Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, birti grein um helgina þar sem hann setur fram fjarstæðukenndar kenningar um aðkomu Stundarinnar að meintu samsæri ríkisstjórnarinnar gegn sér og fyrirtækinu sem hann stýrir.
Grein Kára var skrifuð vegna fréttar í Stundinni um skilyrði sem fyrirtækið setti þegar það gaf jáeindaskanna til Landspítalans í fyrra. Þetta skilyrði kemur fyrir á skriflegu plaggi sem Kári undirritaði sjálfur og hljóðar svo: „Íslensk erfðagreining áskilur sér rétt til þess að nýta tækið til vísindarannsókna þegar ekki er verið að nota það til þess að þjónusta sjúklinga. Íslensk erfðagreining bæri allan kostnað af slíkri notkun tækisins.“
Engin af stoðunum undir samsæriskenningu Kára er sönn. Grein Kára er í stuttu máli algjört rugl. Þetta eru ástæðurnar.
I.
Kári byrjar greinina á því að fjalla um þá kenningu sína að ónafngreindur almannatengill sem tengist öðrum stjórnarflokknum hefði verið ráðinn til að grafa undan undirskriftarsöfnuninni sem hann stendur fyrir. Almannatengillinn sem Kári heldur að um ræði er Karl Pétur Jónsson sem hefur boðið sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn í sveitastjórnarkosningum á Seltjarnarnesi og er nú varabæjarfulltrúi þar í bæ.
Þetta veit ég vegna þess að Kári sagði mér sjálfur frá þessu tvívegis og hann meira að segja spurði mig að því hvort Karl Pétur væri sá sem hefði haft samband við Stundina þegar ég hringdi í hann og spurði hann að því hvort það hefði verið skilyrði fyrir gjöf Íslenskrar erfðagreiningar á jáeindaskannanum að bróðir hans, Hjörleifur Stefánsson, teiknaði húsið utan um hann. Ég gat sagt Kára að Karl Pétur kæmi ekki að fyrirspurn minni þar sem ég var ekki að brjóta neinn trúnað með því að fullvissa hann um að hugboð hans um aðkomu Karls Péturs að fyrirspurn minni um skilyrðið fyrir gjöfinni á jáeindaskannanum væri rangt. Karl Pétur hafði ekki verið í sambandi við Stundina, ég hafði ekki rætt við hann og gat því ekki verið að brjóta neinn trúnað.
Kári veit því - það er segja ef hann trúir mér - að þau orð hans að baráttan sem hann telur að Karl Pétur stýri fyrir ríkisstjórnina hafi „færst í aukana“ með birtingu á frétt Stundarinnar eru röng. Með orðum sínum dróttar Kári að því að umrædd frétt hafi verið eitt skref í stigmögnun herferðarinnar gegn sér. Eina vitneskjan sem ég hef um meinta aðkomu Karls Péturs að meintu samsæri ríkisstjórnarinnar gegn Kára Stefánssyni eru orð Kára sjálfs. Kári byrjar því grein sína á því að hrapa að rangri ályktun á forsendum sem hann veit að eru rangar - ef hann trúir mér - og ef ekki þá að minnsta kosti á forsendum sem eru með öllu ósannaðar og hann veit það.
Einu forsendurnar sem Kári hefur fyrir ályktuninni um plott ríkisstjórnarinnar, Karls Péturs og Stundarinnar er hans eigin vænisýki og einhver saga sem hann heyrði um að þessi almannatengill hefði sagt eitthvað við einhvern um undirskriftasöfnunina hans. Þar af leiðandi er þessi ályktun Kára ósönn: „Þú ert almannagtengill sem hefur fengið það verkefni að kasta rýrð á einhvern eða eitthvað og þá hefurðu samband við Stundina sem felur verkefnið slettupenna á borð við Inga Frey.“
En þó þessi ályktun Kára sé rugl þá útilokar það auðvitað ekki að Karl Pétur hafi verið ráðinn til þessa verks fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Karl Pétur segir hins vegar sjálfur að hann hafi ekki verið ráðinn af ríkisstjórninni til slíkra verka og að hann sé ekki þátttakandi í meintu samsæri ríkisstjórnarinnar gegn Kára Stefánssyni og Íslenskri erfðagreiningu.
II.
