Ég hef lengi verið aðdáandi þessa heims þarna fyrir ofan okkur, öllum þessum stjörnum, plánetum og sólum.
Þegar ég vann á Viðskiptablaðinu þá skrifaði ég endalausar greinar um tunglið í helgarblaðinu því ég var ástfanginn af þessari auðn og kollegar mínir á kaffistofunni voru orðnir svo pirraðir á þessu á kaffistofunni þar sem umfjöllun um Ebitduna var aðalmálið.
Draumurinn var alltaf að búa á tunglinu. Búa sér til lítinn smákofa þar og loksins getað litið niður á alla jarðlingana fyrir neðan mig.
Lógó Dreamworks er eitthvað fyrir mig, þar er lítill strákur sem situr á botni hálfmána og fiskar niður í tómið, en ekkert bítur á.
En mér verður alltaf kalt þegar það fer niður fyrir frostmark.
Ég hef aldrei keypt mér úlpu frá 66 gráðum norður eða North face, en hef áttað mig á því að ég þarf að gera það áður en ég flyt til tunglsins því þar verður frostið víst hátt í 170 gráður í mínus. Ég var einu sinni í nokkurra gráðu frosti og þá var mér mjög kalt. En ég var ekki með góða úlpu þá.
Þeir voru að fara framhjá Plútó núna og hafa skýrt staði þar Cthulhu, Balrog og Mordor. Auðvitað langar mig allt í einu frekar að búa þar. En á Plútó verður frostið víst 240 gráður í mínus.
Auðvitað vil ég samt frekar búa á Plútó í dag heldur en tunglinu, það er orðið svo heillandi eftir þessar myndir frá New Horizon.
„Draumurinn var alltaf að búa á tunglinu. Búa sér til lítinn smákofa þar og loksins getað litið niður á alla jarðlingana fyrir neðan mig.“
Svo var það líka svipt aðalstign sinni og hent í ruslflokk í heimi stjarna og pláneta. Þessi gamli útvörður pláneta okkar gerði eitthvað af sér og fær ekki lengur að halda titli sínum sem pláneta, kallast núna í besta falli dverg-pláneta á meðal vísindamanna, en guð veit hvaða niðrandi orð Mars og Neptúnus hafa um Plútó, væntanlega ekki fagurt. Gamli níundi riddarinn í sólkerfi okkar er settur niður í flokk tungla og smásteina í sólkerfinu, nú eru riddararnir í kringum sólina aðeins átta. Hvað gerði Plútó af sér? Hélt hann framhjá sólkerfinu með einhverri sól í öðru kerfi, lét sig aðeins laðast, dragast að henni?
Þar vil ég búa, á útlaga- og einmanaplánetunni sem er ekki lengur pláneta.
En 240 gráðu frost er fullmikið eða mér finnst það. Af því að 2 gráðu frost gerði mig alveg dauðhræddann við kulda.
En ef ég get reddað mér með úlpu á tunglinu þá þarf ég væntanlega að kaupa mér tvær úlpur frá 66 gráðum norður ef ég ætla til Plútó, en kannski læt ég mér tunglið nægja.
Ef ég get sparað eina úlpu útá það.
Svo er styttri ferð til tunglsins með strætóinum. Leiðin til Plútó er víst rúmir 7 milljarðar kílómetra og stoppað við á mörgum stoppistöðum en leiðin til tunglsins er ekki nema 385 þúsund kílómetrar og hvergi stoppað á leiðinni.
En svo er þetta með hitann sem verður á tunglinu þegar það er sólarmegin, verður víst hátt í 100 gráður, en ég hlýt að finna leið útúr því.
Fer bara úr úlpunni og verð ber að ofan.
Athugasemdir