Vinnudagurinn er að klárast á skrifstofunni og ég stend upp frá borðinu og tek saman dótið sem ég ætla að hafa með heim. Yfirmaðurinn lítur á mig, réttir mér bunka og segir: „Frábært, Jón, nú er vinnudagurinn búinn og þú mátt fara heim og taka þetta með þér. Svo í fyrramálið þegur þú mætir aftur í vinnuna þarf þetta að vera búið. Þú getur fengið fjölskylduna þína til að hjálpa þér. Hér er svo miði til konunnar þinnar svo hún viti hvað þú þarft að klára. Ekki viljum við að þú svíkist um. Þá þarf hún að mæta með þér á fund til mín og fara yfir skipulagið okkar.“ Er þetta ekki bara frábær samverustund þreyttra einstaklinga?
Svona er sem betur fer ekki mín vinna en svona var vinnudagurinn hjá börnunum mínum þegar þau voru í grunnskóla. Heim komu þau með heimanám og miða (sem færðist svo yfir í Mentor) og svo var gert ráð fyrir að við foreldrarnir eyddum með þeim tíma við heimanámið. Afleiðingin var að sjálfsögðu sú að meira og minna voru öll samskipti á kvöldin eftir að vinnudegi okkar var lokið um það að læra heima og klára það. Spennan jókst og samskiptin urðu verri. Tími sem hefði geta farið í góð samskipti enduðu í vondum samskiptum þreyttra einstaklinga.
Mikið myndi ég vilja fá til baka allan þennan tíma með mínum börnum og nota hann í gæðastundir þar sem við hefðum öll verið búin með okkar vinnudag. Í staðinn fyrir rifrildi um heimanám hefðum við þá frekar spilað, talað um lífið, farið í göngutúr eða bara hvað sem er. En nei, heimanámið skyldi klárað, hvað sem tautaði og raulaði.
Af hverju þarf að kenna börnum að vinnudagurinn sé ekki búinn þegar maður fer heim? Fær einhver eitthvað út úr þessu? Læra börn meira ef þau læra heima eða minnkar bara áhuginn á skólanum og þau fylgjast minna með? Þyrfti skóladagurinn að lengjast mikið til að koma þessu öllu fyrir eða þyrfti hann jafnvel ekki að lengjast neitt?
Í Finnlandi var heimanám lagt niður og skóladagurinn styttur. Samt eru Finnar með besta skólakerfi í heimi og skora hæst í samræmdum mælingum á milli landa í námsárangri barna. Af hverju skyldi það vera? Getur verið að vel upplögð börn skili meiri árangri alveg eins og vel upplagt fólk skilar betri vinnu?
Atvinnulífið hefur fyrir löngu fundið út að árangur starfsfólks veltur ekki bara á því að hraða á færibandinu og setja fólki meira fyrir. Heldur skiptir máli að vinnuaðstaða sé góð, starfsandi sé góður, að fólk viti hvert stefni og að fólk fái mátulegt frí frá vinnu. Yfirvinna sé höfð í lágmarki og að fólk sé ekki of mikið truflað utan vinnutíma. Ef þetta er ekki í lagi þá brennur fólk út og árangurinn verður slakur.
Af hverju ætti eitthvað annað að gilda um börn í grunnskóla? Læra þau meira ef þau eru send heim til að rífast við mömmu og pabba um heimanám? Það held ég ekki. Einhvern veginn held ég að það sama gildi um börn og fullorðna. Þeim verður meira úr verki ef þau eru vel upplögð og skil milli vinnu og frítíma eru skýr.
Núna eru börnin mín orðin fullorðin en ég sé eftir þessum tíma. Börn nútímans ættu að fá gæðatímann með sínum foreldrum sem mín ekki fengu með okkur hjónunum. Börn ættu að læra bara í skólanum eins og ég reyni að taka vinnuna mína ekki með heim á kvöldin. Þannig búum við til góð samskipti sem er líklega besta veganestið inn í framtíðina fyrir alla.
Athugasemdir