Kári veit líka alveg hvaðan upphaflega fyrirspurnin um skilyrðið fyrir gjöf Íslenskrar erfðagreiningar er komið og hann veit að það er ekki frá Karli Pétri Jónssyni. Eins og Kári segir sjálfur í grein sinni: „Ingi Freyr Vilhjálmsson, höfundur fréttarinnar um skilyrðið hneykslanlega, hringdi fyrst í mig tveimur dögum áður en hún birtist og spurði mig hvort það væri rétt sem Sveinn Magnússon skrifstofustjóri í Velferðarráðuneytinu hefði sagt á fundi Læknafélags Íslands í Stykkishólmi að það hefði verið sett sem skilyrði fyrir gjöfinni að bróðir minn fengi að hanna húsið yfir skannann. Ég svaraði því til að þetta skilyrði hefði aldrei verið sett og húsið hefði verið hannað af öðrum arkitekt sem hefur engin tengsl við bróður minn. Síðar sagði Sveinn mér að hann hefði aldrei sagt þetta og um algjöran uppspuna væri að ræða. Daginn eftir hringdi Ingi Freyr aftur í mig og spurði nú hvort það hefði verið sett sem skilyrði fyrir gjöfinni að það mætti nota skannann til vísindarannsókna þegar hann væri ekki að þjónusta sjúklinga.“
Kári veit því að upphaf fyrirspurnarinnar má rekja til þess sem fram kom á ársfundi Læknafélags Íslands. Nú er ekki útilokað að meintur almannatengill ríkisstjórnarinnar hefði getað vísað til einhverra orðaskipta sem fram komu á ársfundi Læknafélags Íslands í október árið 2015 en það er kannski frekar langsótt. Meint samsæri ríkisstjórnarinnar gegn Kára Stefánssyni og Íslenskri erfðagreiningu þyrfti þá að hafa verið ansi útpælt. Ég veit heldur ekki til þess að umræddur almannatengill hafi verið á þessum ársfundi félagsins.
Á umræddum fundi í Læknafélaginu kom fram fyrirspurn frá einum fundarmanna til Sveins Magnússonar, ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu, sem snérist um hvort einhver skilyrði hefðu verið fyrir gjöfinni frá Íslenskri erfðagreiningu. Sagt var frá þessum umræðum í Læknablaðinu á sínum tíma og var lýsingin svona: „Meðal þess sem varpað var til hans [Sveins Magnússonar] voru spurningar um það hvort einhver skilyrði hefðu fylgt gjöf Íslenskrar erfðagreiningar á jáeindaskanna til Landspítalans. Sveinn sagði sér ekki kunnugt um nein skilyrði.“
Frásögnin af þessum umræðum er raunar talsvert ítarlegri í fundargerð Læknafélags Íslands af umræddum fundi en þar kemur fram að Sveinn hafi staðfest að Íslensk erfðagreining hefði sett skilyrði fyrir því að fá að nota jáeindaskannann sjálft. Um þetta segir í fundargerðinni samkvæmt tölvupósti frá Þorbirni Jónssyni, formanni Læknafélags Íslands: „Þá spurði hann [F.S.] um loforð ÍE um að gefa jáeindaskanna og spurði hvort cýklotron hefði fylgt með og hvort skilyrði hefðu verið fyrir gjöfinni. SM sagði cýklotron fylgdi með og undirbúningur í fullum gangi. Af tilviljun væri bróðir Kára þar í forystu. Varðandi skilyrði þá hefði verið rætt um aðgang ÍE að skannanum á hreinum viðskiptasjónarmiðum. Honum væri ekki kunnugt um nein önnur skilyrði.“
Einhverjir læknar, og örugglega margir aðrir og þar á meðal ég sjálfur, hafa því velt því fyrir sér hvort einhver skilyrði fylgdu gjöf Íslenskrar erfðagreiningar og er eina leiðin til að komast að því að spyrja fyrirtækið sjálft eða þá stjórnvöld. Íslensk erfðagreining er í eigu fjársterks bandarísks lyfjaþróunarfyrirtækis sem heitir Amgen. Er óeðlilegt að fólk spyrji sig að því af hverju bandarískt stórfyrirtæki vilji gefa Landspítalanum á Íslandi lækningatæki sem kostar 850 milljónir króna? Eða er það alltaf vanþakklæti og dónaskapur að velta fyrir sér forsendum gjafa sama hver það er sem gefur viðkomandi gjöf?
Ég held að svo sé ekki og er meðal annars til kjarnyrtur málsháttur í íslensku sem lýsir þeirri hugsun að ágætt geti verið að staldra við og hugsa um forsendur gjafa áður en þær eru þegnar: Æ sér til gjöf til gjalda.
Eftir að Kári neitaði því að það skilyrði hefði verið sett að bróðir hans teiknaði húsið yfir jáeindaskannann sendi ég heilbrigðisráðuneytinu tölvupóst og spurði út í hvort einhver skilyrði hefðu verið fyrir gjöfinni frá Íslenskri erfðagreiningu. Meðal annars spurði ég hvort fyrirtækið hefði sett það sem skilyrði að Hjörleifur Stefánsson teiknaði húsið.
