Það má alveg segja ristavél. Ég er til í að verja það með kjafti og klóm. Frá því að ég man eftir mér hefur fólk sem lítur stórt á sig (allir sum sé) keppst við að hrópa það að öðrum að orðið ristavél sé ekki til heldur verði að nota hið svo sem ágæta orð brauðrist. Hvaða fjandans rök eru fyrir því? Ristavél er vél sem ristar. Rétt eins og hrærivél, sem er vél sem hrærir. Hakkavél er vél sem hakkar. Þvottavél er svo aftur vél sem þvær. Uppþvottavél er vél sem þvær upp. Og hver er svo eiginlega munurinn á að þvo og þvo upp? Fer leirtauið meira upp en óhreina tauið þegar maður þvær?
Allavega. Dráttarvél er vél sem dregur, nema að maður ætli að vera ofboðslega hnyttinn miðaldradóni og þá má færa það upp á eitthvert kynferðislegt slangur. Og fyrst við erum komin í sveitina má tala um múavélar og þreskivélar. Þær múa og þreskja, það er nú frekar gegnsætt. Fleiri vélar? Bílvél er kölluð svo af því að hún er í bílum. Öndunarvél andar fyrir okkur þegar allt er komið í skrúfuna. Bátsvélin snýr skrúfunni. Ljósavélin ætti að keyra ljósin en gerir reyndar margt fleira. Vél, vél, vél.
Svo koma snillingarnir sem líta stórt á sig og reyna að segja mér að vél sé ekki vél nema að það sé vél í henni. Að hún hafi mekanisma sem hreyfist. Er það? Hér er eitt lauflétt svar við því: Eldavél. Hvar eru öll tannhjólin og vökvatjakkarnir í eldavélinni sem gera hana að vél?
Önnur rök eru að ristavél geti ekki heitið ristavél því hún ætti í öllu falli þá allavega að nefnast ristunarvél. Er það já? Svona eins og eldavélin, heitir hún nú allt í einu eldunarvél? Brauðrist heitir sem svo vegna þess að hún er rist sem maður glóðar brauðið sitt á. Að rista er samt líka sögn, rétt eins og nafnorðið eldur og sögnin að elda.
„Hrærivél verður hringblendill. Dráttarvél getur alveg bara verið traktor mín vegna, það er ágætt orð og erfiðara fyrir miðaldradónana.“
Ég er reyndar ekki nettengdur akkúrat þar sem ég sit á flugvelli hér á ferðum mínum með Skálmöld og þruma þessi orð á lyklaborðið svo ég hef ákveðið að allt sem hér kemur sé án ábyrgðar, en ég er nokkuð viss um að orðið ristavél hljóti að vera í orðabók. Vegna þess að það er orð sem margir hafa notað mjög lengi. Hvernig getur það þá verið bannað, bæði skjalfest og í notkun? Eru allt í einu allir með einhverja gráðu eða titil og vald til þess að geta sagt okkur hinum hvað má segja og hvað ekki? Ég viðurkenni það alveg að ég hef látið beygja mig. Ég segi brauðrist frekar en ristavél. En nú ætla ég að breyta því. Annaðhvort breyti ég því eða þá að ég fer að búa til önnur svona tilgerðarleg orð fyrir allar hinar vélarnar. Þvottavél getur orðið tauþvegill. Uppþvottavél hlýtur þá að vera upptauþvegill, þótt það meiki ekkert meira sens en uppþvottavél. Hrærivél verður hringblendill. Dráttarvél getur alveg bara verið traktor mín vegna, það er ágætt orð og erfiðara fyrir miðaldradónana. Eldavélin er matkveikill. Múavélin gekk stundum undir nafninu garðavél. Það er ágætt en þótti ekki fallegt. Heymýill er sennilega gott. Við gætum líka farið í enn fáránlegri áttir og kallað bílvélina brummsibrumms. En þá erum við nú gengin ansi langt.
Mamma mín á matreiðslubók á skinnhandriti (nei, ok, ekki alveg svo gamla) þar sem finna má uppskrift að dýrindis brauðpramma. Af hverju það orð ekki festist í tungunni er mér óskiljanlegt. Einhver afturhaldsseggurinn reyndi að nota orðið flatbaka en það er auðvitað allt of leiðinlegt. Við köllum þetta bara pitsu í dag. Það er nú ekki neitt skemmtilegt. Við Ljótu hálfvitarnir höfum reynt að halda þessu orði á lofti og notum þá ýmist upphaflegu myndina, brauðprammi, eða þá stytta útgáfu. Það er svo þjált að geta stungið upp á því við félaga sína að fá sér pramma. Ylvolgur, brakandi prammi með kryddpylsu og fleski. Það er nú mannamatur aldeilis. Ef þið hin viljið meina að pitsa með pepperoni og beikoni sé jafngóð þá er það ekki rétt. Ekki fyrir eyrað í það minnsta.
Mér er auðvitað í grunninn alveg sama um orðið ristavél, þótt ég sé ekki að grínast með að ég ætli að taka það upp af krafti og verja með kjafti og klóm. Ég er að fetta fingur út í undirstöðulausan málfarsfasisma. Auðvitað eigum við að halda reglurnar og rækta málið. En sumt er bara frekja, þröngsýni og besservisseraháttur. Þetta er hin fornkveðna vísa þess sem vill upphefja sig sjálfan á kostnað annarra. „ÉG ER BÚINN AÐ ÁKVEÐA AÐ ORÐIÐ RISTAVÉL ER EKKI GOTT ORÐ! ÞAÐ ER BANNAÐ AÐ NOTA ÞAÐ!“
Við skiljum öll orðið ristavél. Það er ekkert sem bannar það að til séu tvö orð yfir sama hlutinn, og það er raunar alveg afskaplega skemmtilegt. Af hverju þá ekki að leyfa þessu bara að vera? Sko. Ég veit alveg ástæðuna. Ég veit alveg í aðra röndina hvernig ykkur líður, ykkur andristavélarfólkinu. Það eru orð þarna úti sem ég get ekki heyrt án þess að fá hroll og bannfrekjutilfinningu. Fésbók? Aldrei kalla Facebook Fésbók. Ég brjálast. Klulli, fröllur, fössari og rúbbari. Það er bannað. Harðfokkingbannað. Ég hlakka, mig hlakkar og bráðum mér langar. Mig langar, mér langar og þá örugglega mín langar. Á þessu virðist vera að slakna smátt og smátt. Sem ég held að sé gott þótt það stingi mig óskaplega.
Ég velti þessu fyrir mér þegar ég kem heim og set sneið í ristavélina.
Athugasemdir