Ég hef horft á heimsmeistara- og evrópukeppnina í fótbolta á mörgum skrítnum stöðum. Á úrslitaleik EM 2008 horfði ég í fullum sal af þýskum og spænskum hermönnum í höfuðstöðvum NATO í Kabúl í Afganistan. Ég sat aftarlega í salnum og sá hægri helming salarins rísa á fætur af spenningi þegar Spánverjar sóttu en vinstri helminginn síga í sætunum og svo öfugt þegar Þjóðverjar sóttu. Ég hafði boðið með mér ákaflega myndarlegri og skemmtilegri konu sem vann hjá Rauða krossinum. Við höfðum byrjað daginn á rómantískri göngu í skriðdrekakirkjugarði þar sem hundruðir hræja af T-74 skriðdrekum lágu í massavís og enduðum hann í sal fullum af evrópskum hermönnum í júníformum að horfa á ofbeldisfullan fótboltaleik. Þrátt fyrir vel skipulagðan dag og lýtalausa framkomu mína þá gekk viðreynslan ekki upp.
Ég horfði á annan á Græna svæðinu í Bagdad í Írak í bresku búðunum, þar sem allir bresku hermennirnir horfðu á leikinn inní vel víggirtum búðunum, inní steyptri byggingunni með hjálmana á sér. Ekki einn einasti þeirra tók hann af sér allan tímann. Bresku hermennirnir voru svo agaðir að það kom mér alltaf á óvart þegar ég las um að einhver þeirra hefði fallið í átökum.
Ég horfði á tékkneska landliðið tapa gegn Grikkjum í undanúrslitum EM 2004 í Prag í Tékklandi. Þetta var í Zizkov og vinur minn, vertinn á staðnum, sem hafði verið rændur af útúrdópuðum ógæfumanni viku fyrr og var enn með sár á enninu eftir að hafa verið laminn í andlitið með skambyssuskeftinu, sagði að þetta væri versta stund ævi sinnar. Ég hafði þá búið í Tékklandi í sex ár og ætlaði mér að búa þar það sem eftir væri. Ég upplifði vonbrigðin næstum jafn mikið og vertinn vinur minn. Ég hef síðan þá átt mun erfiðara með að dást að Perikles eða hverju því sem grískt er. Allt í einu finnst mér sumarferð til Spánar miklu meira heillandi en til þessara grísku eyja þar sem vonbrigðin leka af hverju strái.
Spenningurinn fyrir EM í sumar er orðinn það mikill að ég var að spá í að fara til Frakklands og horfa á leikina á einhverjum pöbbnum þar. En þessar sprengjuárásir í París eru farnar að breyta plönunum. Ekki að maður sé hræddur við hryðjuverk. En um daginn var verið að handtaka tvo fyrir að hafa notað orðið bomba í samræðum sín á milli.
Ég myndi pottþétt enda í djeilinu enda nota ég orðin sprengja og árásir um allan fjandann annan en það sem lögreglan notar þau um. Þannig að maður horfir á leikina hér heima.
Eða hálfleikina.
Í ljósi síðustu leikja landsliðsins í fótbolta er ljóst að maður horfir á fyrri hálfleik íslenska liðsins og fer síðan að spjalla við vinina þegar sá seinni hefst.
Það mun ekkert minnka ánægjuna að horfa á leikina heima á Íslandi. Það er óskaplega gefandi að horfa á heilbrigða menn hlaupa um völlinn í toppformi á meðan maður keðjureykir, þambar bjór og heldur fast í það prinsipp að hlaupa ekki á eftir strætó þótt maður sé við það að missa af honum.
Athugasemdir