Það hvort áfengisfrumvarpið svonefnda verði samþykkt eða ekki veltur á hvort við sem samfélag, þingmenn eða aðrir, telji rétt að taka ákvarðanir byggðar á bestu þekkingu, á grunni öflugra rannsókna, beitum gagnrýninni hugsun eða hvort við teljum, trúum, finnumst eða höldum að þetta bjargist. Andstæðurnar í umfjöllun um frumvarpið felast ekki aðeins í muninum á þekkingu og tilfinningu eða óskhyggju heldur einnig um velferð og hömlulausan gróða.
Áfengisfrumvarpið fjallar í raun ekki um frelsi einstaklinga til að kaupa sér áfengi heldur hvort við höldum áfenginu til Haga og leyfum fjármálaöflum að auka hagnað sinn á kostnað heilbrigðis landsmanna.
Vísindin og áfengisfrumvarpið
Fjölmargar rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi eykur áfengisneyslu og þar með skaðsemi áfengis í samfélaginu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur dregið þekkingu á áfengismálum saman í nokkur aðgengileg rit þar sem skaðsemi áfengisneyslu er deginum ljósari. Í opinberri umfjöllun um áfengismál ber við að það skorti þekkingu á málaflokknum. Því er gott að vita að Alþingi kallar eftir umsögnum um lagafrumvörp til að minnka líkur þess að sá þekkingarskortur sé ríkjandi við lagasetningar.
Umsögnum um núverandi frumvarp má skipta í tvennt. Annars vegar eru um 60 umsagnir þar sem lögð er áhersla á að lágmarka skaðsemi áfengisneyslu með ríkisrekinni áfengisverslun. Hins vegar eru þrjár umsagnir frá ýmsum samtökum atvinnulífsins sem telja mikilvægara að einkaaðilar græði sem mest á áfengissölu en að lágmarka skaða af áfengisneyslu.
Afgreiðsla áfengisfrumvarpsins mun að mínu mati skera úr um það hvort Alþingi sé vettvangur til að stuðla að heilbrigðu og betra samfélagi með velferð fólks að leiðarljósi eða hvort hlutverk þingsins sé að skapa einkafyrirtækjum vettvang til að græða á landsmönnum sama hvað það kostar.
Er 5 milljarða aukning á verðmæti Haga það mikilvæg fyrir íslenskt samfélag að við erum tilbúin til að skrifa undir óútfylltan tékka sem mun smátt og smátt falla á heilbrigði þjóðarinnar og heilbrigðiskerfið og aðrar stofnanir samfélagsins?
Það er sorglegt að í núverandi góðæri sé ekki til fjármagn til að rétta af heilbrigðiskerfið eftir áralangar aðhaldsaðgerðir. Enn sorglegra er að á sama tíma er vegið að heilbrigði þjóðarinnar með þingmannafrumvarpi þar sem reynt er að auka áfengisneyslu með markvissum aðgerðum, til þess, að því virðist, að rétta af efnahagsreikning smásölufyrirtækis.
Hugsanavillur sem móta umræðuna
Algengar villur í umræðu um áfengisfrumvarpið byggja meðal annars á þremur ranghugmyndum. Í fyrsta lagi að við getum fundið eina afmarkaða orsök fyrir breytingum. Í öðru lagi að forvarnir í áfengismálum sé aðeins fræðsla til barna og unglinga um skaðsemi áfengisneyslu og í þriðja lagi að áfengisvandi sé bundinn við einstaklinga og þá aðeins ofdrykkjumenn.
