. Auk þess svíður sólin akrana í endalausum sumarhitum. Hitinn hefur verið á milli 40 og 50 gráður síðan ég kom og ég sá ekki eitt einasta ský á lofti fyrstu fimm vikurnar. Ég get bara vonað að allir hafi einhvers konar loftkælingu í híbýlum sínum en einhvern veginn efast ég um það. Það er erfitt að ímynda sér að hafa ekkert skjól fyrir þessari óvægu sól og þessum hita, eftir allt annað sem gengið hefur á hjá fólki.
„Hvað segir maður til dæmis við atvinnulausan föður sem á ekki nægan mat fyrir börnin sín? Eða móður sem veit ekki hvort sonur hennar hefur verið tekinn af lífi af ISIS eða ekki?“
Því vissulega hefur mikið gengið á og þó að svæðið sem ég vinn á hafi verið frelsað fyrir allnokkru er líf fólks fjarri því að vera einhver dans á rósum. Í þeim þorpum sem ég fer til með Læknum án landamæra búa arabar en þeir eru nú á yfirráðasvæði Kúrda. Þessi þorp eru mjög afskekkt og hafa lengi verið afskipt af yfirvöldum. Fólk segir þó að lífið hafi verið alger hátíð áður en ISIS yfirtók svæðið miðað við það sem nú er. Þá virkaði skóla- og heilbrigðiskerfið að minnsta kosti sæmilega. Fólk hafði vinnu, fékk nóg að borða, börn gengu í skóla og fólk hafði efni á nauðsynlegum lyfjum. Nú virðast innviðir samfélagsins hins vegar mölbrotnir. Áður en Læknar án landamæra hóf að þjónusta svæðið var mjög erfitt fyrir fólk að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og þótt fólk fengi lyfjum einhvers staðar ávísað var erfitt að afla þeirra þar sem lyfjaverð hefur rokið upp. Skólar virðast hálf lamaðir og sumir segjast kjósa að hafa börnin heima við vinnu frekar en að senda þau í skóla sem geri börnin ekki einu sinni læs. Margar fjölskyldur eru án fyrirvinnu og fátækt virðist vofa yfir. Fólk hefur áhyggjur af að ná ekki að fæða fjölskylduna og við sjáum skólaus börn á ferli. Það tekur líka á að hafa takmarkað ferðafrelsi en fólki er ekki leyft að ferðast um eins og því sýnist í því ástandi sem nú ríkir. Til dæmis má enginn fara inn í Kúrdistan sem ekki á þangað erindi. Fólk á þessu svæði getur því í mjög takmörkuðum mæli sótt þangað þá þjónustu sem það þarfnast.
Aðskilnaður frá ástvinum er þó það sem er átakanlegast við aðstæður þessa fólks. Margir hafa misst fjölskyldumeðlimi í átökunum. Ég hitti til dæmis lítinn dreng um daginn sem sagði mér að tveir bræður hans hefðu dáið í stríðinu en hann náði að flýja með foreldrum sínum á öruggara svæði. Langflestir lýsa því að eiga ástvini í borginni Mosul eða á öðrum svæðum sem hafa ekki enn verið frelsuð undan yfirráðum ISIS. Sumir hafa ekki fengið fréttir af ástvinum sínum lengi og vita ekki einu sinni hvort þeir séu lífs eða liðnir. Þetta fólk bíður bara og vonar að Mosul verði frelsuð fljótt og að það muni þá hitta ættingja sína á lífi. Það er erfitt ef ekki ógjörningur að setja sig í spor þessa fólks og það er krefjandi verkefni að reyna að veita þessu fólki sálfræðiþjónustu. Hvað segir maður til dæmis við atvinnulausan föður sem á ekki nægan mat fyrir börnin sín? Eða móður sem veit ekki hvort sonur hennar hefur verið tekinn af lífi af ISIS eða ekki? Eða litla drenginn sem fær martraðir um að vondu kallarnir komi og taki matinn frá fjölskyldunni hans og meiði eða jafnvel drepi þau, þegar hann hefur þegar upplifað slíkt í raunveruleikanum? Það er ekki auðvelt en við reynum að aðstoða og ég get vonandi sagt betur frá starfseminni sem ég og hinir læknarnir án landamæra vinnum á svæðinu í næsta pistli.
Athugasemdir