Ég er búinn að vera allt of rólegur undanfarið. Hér eru nokkrir pirrandi hlutir.
Hávær tónlist
Ég er mikill talsmaður hátt spilaðrar tónlistar. En ekki að tilefnislausu. Tónlist á skemmtistöðum, kaffihúsum og börum er mjög mikilvæg og ég er hlynntur henni. Ef fólk ætlar að dansa eða ef kapp er hlaupið í kinnar er ekkert að því að spila hana hátt. En snemmkvölds í rökkrinu þegar fólk ætlar að spjalla saman á tónlistin að vera lágt stillt. Það er betra. Á tónleikum, milli hljómsveita, þá á tónlistin að vera lágvær, það er líka betra.
Frítt, lélegt WiFi
Ekki bjóða mér frítt net ef það er drasl. Ég er ekki að segja að ég eigi fullan rétt á því að ókunnugt fólk bjóði mér frítt á netið en ef það gerir það vil ég að dótið sé í lagi. Maður fær gjarnan þá skýringu að það sé svo erfitt að viðhalda þessu, það séu svo margir sem nýti sér þetta. Ef margir koma í heimsókn til þín þarftu að eiga fleiri stóla og skúra oftar. Ef margir nota netið þitt þarftu að dratthalast til að eiga almennileg tæki og endurræsa draslið oftar.
Þvottavélar
Þvottavélar eru auðvitað ekki pirrandi. Þvottavélar eru algerlega frábærar. En þær eru alveg klettþungar. Hvernig dettur fólki í hug að það sé eðlilegt að flytja þvottavél á milli íbúða? Ísskápar, eldavélar, uppþvottavélar og baðkör verða eftir þegar maður flytur. Af hverju ekki þvottavélar? Ég bý á fjórðu hæð og sé fram á flutninga í ekki svo fjarlægri framtíð. Ég væri alveg til í að skilja glænýu þvottavélina mína eftir ef ég fengi bara aðra á nýja staðnum. Og helvítis hornsófann svo sem líka. Helvítis!
Sykur
Sykur er ekki eiturlyf. Hættið þessu helvítis kjaftæði. Sykur er ekkert hollur, sérstaklega ef maður borðar mjög mikið af honum, en við vissum það alveg. Sykur er ekki óhollari en kókaín og hann er ekki svona ofboðslega ávanabindandi. Það ert bara þú sem hefur ekki sjálfsstjórn og þess vegna ertu svona feit(ur), og börnin þín líka. Þegar ég var lítill mátti ekki borða fitu. Nokkrum árum seinna mátti ekki borða kjöt. Upp úr aldamótum voru það brauð og kolvetni sem voru eiturlyf og nú er maður dauðvona ef maður á sykurkar. Borða hluti í hófi, ekki búa til hentugar skýringar svo þú þurfir ekki að horfast í augu við að þú ert aumingi.
Löng sjónvarpsþáttaintró
Þegar maður sá Cheers einu sinni í viku var ansi stemningarsetjandi að hlusta á upphafslagið í 2 mínútur og bíða eftir „... where everybody knows Johnny“*. Svo hófst þátturinn. Hann tók 22 mínútur í viðbót og svo beið maður eftir laginu í viku. Núna horfum við á heila seríu á einum degi og þá þarf maður að hlusta á sama lagið svo oft að maður er tilbúinn til að drepa manndrusluna Johnny í hvert einasta skipti. Laga þetta, fjandinn hafi það.
Þrápóstar
Þessum lið er oft og iðulega skellt á börnin. Fólk verður óþolandi þegar það setur börnin sín of oft á netið. Og auðvitað er það fokking óþolandi, en þetta snýst ekkert um börnin. Þetta snýst um þá staðreynd að við getum ekki horft á Snapchat af sama hlutnum, persónunni eða dýrinu 100 sinnum í röð. Ef ég myndi birta myndir af sama bassanum mínum alla daga og endalaust yrði ég jafn óþolandi og ef ég væri að klína dóttur minni upp á ykkur 200 sinnum á dag á Snapchat. Nei, draslið ykkar er ekki svona merkilegt fyrir okkur hin. Einu sinni í mánuði er bara fínt.
Dollan
Þið sem fylgist með kappleikjaíþróttum verðið ekkert merkilegri þótt þið segist ætla „að taka dolluna“ í stað þess „að vinna bikarinn“. Ég veit að ykkur finnst þið vita svo óskaplega mikið um sportið, liðið ykkar (já, þú segir „við“ þegar þú talar um þér alls óskylt lið atvinnumanna á Englandi, bara vegna þess að pabbi þinn hélt með Liverpool þegar þú varst að alast upp) og kúltúrinn allan að orðið „bikar“ er bara of alþýðlegt. Þú kannt þetta. Þú segir bara „dolla“ af því að það er fyrir lengra komna. Ég nota orðið „dolla“ sem slanguryrði einstaka sinnum og ef þú lætur ekki af þessum sið þá sturta ég Liverpool-treyjunni hans pabba þíns heitins niður um mína dollu.
Fólk sem talar í bíó
Æi, ekkert bara í bíó. Það er bara svo nærtækt dæmi. Ef þú ert á almenningsstað þar sem aðrir eru skaltu bara tala á þeim hljóðstyrk sem nægir þér og þeim sem þú ert í alvöru að tala við. Í bíóinu skaltu þegja og á kaffihúsinu tala með inniröddinni. Ég þarf ekkert að heyra þig segja hvað Sigga vinkona gerði um daginn þegar maðurinn hennar kom heim með nýtt fjallahjól handa henni. Og ég veit að Jason Statham er meistari. Uss!
Vatnskönnur sem bannað er að færa
Veitingastaðir sem banna mér að taka vatnskönnur á borðið eru með öllu óþolandi. Ekki taka könnuna? Þá skalt þú skaffa mér glas sem tekur meira en einn og hálfan desilítra. Ég borga formúgu fyrir matinn sem þú selur mér, og það er bara allt í lagi, hann er mjög góður. En hvers vegna þarf ég að standa 6 sinnum á fætur meðan ég borða og þræða í örvæntingu milli annarra gesta sem eru að gera það sama? Það kostar svona 15.000 kall að kaupa könnu á hvert borð á hipsterastaðinn þinn, for crying out loud. Næst ferja ég 12 full vatnsglös á borðið áður ég sest.
Ahhh, betra!
*Eftir að hafa skilað þessum pistli til Stundarinnar hafði Elín, prófarkalesari þar á bæ, samband við mig og spurði mig út í þennan Johnny og hvort ég væri ekki að slá einhverju saman? Eftir allskonar netkaf komst ég að því að línan er í raun og veru „... where everybody knows your name“ og helvítið hann Johnny hvergi sjáanlegur. Ég hef sem sagt raulað þetta vitlaust og misskilið í meira en 30 ár. Eins og mér þótti nú smellið að fastagesturinn hann Johnny, þessi með skakka hattinn í lokin á intróinu, væri nefndur á nafn. Pirrandi, en meira bara fyndið.
Athugasemdir