Það er algeng tilhneiging mannsins að leita að einni orsök fyrir breytingum og missa þannig af samhenginu. Þessi ranghugmynd birtist meðal annars í þeirri trú að vegna þess að Ísland hefur náð árangri í forvörnum og áfengisneysla nemenda í grunnskóla hafi minnkað undanfarna áratugi þá skipti fyrirkomulag áfengissölu engu máli. Einkasala ríksins á áfengi er ein öflugasta og ódýrasta forvörnin og er um leið umgjörð um annað forvarnarstarf. Árangur forvarnastarfs síðustu ára felst ekki í fræðsluerindum heldur samþættingu fjölmargra þátta, þar með talið fyrirkomulagi á smásölu og félagslegum takmörkunum. Ef við eyðileggjum einn burðarás í forvarnarstarfi er ekki hægt að gera sjálfkrafa ráð fyrir að aðrir þættir komi í veg fyrir að góður árangur tapist. Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að ná árangri í forvarnarstarfi en rannsóknir hafa einnig sýnt að það er unnt að glutra niður árangrinum. Frumvarpið umrædda er aðför að þeim árangri sem hefur náðst með öðru forvarnarstarfi. Fullyrt hefur verið að vegna þess að við getum treyst smásöluverslun til að selja tóbak þá megi treysta versluninni til að selja einnig áfengi. Smásöluverslun er hins vegar ekki treystandi til að selja tóbak. Fjölmargar kannanir hafa sýnt að það stór hluti smásöluverslana selur börnum sígarettur að við getum þar með ekki treyst þeim til að selja áfengi á ábyrgan hátt. Umræða um aðgengi skiptir máli en við erum of gjörn á að líta á aðgengi aðeins út frá því hversu langt er að jafnaði í næstu verslun sem selur áfengi. Aðgengið snýst að hluta um hillumetra á ferkílómetra en einnig um félagslega umgjörð eða taumhald sem við setjum áfengisölu og neyslu. Áfengi í matvöruverslunum eykur félagslegt aðgengi með því að gera mörk milli áfengis og annarrar neysluvöru óljósari. Stundum er enska hugtakið normalísering notað til að lýsa því hvernig aukið aðgengi samhliða sölu áfengis í matvöruverslunum mun auka neyslu áfengis. Fullyrðingar um að auka fé í meðferðarstarf samhliða frjálsri verslun bæti skaðann eru rangar. Aukið fé í áfengismeðferð kemur ekki í veg fyrir aukna skaðsemi, fólk fer í meðferð eftir að hafa valdið sjálfum sér og öðrum nokkrum skaða. Áfengisvandi er ekki aðeins persónulegt vandamál ofdrykkjumanna heldur félagslegt vandamál. Þekkt er að samanlagður áfengisvandi er ekki mestur hjá þeim hópi sem drekkur og þyrfti helst á meðferð að halda heldur er samanlagður mestur hjá meðaldrykkjufólki því þar er flest fólk. Áhrif áfengisneyslu á aðra en þá sem drekka er um þessar mundir vaxandi viðfangsefni í áfengisrannsóknum. Allsherjanefnd fjallaði nýlega um leiðir til að minnka áfengisvanda í miðbænum með því meðal annars að kalla fulltrúa lögreglunnar á sinn fund.
Tvenns konar möguleikar
Íslenskir fræðimenn munu á næsta áratug skrifa um áfengismál á Íslandi í alþjóðleg fræðitímarit og mun þá annar af tveimur titlinum koma til greina; „Icelandic government based legislation on research when maintaining state monopoly“ og „Alchohol related harm increased as expected after abandoning state monopoly in Iceland“. Báðar þessar greinar geta orðið mikilvægt framlag til áfengisvarna í alþjóðlegu samhengi. Þjóðir heims horfa þegar til Íslands þegar hugað er að öflugri forvörnum og telja einkasölu ríkisins eftirsóknarverða leið en afar erfitt er að snúa til baka. Seinni greinin fengi aldrei samþykki vísindasiðanefndar ef um væri að ræða íhlutun rannsakenda vegna þess varanlega skaða sem hún myndi valda. Ég vona að ég fái ekki tækifæri til að ljúka greininni um samfélagstilraunina Áfengi í matvöruverslanir þar sem of mikið er í húfi.
Athugasemdir