Einhvern veginn er það alltaf þannig að við skiptum okkur í tvær fylkingar, ríka fólkið og venjulega fólkið. Þetta eru auðvitað gríðarlega teygjanleg hugtök og undir þessa tvo flokka falla allskonar hópar og sumir falla jafnvel í báða. Þannig er allskonar fólk sem fellur í ríkra fólks flokkinn sem er í raun alls ekkert ríkt og í venjulega flokknum er fólk sem er allt frá því að vera ljómandi vel stöndugt niður í að lifa í sárri fátækt. Ég giska á að ég fljóti fullkomlega í miðjunni á þeim flokki, ég svelt alls ekki en ég á bíl sem er keyrður meira en 200.000 kílómetra. Og já, ég er með yfirdrátt. Og nei, þrátt fyrir algengan misskilning er ekki gróðavænlegt að vera í þungarokkshljómsveit sem ferðast á eigin kostnað um heiminn og þaðan af síður að vera í drykkjuhljómsveit sem skiptir innkomunni í 9 hluta eftir að barreikningurinn hefur verið greiddur. Ég er maður í fastri vinnu og aurinn sem ég fæ fyrir að skrifa þennan pistil skiptir alveg máli í lífsbaráttunni.
Við venjulega fólkið horfum á ríka fólkið eins og dýr í dýragarði. Þótt við séum nálægt þeim þá skiljum við ekkert hvernig er að vera þau, við erum hrædd við þau, við öfundum þau og hötum þau jafnvel. Við þolum ekki hvernig þetta pakk er en samt viljum við vera eins og þau. En skoðum þetta nú aðeins. Af hverju er þetta svona? Eigum við að hata allt ríkt fólk? (Nú átta ég mig á því að ég er að skrifa um „þetta fólk“ eins og fyrrnefnd dýr í dýragarði. Bara svona eins og enginn sem er ríkur eigi eftir að lesa þetta.) Nei, fjandinn hafi það, þau eru nú ekki öll alveg eins. Prófum að setja þau í nokkra flokka. Höldum áfram með dýragarðinn.
Hundurinn
Ok, hundar eru nú ekki mjög algengir í dýragörðum svo ég er auðvitað strax búinn að eyðileggja þessa samlíkingu. Ég fann bara ekkert annað dýr sem lýsir þessu betur. Hundurinn er þessi sem veit ekki af hverju hann er ríkur. Kannski fæddist hann ríkur eða hlaut arf, kannski fór hann bara óvart í lögfræði og er með góð laun. Hann hefur engan sérstakan áhuga á að vera ríkur, hann bara er það. Mér líkar afskaplega vel við hundinn enda þótt hann sé óþolandi á mjög mörgum sviðum. Þótt hann skilji ekki að ég þurfi að vinna fyrir bjórnum sem ég ætlaði að kaupa á barnum þá er hann meira en til í að splæsa honum á mig. Og þeim næsta líka.
Bjórinn
Talandi um bjór, bjórinn er næsta dýr. Bjórinn er þessi sem hefur áhuga á að vera ríkur. Hann byggir stífluna sína skipulega og peningar eru ástríða. Ég öfunda bjórinn alveg helling. Ég vildi stundum óska að ég hefði ekki svona mikinn áhuga á því að spila á bassa í þungarokkshljómsveit heldur að ég fengi lífsfyllingu úr því að handleika peningaseðla og gull. Ég horfði á Toppstöðina á RÚV um daginn. Dómararnir þar eru bjórar. Klipparar þáttarins sýndu okkur það svo glögglega þegar við fengum að heyra örsamtal milli þeirra sem þau höfðu sennilega ekki reiknað með að færi í útsendingu. Konan í miðið (sorrý, ég veit ekkert hvaða fólk þetta er, nema að gaurinn lengst til vinstri bjó til upprunalega Fimbulfambið, sem er besta spil veraldar) sagði þeim kollegum sínum að hún hefði verið að panta sér bíl. Já? Hvernig bíl? Æi svona Land Rover. Æi, þið vitið, svona Discovery Sport. Hún sagði þetta í svipuðum tóni og ég hefði notað ef ég hefði verið að segja einhverjum frá því að ég hefði verið að panta mér skó. En hey, hún má það alveg, hún hefur áhuga á því að eiga peninga og vann fyrir því. Bjórinn er alveg fínn.
Ljónið í búrinu
Ég vann einu sinni sem tæknimaður hjá öryggisfyrirtæki og vinnan mín snerist meðal annars um að fara milli heimila til að setja upp þjófavarnir og viðhalda þeim. Þegar maður vinnur þannig vinnu sér maður allskonar heimili og allskonar fólk. Meðal annars ríka fólkið sem er óhamingjusamt. Mörg hús á höfuðborgarsvæðinu eru full af ljónum sem hnita hringi. Innilokuð innan um fokdýr tæki, mublur og málverk, geta ekki horft í augun á tæknilúðanum með skrúfjárnið, klædd í inniskó og slopp. Ég veit ekki hvar þetta fólk fékk peningana sína en ég myndi ekki vilja vera í þeirra sporum. Aldrei. Konungur dýranna verður nefnilega geðveikur og sorglegur þegar hann er lokaður inni, sama hvort búrið er búið til úr stáli eða veraldlegum auðæfum.
„Þau hafa ekki einu sinni fyrir því að hata okkur, þau hafa bara nautn af því að murka úr okkur lífið. Og ég fokking hata hýenuna.“
Hýenan
Svo er það fólkið sem ætlar að vera ríkt, sama hvað það kostar og helst á kostnað annarra. Venjulega fólkið er fyrir þeim og jafnvel ógn. Hýenan hagræðir hlutunum þannig að hún græði sem allra mest burtséð frá sanngirni eða stöðu annarra. Hún veiðir í litlum hópum og fær lífsfyllinguna úr því að sjúga lífið úr venjulega fólkinu til að hagnast sjálf. Stundum er ríkidæmið aukaafurð sem verður til við valdnýðsluna því auður í þeirra augum er ekki bara eignir og þykkt veski heldur líka völd og ógn. Auðvitað eru þau miklu meira en hýenur, þau eru snákar, rottur, kakkalakkar, hákarlar og krókódílar í einu skrímsli. Þau hafa ekki einu sinni fyrir því að hata okkur, þau hafa bara nautn af því að murka úr okkur lífið. Og ég fokking hata hýenuna.
Ekki láta hýenuna koma óorði á heiðarlegt fólk jafnvel þótt það sé ríkt. Ekki rugla saman velgengni og illgirni.
Athugasemdir