Ráðuneytið sendi þá umrætt vilyrði, undirritað af Kára sjálfum, og eftirfarandi texta: „Því má hins vegar halda til haga að í yfirlýsingu ÍE um gjöfina, sem undirrituð er af Kára Stefánssyni, kemur fram að Íslensk erfðagreining áskilji sér rétt til að nota jáeindaskannann til vísindarannsókna þegar ekki er verið að nota hann til að þjónusta sjúklinga. Sérstaklega er tekið fram að Íslensk erfðagreining muni bera kostnað af slíkri notkun tækisins. Framangreint felur þar með í sér svar við spurningu þinni nr. 4. (sjá yfirlýsinguna í viðhengi: Jáeindaskanni).“
Það gerist iðulega í blaðamennsku að blaðamenn heyra eitthvað frá einhverjum aðila og spyrja um hvort það sé rétt eða ekki. Stundum er það rétt og stundum er það ekki rétt. Í þessu tilfelli reyndist það ekki vera rétt að það hefði verið sett sem skilyrði fyrir byggingu hússins yfir jáeindaskannann að bróðir Kára Stefánssonar teiknaði húsið þó svo að hann sé verkefnisstjóri yfir húsbyggingunni fyrir hönd Íslenskrar erfðagreiningar. Þessi spurning leiddi hins vegar af sér aðra almennari spurningu sem hafði verið rædd á fundi Læknafélags Íslands: Voru einhver skilyrði fyrir gjöfinni á jáeindaskannanum? Heilbrigðisráðuneytið svaraði þessari spurningu með því að senda umrætt vilyrði fyrir gjöfinni þar sem umrætt skilyrði kemur fram um að Íslensk erfðagreining „áskilji sér rétt“ til að nota jáeindaskannann.
III.
Þegar skilyrðið fyrir gjöfinni liggur fyrir vaknar eðlilega spurning um það hvaða málið það skiptir að þetta skilyrði hafi verið sett. Er eitthvað óeðlilegt við það að Íslensk erfðagreining ætli sér að nota jáeindaskannann til eigin rannsókna þegar hann er ekki í notkun á Landspítalanum? Engin slík sjónarmið koma fram í grein Stundarinnar. Samt segir Kári um frétt Stundarinnar; „Greinin átti víst að sýna fram á að það hefði fylgt böggull skammrifi þegar Íslensk erfðagreining gaf þjóðinni skannann; hann hefði verið gefinn í annarlegum tilgangi. Þar af leiðandi væri allt það sem Kári Stefánsson standi fyrir gert í annarlegum tilgangi og þar á meðal undirskriftasöfnun til endurreisnar heilbrigðiskerfinu. Skilyrðið var að það mætti nota skannann til vísindarannsókna þegar ekki væri verið að nota hann til þess að þjónusta sjúklinga. Þetta skilyrði var ekki sett inn í endanlegt gjafabréf vegna þess að það þótti of sjálfsagt til þess að taka það fram.“
Fréttapunkturinn í málinu er sá að gjöf Íslenskrar erfðagreiningar var skilyrt þannig að fyrirtækið geti sjálft notað skannann þegar hann er ekki notaður til rannsókna. Af hverju má ekki segja frá þessu? Af hverju getur Íslensk erfðagreining ekki haft það upp á borðum hver skilyrðin fyrir gjöfinni á skannanum eru? Hví er þetta leyndarmál? Íslensk erfðagreining þarf á jáeindaskanna að halda og Landspítalinn þarf á jáeindaskanna að halda. Er þá ekki tilvalið að báðir aðilar noti jáeindaskannann? Hagsmunir beggja aðila felast í því að til sé jáeindaskanni á Íslandi. En er gjöf Íslenskrar erfðagreiningar þá algjörlega ósjálfmiðuð? Telst gjöfin vera þá vera hreint góðverk að hálfu fyrirtækisins? Í gjöfinni felast ákveðnir viðskiptalegir hagsmunir fyrir Íslenska erfðagreiningu en rekstur og verðmæti fyrirtækisins stendur með rannsóknum þess.
Ályktanir Kára Stefánssonar um hvað frétt Stundarinnar feli í sér er því fáránleg: „Þar af leiðandi væri allt það sem Kári Stefánsson standi fyrir gert í annarlegum tilgangi og þar á meðal undirskriftasöfnun til endurreisnar heilbrigðiskerfinu.“ Ekki er minnst einu orði á undirskriftasöfnunina í umræddri frétt enda er hún málinu óviðkomandi.
