Ég get stoltur sagt frá því að ég elda miklu oftar á heimilinu en kærastan mín gerir. Finnst ég vera svolítið modern með það. En þegar litið er til klukkutímana sem eytt er í eldamennsku að þá hefur kærastan vinninginn. Ég er frekar snöggur að lyfta hamborgurunum á pönnunni og þessar pylsur sjóðast ansi hratt. En þegar kærastan mín eldar hnetusteik þá tekur það marga klukkutíma. Það sem meira er að hún dregur mig alltaf inní djobbið í hálftíma eða svo, auðvitað undir nöldri frá mér.
Það er eitthvað með þennan hollustumat sem enginn hefur tíma í fyrr en maður er dauður úr óhollustu. Þegar ég er dauður þá mun ég ábyggilega finna tíma í að elda svona hollustumat sem tekur tíu tíma að elda en tíu mínútur að borða.
Eitthvert kvöldið var kærastan mín pirruð og henti í mig þeirri staðreynd að maturinn á borðum væri ekki eitthvað uppsóp, ekki eitthvað drasl sem væri skafað upp af stígvélum kjötgerðamanna suðurlands. „Þetta er ekki einhver Medister pylsa!“ Þegar hún sagði orðið Medister pylsa þá kom ánægju bros á varir mínar og ég varð undireins sæll. Ég var búinn að gleyma þessum ljúffenga rétti sem var á borðum okkar Íslendinga í svo mörg ár.
Ég elska Medister pylsu.
Slátur er gott.
Hamborgari er frábær.
„Þegar ég er dauður þá mun ég ábyggilega finna tíma í að elda svona hollustumat.“
En númer eitt á matseðlinum mínum er pylsa með öllu og mikið af remúlaði, númer tvö er bjúga með jafningi og ofsoðnum kartöflum og númer þrjú er Medister pylsa, uppsópið af gólfi kjötiðnaðarmanna Íslands.
Okkar bestu Framsóknarmenn, ég elska þá alla og vill giftast þeim öllum svo framarlega sem þeir gefi mér meira af Medister pylsu.
Athugasemdir