„Áttatíu prósent raforkuframleiðslu í landinu eru seldar til stóriðju. Sú sala skilar Landsvirkjun litlu ef nokkru meira en fjármagnskostnaði,“ sagði Indriði Þorláksson fyrrverandi ríkisskattsstjóri á vef tímaritsins Herðubreiðar fyrr í sumar og fór í gegnum reikningsdæmið.
Þegar kostnaður við hráefni og rekstur hefur verið greiddur standa eftir um 60 milljarðar. Þar af fara 17 milljarðar í laun og launatengd gjöld og afgangurinn í fjármagnskostnað og „hagnað eigenda sem laumað er óskattlögðum úr landi“.
„Þessir 17 milljarðar (og einhver smá viðbót vegna svokallaðra afleiddra starfa) eru eina hlutdeild landsins í þeim verðmætum sem stóriðjan skapar,“ sagði hann og lauk greininni með því að benda á hið augljósa; engin rök eru fyrir frekari virkjunum ef þær eru ekki efnahagslega hagkvæmar.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, dró upp svipaða mynd þegar hún svaraði fyrirspurn á Alþingi um álverið í Straumsvík. Þegar greitt hefur verið fyrir hráefni og aðföng standa eftir um 26 milljarðar. Af þeim fara 4 milljarðar í laun starfsmanna og afgangurinn ... hver veit?
Tekjuskatturinn á laun starfsmanna virðist vera einu tekjur ríkissjóðs af álverinu í Straumsvík sem eitthvað kveður að. Á svipaðan hátt rukka sveitarfélögin starfsmennina um útsvar og fá að auki minni háttar greiðslur í fasteignagjöld og hafnargjöld. Alls eru þetta um tveir milljarðar sem fara í vasa hins opinbera.
Skoðum þetta aftur úr aðeins annarri átt.
Álverið í Straumsvík fær 18% af allri raforku sem framleidd er á landinu – en það jafngildir samanlagðri raforkuframleiðslu Blönduvirkjunar, Sultartangavirkjunar og Hrauneyjafossvirkjunar. Og í staðinn fyrir allt þetta fá íslensk stjórnvöld að skattleggja starfsmenn álversins. Frábær díll.
Land | Eldsneytisverð á rafbílum miðað við bensínbíla |
---|---|
Ísland | 8,0% |
Svíþjóð | 12,2% |
Noregur | 18,7% |
Frakkland | 28,9% |
Suður-Afríka | 29,1% |
Nýja-Sjáland | 29,9% |
Bretland | 30,6% |
Bandaríkin | 35,1% |
Japan | 42,5% |
Danmörk | 43,8% |
Þýskaland | 47,5% |
Taflan sýnir samanburð á orkugjöfum í nokkrum löndum. Hver kílómetri sem keyrður er á rafbíl á Íslandi kostar einungis 8% af því sem hann myndi kosta á bensínbíl.
Ég áttaði mig ekki á því hve góður kostur raforkan er fyrir Íslendinga fyrr en ég prófaði að bera saman hlutfallið raforkuverð/bensínverð við aðrar þjóðir. Í ljós kom að af þeim fimmtíu löndum sem til voru gögn um var þetta hlutfall lægst hér.
Með öðrum orðum: Ekkert land í heiminum myndi hagnast jafnmikið og Ísland á því að skipta bensíni út fyrir rafmagn.
Í greinargerð starfshóps Rafmagnsverkfræðingadeildar VFÍ um rafbílavæðingu kemur fram að það kostar tvær krónur að keyra hvern kílómetra á rafbíl, en um tuttugu krónur á bensínbíl. Bíltúrinn frá Reykjavík til Þingvalla og til baka myndi því kosta um 176 krónur á rafbíl, sem er um þriðjungur kaffibollaverðs í miðbænum.
Norðmenn hafa áttað sig á þessari hagræðingu og á fyrsta ársfjórðungi ársins 2015 var einn af hverjum fimm nýskráðum bílum þar í landi rafbíll. Ekki er ástæða til annars en að ætla að þessi árangur geti einnig náðst á Íslandi.
Ég stilli þessum möguleikum upp hlið við hlið vegna frétta undanfarna mánuði: Álverið í Straumsvík hættir á lokun vegna kjaradeilna, Norðurál segist ekki eiga fyrir hærra rafmagnsverði og ríkissjóður fær eiginlega ekkert fyrir sinn snúð í skiptum fyrir raforkuna. Allir virðast tapa á þessum vonlausa bisniss.
Íslendingar ættu að leggja allt í sölurnar til þess að greiða götu rafbílsins. Óarðbærar stóriðjueiningar gætu jafnvel með tíð og tíma vikið fyrir þessari nýju tækni. Það þyrfti reyndar ekki mikið til, en sem dæmi má nefna að þriðjungur raforkunnar sem fer til Straumsvíkur myndi duga til að knýja áfram allan bifreiða- og skipaflota landsins.
Með því myndu tveir mengunarvaldar hverfa á einu bretti; bensínbílarnir og hluti af stóriðjunni. Eldsneytisverð myndi snarlækka og tugir milljarðar sparast í gjaldeyri þar sem ekki þyrfti að sækja orkuna til útlanda. Og umfram allt væru skilaboðin góð og til eftirbreytni: Hér býr fólk sem ber virðingu fyrir náttúrunni.
Athugasemdir