Ein af klisjunum sem ég held fram um sjálfan mig er að ég sé mjög vinnusamur. Ég er alinn upp í að vinnusemi sé hin æðsta dyggð og það má kalla mig öllum illum nöfnum, allt frá morðingja til huglauss lítilmennis og ég kippi mér ekki upp við það. En ef einhver kallaði mig letingja myndi ég örugglega vera fær um kýla viðkomandi kaldan. Af öllum þeim fúkyrðaflaum sem fyrirfinnst í heiminum myndi ekkert skaða sjálfsmynd mína nema ásökun um það versta sem fyrirfinnst í veröld allri: leti. Þennan sjúkdóm sem hefur fylgt mannkyninu alla tíð en hefur breyst í plágu í velsældarsamfélögum Vesturlanda.
Þessari mynd af sjálfum mér hef ég haldið svo staðfastlega á lofti að hún lifir góðu lífi í vinahóp mínum, í huga kærustu minnar og fjölskyldu. Ímyndinni fylgir jafnan óréttlæti heimsins sem ég berst gegn af samviskusemi en óréttlætið er bæði það magnað og af svo illum uppruna að dyggðug vinnusemi mín nær ekki að brjóta það á bak aftur.
Það myndi óneitanlega vera auðveldara fyrir mig að halda þessari ímynd á lofti ef ég væri ekki svona svakalega latur.
Eins mótsagnakennt og það kannski hljómar þá er hörkuvinna að halda ímynd vinnuseminnar á lofti þegar maður er húðlatur.
„Hörkuvinna að halda ímynd vinnuseminnar á lofti þegar maður er húðlatur.“
Menn segja að vinnusemi sé hægt að ná ef menn vinna við það sem er skemmtilegt, en vandamálið er að mér finnst ekkert skemmtilegt í þessu lífi nema liggja uppí sófa eða liggja á brjóstum konunnar minnar.
Ef ég hefði fæðst inní ríka fjölskyldu hefði ég örugglega ekki nennt að klára sjö ára bekk heldur keypt mér nammibúð og verið þar þangað til ég komst á fullorðinsárin að ég hefði keypt mér bar og búið þar fram að því að ég dræpist, en þá hefði ég komið mér fyrir í vel innréttaðri líkkistunni með góðum púða undir hausinn og sjónvarp í gangi við fætur mínar og notið þess að liggja þannig það sem eftir er í einhverjum kúl kirkjugarðinum.
Mér varð hugsað til þessa á laugardaginn síðasta þegar ég vaknaði snemma og ætlaði að vinna en tók á endanum upp bók til að lesa. Hugsaði með mér: Það sem kemst næst því að skrifa er að lesa.
En svo nennti ég því ekki og fór út á svalir og velti fyrir mér göngutúr.
En svo nennti ég því ekki og lagðist í sófann.
Kveikti á sjónvarpinu og var hálf fúll yfir að það væri ekki komið kvöld þannig að ég hefði lögmæta afsökun fyrir því að liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið.
Lá samt áfram í sófanum en var með eyrun á „high-alert“, því ef ég myndi heyra í kærustunni koma gangandi upp tröppurnar ætlaði ég að stökkva að tölvunni áður en hún opnaði dyrnar og þegar hún kæmi inn ætlaði ég að teygja úr mér og segja: „Aaaaa hvað þetta var góður vinnudagur, nú á ég skilið að leggjast aðeins í sófann og horfa á sjónvarpið“.
Athugasemdir