Þegar ég ætlaði að spyrja Kára út í skilyrðinguna á gjöfinni á jáeindaskannanum skellti hann á mig. Ég skil ekki af hverju hann vill ekki ræða þörf Íslenskrar erfðagreiningar fyrir skannann og af hverju fyrirtækið sagði ekki bara frá því upphaflega - í ágúst í fyrra þegar greint var frá gjöfinni á skannanum - að það væru gagnkvæmir hagsmunir Íslenskrar erfðagreiningar og Landspítalans að slíkur skanni væri til. Í staðinn fyrir að svara spurningum um málið hreytti Kári út úr sér: „Ég nenni þér ekki“ og skellti svo á.
IV.
Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar stendur ekki steinn yfir steini í grein Kára Stefánssonar:
a)
Það er ekki satt að Karl Pétur Jónsson hafi verið ráðinn af ríkisstjórninni til að grafa undan undirskriftasöfnuninni sem Kári stendur fyrir. Eða: Kári þarf þá að sýna fram á að þetta sé satt og rétt gegn neitun Karls Péturs hér að ofan. Ef þetta er eina stoðin sem Kári hefur fyrir þeirri samsæriskenningu sinni að ríkisstjórnin ætli að grafa undan undirskriftasöfnun hans þá er ekkert slíkt samsæri fyrir hendi.
b)
Það er ekki satt að Stundin sé þátttakandi í þessu meinta samsæri ríkisstjórnarinnar. Miðað við a) hefur Kári ekki einu sinni sannanir fyrir því að slíkt samsæri sé í gangi.
c)
Út frá a) og b) er fjarstæðukennt af Kára að halda því fram að í frétt Stundarinnar um skilyrði fyrir gjöfinni á jáeindaskannum felist „tilraun til þess að vega að trúverðugleika undirskriftaherferðar sem tæplega 80 þúsund Íslendingar hafa ljáð nöfn sín.“. Þarna tengir Kári saman tvö óskyld mál: Gjöf á jáeindaskanna og skilyrði fyrir henni annars vegar og svo undirskrifasöfnun hins vegar. Ekki er fjallað um undirskriftasöfnunina í frétt Stundarinnar.
d)
Út frá a), b) og c) er rangt hjá Kára að Stundin hafi þegið fé, beint eða óbeint, frá ríkisstjórninni fyrir að skrifa umrædda frétt um skilyrði fyrir gjöfinni á jáeindaskannanum. Kári hefur engar sannanir fyrir þessari staðhæfingu þar sem hann vænir fjölmiðil um að selja fréttir og hann getur ekki haft neinar slíkar þar sem þetta hefur ekki gerst og er um fáránlega ásökun að ræða.
En þó grein Kára sé byggð á röngum staðhæfingum og þó inntak greinarinnar sé helbert rugl þá nær Kári samt ákveðnum markmiðum með henni. Hann nær að koma höggi á ríkisstjórnina með þeirri ósönnuðu samsæriskenningu að ríkisstjórnin hafi ráðið tiltekinn almannatengil til að grafa undan undirskriftasöfnun hans. Fyrir vikið fær Kári sjálfsagt samúð og stuðning einhverra sem telja að það sé satt að ríkisstjórnin hafi ráðið tiltekinn mann til að grafa undan Kára og undirskriftasöfnuninni. Ef ríkisstjórnin hefur gert þetta þá er viðkomandi almannatengill annars mjög lélegur í því sem hann gerir þar sem ég hef ekki séð neinar áróðurslegar fréttir um Kára og undirskriftasöfnun hans á liðnum dögum og vikum. PR-herferð ríkisstjórnarinnar er því sannarlega mjög máttlítil ef Kári hefur rétt fyrir sér.
Kári nær líka að koma höggi á fjölmiðil sem spurði spurninga um forsendurnar fyrir gjöfinni á jáeindaskannanum frá Íslenskri erfðagreiningu; höggi sem meðal annars hefur leitt til þess að einhverjir áskrifendur hafa sagt blaðinu upp af því að margir trúa orðum Kára Stefánssonar.
Síðast en ekki síst hefur Kári náð að koma þeim skilaboðum út til allra fjölmiðla í landinu að ef þeir fjalla með gagnrýnum hætti um Íslenska erfðagreiningu, gjöfina á jáeindaskannanum og undirskriftarsöfnunina sem hann stendur fyrir þá geti þessir fjölmiðlar átt á hættu að vera vændir um að vera leigupennar ríkisstjórnarinnar þar sem fyrir liggi að ríkisstjórnarflokkarnir hafi skipulagt samsæri gegn honum. Þannig getur Kári grafið undan einstaka fjölmiðlum sem voga sér að fjalla um hann og fyrirtæki hans á forsendum sem honum hugnast ekki.
Athugasemdir