Heilbrigt lýðræði er háð áreiðanlegum upplýsingum á sama hátt og heilbrigðir markaðir eru háðir áreiðanlegu fjármagni. Stundum geta áreiðanlegar upplýsingar orðið opinberar eftir umdeildum leiðum, til dæmis í gegnum tölvuhakkara eins og í máli Edwards Snowdens.
Spurningin er hvort opinberun upplýsinga, sem fengnar eru eftir ólöglegum leiðum, geti verið réttlætanleg? Bók nýsjálenska rannsóknarblaðamannsins, Nicky Hager, um sóðaleg stjórnmál, sem út kom á Nýja Sjálandi árið 2014, varpar mikilvægu ljósi á þessa spurningu. Hager byggir á tölvupóstum og fésbókarskilaboðum sem tölvuhakkari hafði komist yfir hjá athafnasömum bloggara á hægri væng stjórnmálanna, Cameron Slater.
Slater þessi hafði um árabil haldið úti bloggsíðunni Whale Oil, starfað í nánum en leynilegum tengslum við ráðherra í ríkisstjórn John Keys, forsætisráðherra og formanns Þjóðarflokksins, og birt fjölda pistla undir eigin nafni byggðum á upplýsingum sem lekið hafði verið af skrifstofum ráðherra, meðal annars skrifstofu forsætisráðherrans. Tilgangur Slaters með birtingu þessara upplýsinga var fyrst og fremst að koma höggi á tiltekna einstaklinga, stunda skipulögð árásarstjórnmál og grafa undan stöðu Verkamannaflokksins og hugsanlegra samstarfsflokka hans við myndun samsteypustjórnar.
„Þjónusta hakkara er hinn nýi veruleiki stjórnmálamannsins.“
Árásarstjórnmál og uppnám
Með því að halda tengslunum við ráðherra í ríkisstjórn leyndum gátu Slater og félagar, 2-3 bloggarar og nokkrir aðstoðarmenn ráðherranna, stundað rætin árásarstjórnmál gegn mótframbjóðendum í kosningabaráttu meðan John Key og félagar hans í Þjóðarflokknum lögðu áherslu á jákvæða ímynd með tali um traust og trú á framtíðina.
Uppnám og upplausn ríkti hins vegar innan Verkamannaflokksins meðan frambjóðendum þar á bæ var haldið uppteknum við að svara skítkastinu, sem í raun kom úr herbúðum Þjóðarflokksins, úr svokallaðri „arms-fjarlægð“ frá ráðherrum sem merkir í raun að þeir báru ekki beina ábyrgð á lekanum. Ráðherrar gátu þannig afneitað allri aðild að skítkastinu og látið sem ekkert væri, enda eins gott því orðbragðið og heiftina í herferðum og aðförum bloggarans er vart hægt að hafa eftir.
Fékk greitt fyrir að birta pistla
Slater virðist hafa unnið fyrir fleiri en frambjóðendur, þingmenn og ráðherra Þjóðarflokksins. Hager telur sig hafa komist að því við rannsóknir á gögnum úr tölvu Slaters, að Slater hafi fengið hluta af tekjum sínum frá „viðskiptavinum“ sem greiddu fyrir birtingu pistla á bloggsíðu Slaters. Tilgangur pistlanna var að verja ríka viðskiptahagsmuni með því að koma höggi á einstaklinga og grafa undan trúverðugleika þeirra með heiftúðlegum árásum.
Þannig birtust á bloggsíðu Slaters, með nokkuð reglubundnum hætti, pistlar þar sem ráðist var harkalega á einstaklinga sem töluðu fyrir hugmyndum er kynnu að setja dreifingu og sölu áfengis og tóbaks frekari skorður. Pistlana hafði Slater fengið senda frá almannatengli fyrirtækja á þessum markaði og birt þá í eigin nafni. Almannatengillinn gerði síðan sjálfur athugasemdir við pistilinn undir nokkrum dulnefnum til þessa að gefa tóninn og þannig stýra umræðunni í athugasemdakerfinu. Greiðslur bárust Slater með reglubundnum hætti.
