Eitt af helstu kosningaloforðum Framsóknarflokksins var afnám verðtryggingar: „Þið veljið á milli verðtryggingarstjórnar eða Framsóknarstjórnar.“ Kosningabaráttunni var hagað þannig að margir töldu að kosið væri um hvort endurgreiða ætti þá hækkun sem verðtryggingin hefði valdið á lánum og fólk þyrfti einungis að greiða föstu vextina. Málinu var stillt þannig upp í spjallþáttunum að þeir sem stæðu gegn þessari aðgerð væru óvinir heimilanna og fólksins í landinu. Ég ætla ekki að rifja upp þau ummæli sem viðhöfð voru í spjallþáttunum um þá sem voguðu sér að benda á að þetta gengi ekki upp.
Nú er langt liðið á kjörtímabilið og Framsókn er jú í lykilstöðu í ríkisstjórn sem situr uppi með nánast allt bankakerfið, íbúðarlánasjóð og einn stærsta lífeyrissjóð landsins, en samt bólar ekkert á afnámi verðtryggingarinnar. Í skoðanakönnunum liggur fyrir að a.m.k. 80% þjóðarinnar vill losna við verðtrygginguna og okurvexti. Af hverju hefur forsætisráðherra ekki nýtt lykilaðstöðu sína og staðið við helsta kosningaloforð sitt? Af hverju eigum við að fara að eyða nokkrum tugum milljóna í að kjósa aftur um hvort við viljum afnema verðtrygginguna?
Var kosningaloforðið kannski bara skrum? Verðtrygging er óvirk ef verðbólgan er innan ákveðinna marka. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus og við greiðum mun lægri vexti af verðtryggðum lánum en þeim óverðtryggðu. Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til í ýmsum formum, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika.
Verðtryggingin afnam að miklu leyti þá eignaupptöku sem átti sér stað á sparifé almennings sem hér ríkti fram á níunda áratuginn þegar allt sparifé landsmanna gufaði upp á verðbólgubálinu og stórkostlegar eignatilfærslur áttu sér stað. Það lenti á unga fólkinu að standa undir öllum lífeyrisgreiðslum í gegnum skattakerfið.
Ef sama staða væri uppi í dag þyrfti ríkisstjórnin þannig að sækja með aukinni skattlagningu þá tæplega 100 milljarða sem lífeyriskerfið greiðir í dag árlega út í bótakerfið. Sú upphæð á eftir að tvöfaldast næsta áratug vegna mikillar fjölgunar lífeyris- og örorkubótaþega. Við verðum að halda því til haga að um helmingur af útgreiðslu lífeyrissjóða er tilkominn vegna ávöxtunar uppsöfnunarsjóða. Ef við myndum skipta yfir í gegnumstreymiskerfi þá liggur fyrir að iðgjaldið þyrfti að vera um tvöfalt hærra en það er í dag. Það iðgjald þyrfti að innheimta í gegnum skattkerfið.
„Því er haldið að okkur að verðtrygging sé viðhaldið að kröfu lífeyrissjóðanna. Einungis tæplega helmingur eigna lífeyrissjóðanna eru verðtryggðar.“
Því er haldið að okkur að verðtrygging sé viðhaldið að kröfu lífeyrissjóðanna. Einungis tæplega helmingur eigna lífeyrissjóðanna eru verðtryggðar. Skuldbindingar hækka þannig meira en sem nemur hækkun eigna. Einnig er ástæða til að halda því til haga að afnám verðtryggingar verður ekki bara öðrum megin, heldur verður einnig að afnema verðtryggingu örorkubóta og lífeyris. Því fer fjarri að það sé lífeyrissjóðum í hag að verðbólga sé mikil.
Það er verðbólgan og flótti stjórnmálamanna frá því að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir sem er skaðvaldur hins íslenska hagkerfis. Mistökin eru jafnan leiðrétt með gengisfellingu örgjaldmiðilsins þar sem vandinn er fluttur yfir á launamenn með tilheyrandi kaupmáttarhrapi og eignatilfærslu frá hinum mörgu til fárra. Þar finnum við ástæðu þess að kaupmáttur fellur, það er ekki vegna slakra kjarasamninga eins og sumir stjórnmálamenn halda gjarnan fram, eins og t.d. formaður fjárlaganefndar gerði nýverið.
Krónan er þannig helsti óvinur íslenskra launamanna. Ef við ætlum að gera langtíma kjarasamninga þá verður að vera inni í því plani stefna um breytta peninga- og efnahagsstjórn, sama á við ef við ætlum að losna við áhrif verðtryggingar og okurvaxta. Rót vandans er nefnilega það svigrúm sem krónan skapar fyrir óvandaða efnahagsstjórn.
Sigmundur Davíð ætti þannig frekar að spyrja hvort þjóðin vilji ráðast að rótum vandans. Hann lofaði okkur því nefnilega í kosningabaráttunni að bera það undir þjóðina hvort ljúka ætti viðræðum við ESB og kanna hvort þar væri að finna raunhæfa leið til þess að koma efnahagslífinu í sama umhverfi og er í nágrannalöndum okkar. Þangað sem unga menntaða fólkið okkar streymir.
Athugasemdir