Það er ekkert sem er jafn skemmtilegt og að spila fótbolta og hið siðaða í manni hverfur og dýrið tekur völdin. Hlaupa um og djöflast, ýta frá sér og berjast í gegnum hóp manna við jafn tilgangslausan hlut og að koma tuðrunni í netið. Það kviknar á hjarðdýrseðlinu því maður er hluti af hópi sem eru vinir manns sama hvernig manni líkar annars við þá og allir í hinum hópnum eru óvinir manns, sama hversu skemmtilegar og góðar manneskjur þær eru. Heimstyrjaldir og hörmungar gætu dunið yfir þjóðfélagið en þessa klukkustund sem hlaupið er á eftir tuðrunni kemst ekkert að í huga manns nema að skora, megi efnahagshrun, hjónaskilnaður, framhjáhald og fangelsisdómur falla á mig, en það mun ekki trufla einbeitinguna.
Þegar leik er lokið fer síðan um líkamann eitthvað dásamlegt náttúrulegt dóp sem gerir mann rólyndari og geðbetri. Maður kippir sér upp við fátt það sem eftir er dagsins og brosir til allra.
Stundum þegar ég sé manneskju haga sér villimannslega meðal fólks hugsa ég með mér: þessi hefur ekki spilað fótbolta lengi, hvar á greyið að fá útrás nema á samborgurum sínum?
„Stundum þegar ég sé manneskju haga sér villimannslega meðal fólks hugsa ég með mér: þessi hefur ekki spilað fótbolta lengi, hvar á greyið að fá útrás nema á samborgurum sínum?“
Næst best er að horfa á fótbolta. Útrásin sem maður fær við það er ekki eins mikil en samt þó nokkur. Þar er hjarðdýrseðlið tjúnað upp í topp og manni er skítsama um hitt liðið en óskar sínu liði allrar heppni heimsins og helst vilhallra dómara þegar illa gengur.
Þegar ég sé fólk fylgja flokkum, stefnum eða húsfélögum af blindu trausti hugsa ég með mér: þessi hefur ekkert fótboltalið til að fylgjast með og engin tækifæri til að fá útrás fyrir þá hjarðdýrshvöt sem býr í manninum.
Þetta datt mér í hug daginn eftir úrslit leiksins við Tékkland þar sem við unnum 2:1 og ég var búinn að lesa allar fréttir um leikinn margsinnis.
Ég lauk deginum með því að horfa á endursýningu á mörkunum sem voru skoruð, í sautjánda sinn, og athuga hvort þau hefðu eitthvað breyst frá því ég horfði á þau síðast.
Athugasemdir