Vann með aðstoðarmönnum ráðherra
Í nánu samstarfi við aðstoðarmenn ráðherra kölluðu Slater og félagar eftir margvíslegum gögnum frá ráðuneytum í krafti upplýsingalaga. Fyrirspurnum þeirra var svarað hratt og greiðlega enda nutu þeir leiðbeininga innan úr ráðuneytunum umfram aðra fyrirspyrjendur. Þessar upplýsingar notuðu þeir síðan gegn andstæðingum ríkisstjórnarinnar eða þeim sem voru að vinna að stefnumálum sem voru þeim og ríkisstjórninni ekki þóknanleg.
Stundum fékk Slater ábendingar frá aðstoðarmönnum ráðherranna um að einhverjir úr röðum andstæðinganna væru að gera fyrirspurn um tiltekið mál og gat Slater því verið fyrri til og annað hvort skúbbað málinu sjálfur með sínum túlkunum eða verið tilbúin með gagnárás og þannig eyðilagt mál andstæðinganna.
Að hefja spuna
Eitt af því sem Slater virtist kunna góð skil á og beita af miklum móð eru vel þekktar skoðanamótandi aðferðir sem notaðar eru til að móta skoðanir almennings. Þessum aðferðum beitti Slater t.d. með eftirfarandi hætti. Í fyrsta lagi, að koma af stað „þröskuldsáhrifum“ með því að búa til „gervigrasrótarhreyfingu“ þar sem hann lét í veðri vaka að að baki honum í baráttunni fyrir breyttu kosningakerfi á Nýja Sjálandi væri stór hópur almennra borgara, þó svo þeir væru einungis þrír sem stóðu að herferðinni. Í öðru lagi, að koma af stað „orðrómi“ með því að birta kjaftasögur og hálfkveðnar vísur með túlkunum um menn og málefni í stuttum nafnlausum pistlum. Þannig hefja menn spuna (spin), sem hefur þann tilgang að móta skoðanir almennings í ferli sem felur í sér hannaða atburðarás. Enginn nema þeir sem aðferðinni beita vita hverju spuninn á að ná fram. Slater vísaði þannig gjarnan í „tipline“ á síðunni sinni sem hann sagði vera að hitna, ef ekki ofhitna, af því sem væri „altalað“. Slíkar „gáttir“ eru algeng tæki til að koma af stað spuna, þ.e. umræðu sem stýrt er í ákveðnum tilgangi. Dæmi um þetta má finna á íslenskum vefsíðum t.d. „Orðið á götunni“, „Fuglahvísl“, „Kaffistofan“ og fleira.
Hakkarar eina leiðin
Fæst af því sem birt var á bloggsíðu Slaters hafði þann tilgang að örva upplýsta opinbera umræðu, heldur birt til að valda sem mestum usla og skaða í röðum andstæðinga. Spuni, háðung um einstaklinga, árásir og ófrægingarherferðir var „þjónusta“ sem ráðherrar og fyrirtæki á markaði nýttu sér um leið og þeir gátu neitað allri vitneskju um aðfarirnar. Birting þessara upplýsinga um starfshætti í bakherbergjum stjórnvalda og fjámögnun þeirra vekur upp áleitnar spurningar um stöðu lýðræðisins í upplýsingasamfélagi nútímans.
Ef innherjar leka upplýsingum til að senda út misvísandi skilaboð og misnota lýðræðislega stjórnarhætti í þágu valdhafa, þá er vegið að lýðræðinu. Ef almenningur þarf að reiða sig á stolnar upplýsingar til að fá áreiðanlegar upplýsingar um stjórn ríkisins, og ef upplýsingarnar afhjúpa spillt stjórnmál innherja, þá verður til eftirspurn eftir tölvuhökkurum. Ef stjórnmálamenn stunda sóðaleg stjórnmál eins og Hager lýsir í bókinni og eina leiðin til að kalla þá til ábyrgðar er að nota upplýsingar hakkara, þá hlýtur opinberun þeirra upplýsinga að vera réttlætanleg. „Þjónusta“ hakkara er hinn nýji veruleiki stjórnmálamannsins.
Athugasemdir