Klukkan er 16.45 og ég er nývaknaður. Í dag er síðasti dagur tónleikaferðalags Skálmaldar. Við byrjuðum einhvers staðar í miðri Evrópu, fikruðum okkur upp í gegnum Skandinavíu, til Finnlands, og niður Eystrasaltið. Í gær spiluðum við í Póllandi og nú er ég nokkuð viss um að við séum í Þýskalandi. Og svo heim á morgun og ég get ekki beðið. Mér líður eins og ég hafi ekki komið heim til mín í heilt ár en í reyndinni eru þetta ekki nema rúmar þrjár vikur. Og við höfum svo sannarlega tekið miklu lengri túra en það. Ég er þreyttur.
Klukkan er 17.00. Ég er aðeins búinn að skoða mig um hér og hef nú komist að því að við erum í Rostock í Þýskalandi. Tónleikastaður dagsins er fullkomlega ógeðslegur. Ég hætti mér inn á klósett, enda algerlega að pissa á mig. Ef ég hefði dottið ofan í hlandrennuna hefði ég ekki átt afturkvæmt. Ég held ég hafi aldrei kastað af mér vatni á jafn ógeðslegum stað. Afsökunin fyrir mat hér eru nokkar paprikur og skinkubréf. Ég fann þó allavega vatnsflösku sem var innsigluð. Þeir segja okkur að það sé heitur matur á leiðinni. Vonum það besta, annars neyðist ég til að rölta og finna mér eitthvað.
Ég er ekki enn orðinn þunnur en það kemur nú sennilega. Í gær var hið eiginlega kveðjupartý því hljómsveitirnar sem við túrum með þurfa að fara snemma í kvöld. Fyrst tókum við duglega á því á tónleikastaðnum, sem var í Gdańsk og reyndar sennilega sá besti í ferðinni. Pólverjar kunna þetta. Eftir að því partýi lauk héldum við áfram í rútunni okkar. Ég skreið ekki fyrstur í koju en svo sannarlega ekki síðastur. Og svo vaknaði ég bara hér. Svona eru dagarnir, sveittir, skítugir og allir eins. Við gerum okkar besta til að rölta um og skoða borgirnar sem við komum til en oftast eru tónleikastaðirnir í iðnaðar- og úthverfum og tímaplanið leyfir ekki mikið. Ég get til dæmis ekki sagt með góðri samvisku sagt að ég hafi komið til Eistlands því það eina sem ég sá af Tallinn var bílastæði og enn einn ógeðslegi tónleikastaðurinn. Þar höfðum við reyndar afsökun fyrir bakherbergi, sem var nú samt bara stúkað af með tjöldum, en núna sit ég eiginlega bara úti og skrifa þetta. Ég veit ekki hvernig við eigum að fara að því að komast upp á svið á eftir ef hér verður margt fólk. Aðstaðan hér er djók.
Klukkan er 18.15. Við fengum mat. Ekkert stérstaklega slæman einu sinni. Diskarnir voru reyndar skítugir og enga hnífa að sjá. Staðarhaldarar hafa kannski ekki treyst sér til að láta okkur hafa eggvopn í ljósi óánægjunnar sem skín úr hverju andliti. Ræderinn okkar er heldur hvergi að finna. Fyrir þá sem ekki vita er rider ákveðið plagg sem fylgir hverri hljómsveit og er partur af samningnum. Þar er útlistað hvað hljómsveitin fer fram á annað en peninga og yfirleitt er um eitthvað matar- og drykkjarkyns að ræða, þótt ýmislegt annað slæðist þar með. Skálmaldar-ræderinn er ofboðslega hæverskur, slatti af vatni, slatti af bjór, rauðvín og viskíflaska, fyrir svo utan heita máltíð og eitthvað til að narta í. Þetta hljómar kannski eins og frekja en er það alls ekki. Þetta er hluti af laununum okkar og fyrir þessu er áratugahefð. Oftar en ekki þurfum við samt að eltast við að fá það sem er okkar. Tónleikahaldarar reyna þá ýmislegt, þykjast ekki (eða hafa ekki) lesið plaggið, tala um samninga sem þeir hefðu gert við einhvern annan og þar frameftir götunum. Í dag mætum við bara galtómum augum. Hér á ekkert að gera fyrir mann.
Eftir matinn fórum við í sándtékk. Sviðið er pínulítið og allt í steik. Það breytti því ekki að allt gekk afskaplega smurt fyrir sig. Við erum með hljóðmann sem hefur unnið með okkur lengi. Sá er Ungverji og heitir Marzi. Marzi er hreinræktaður snillingur. Eftir það börðumst við við að koma hljóðfæratöskunum okkar fyrir, já og reyndar hljóðfærunum líka, því hér er ekkert afdrep fyrir hljómsveitirnar og við verðum víst bara að eyða tímanum inni í rútu. Við enduðum með að ferja allt draslið bara út í kerru. Það verður áhugavert að sjá hvernig við ætlum að komast á sviðið og síðan af því með allt okkar hafurtask. Salurinn er lítill og illa lýstur og mér sýnist eini inngangurinn vera við enda hans, gegnt sviðinu.
Og nú er ég að verða þunnur. Djöfulsins helvíti. Og svo þarf ég að kúka. Ekki séns í helvíti að ég treysti mér í slíkar aðgerðir í þessum forarpytti sem þau vilja kalla salernisaðstöðu.
Svona er nú rokkstjörnulífið. Skálmöld er ekki stærsta band í heimi, en þetta er sami veruleiki og langflest bönd veraldar díla við á hverjum degi.
Ég er í túrandi þungarokkshljómsveit að lifa eldgamlan draum með bestu vinum mínum.
Hljómsveitir sem eru miklu stærri en við. Og hvern andskotann erum við þá að þvælast þetta er væntanlega spurning sem ansi margir velta réttilega fyrir sér. Við henni er einfalt svar: Þetta er best í heimi. Eftir rúman klukkutíma fer ég á svið með hljómsveitinni minni og spila tónlistina mína fyrir fólk sem vill heyra. Ég er í túrandi þungarokkshljómsveit að lifa eldgamlan draum með bestu vinum mínum. Á ferðum okkar kynnumst við aragrúa af áhugaverðu fólki og eignumst vini fyrir lífstíð. Nákvæmlega núna langar mig ekkert að vera hérna, mig langar bara heim og til þess að halda jólin með stelpunum mínum. Það verður frábært. En svo kemur nýtt ár og nýir túrar. Það er frábært að vera ég.
Athugasemdir