Meginástæða til kosninga og myndunar nýrrar stjórnar nú var afhjúpun Panamaskjalanna sem sýndi að hundruð Íslandinga nýttu skattaskjól til að fela starfsemi sína, tekjur og eignir. Þar á meðal eru stjórnmálamenn, ráðherrar og borgarfulltrúar. Nýlegar fréttir frá skattyfirvöldum sýna að stór hluti þessara aðila nýtti sér skattaskjólin til að komast hjá því að greiða skatta til samfélagsins. Þeir gerðust brotlegir gagnvart skattalögum og fjöldi þeirra er grunaður um refsiverðar athafnir sem eru til skoðunar hjá saksóknara. Skattalagabrotin munu ekki verða opinber nema í þeim tilvikum að þau sæti refsimeðferð hjá dómstólum. Aðilar að öðrum skattundanskotsmálum eru verndaðir af trúnaðarskyldu skattyfirvalda.
Þeir sem nú sæta rannsókn skattyfirvalda hafa vafalítið haldið fram sakleysi sínu á einhverju stigi málsins og fullyrt að þeir hafi gert skattyfirvöldum grein fyrir öllu sem skiptir máli. Það er samt ekki þeirra heldur skattyfirvalda að leggja mat á hvort svo sé. Það á líka við um þá opinberu persónur sem uppvísar hafa orðið að skattaskjólsstarfsemi. Engin þeirra hefur sagt eða getað sýnt fram á að skattyfirvöldum hafi í reynd verið staðin skil á lögskyldum upplýsingum svo sem ársreikningum félaga sinna fyrir árin eftir 2010. Löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið hafa sýnt einkennilega linkind í þessum málum. Fyrir utan ábendingar og spurningar einstakra þingmanna hefur lítið gerst, enginni rannsókn á vegum þessara aðila hefur verið komið á og þær lagabætur sem gripið var til eru máttlitlar, bæta núverandi framkvæmd en nýtast á engan hátt til að stemma stigu við þessari starfsemi eða upplýsa um hana eins og hún er nú.
Það væru einkennileg skilaboð til kjósenda, m.a. þeirra þúsunda sem risu upp og mótmæltu veru Tortólaliðs í ríkisstjórn landsins, að sjá það leitt á ný til hásætis fyrir tilstilli þeirra sem kynna sig sem fulltrúa nýrra stjórnmála.
Pistillinn birtist upphaflega á vef Indriða H. Þorlákssonar, sjá hér.
Athugasemdir