Samband mitt og konunnar minnar getur verið mjög rómantískt.
Þegar hún kom heim eftir vinnu við kosningaeftirlit í Tajikistan skildist mér á henni að jú, jú, hún hefði svosem saknað mín, en mest hefði hún saknað klósettsins okkar.
Salernisaðstaðan í Tajikistan er víst verri en í helvíti.
En það skiptir ekki máli hvað dró hana heim, hvort það var ég eða klósettið mitt, hún er komin heim. Það er sigur fyrir mig.
Svo er það að vera í öðru sæti á eftir klósettinu á heimilinu ekki svo slæmt. Það er verra þegar maður er kominn í sætin fyrir neðan bók, bíó, skattaskýrslu og Síríus-súkkulaði.
Og hún sýnir mér svo sem oftast skilning, einsog þegar ég sleppti klippingu fyrir fótboltaleik og fékk sms skilaboð frá henni: „Ef þú ferð ekki í klippingu þá naga ég af þér hárið þegar þú sefur.“
Svo þarf ég ekkert að hafa áhyggjur ef hún yfirgefur mig fyrir stutthærðari mann því ég er orðinn svo vinsæll.
Ég veit ekki með ykkur en eftir að ég varð svona gamall þá allt í einu fæ ég alveg brjálaðar vinabeiðnir á fésbókinni frá megabeibs og blaut inbox-skilaboð með.
Það var aldrei reynt svona massívt við mig þegar ég var yngri. Þetta eru erlendar konur og prófílmyndirnar af þeim eru rosalegar. Mín niðurstaða er að maður verði bara meira sexý með árunum.
Auðvitað eru peningabeiðnir í þessum skilaboðum en sjálfsagt að verða við þeim, þar sem þetta eru svona fallegar ungar konur.
Mér finnst aðeins verri tilhugsun að hugsanlega séu það sveittir gamlir karlpungar sem fái þarna smá auka aur í bjórkaup kvöldsins.
Þá er betra að sætta sig við að vera sæti neðar en klósettið á heimilinu og bara halda í það sem maður á nú þegar. Silfurverðlaun eru betri en brons á hvaða móti sem er.
Athugasemdir