Einu svör Ólafar Nordal um tengsl hennar við aflandsfélagið Dooley Securities S.A. birtust í formi þriggja yfirlýsinga þann 29. mars síðastliðinn. Tvær voru að mestu samhljóða og birtust annars vegar á Facebook og hins vegar á vef RÚV. Sú þriðja var send á þingmenn Sjálfstæðisflokksins og birt á mbl.is. Óvíst er hvort Ólöf lagði blessun sína yfir opinbera birtingu bréfsins til þingflokksins. Á þessum tímapunkti var stjórnmálaferill Ólafar undir því kominn hver viðbrögð almennings yrðu þegar upp kæmist að bæði hún og eiginmaður hennar hefðu haft prókúru og full yfirráð yfir félagi sem skráð var á Bresku Jómfrúareyjunum.
Í ljósi þessa alls er við hæfi að rýna í yfirlýsingarnar og sjá hvort svarað hafi verið með fullnægjandi hætti fyrir aðkomu Ólafar. Niðurstaðan er sú að frásögn hennar sé í besta falli ófullnægjandi. Eftirfarandi eru helstu athugasemdir mínar við yfirlýsingarnar.
- Engin yfirlýsinganna svarar spurningunni hvort skattahagræði hefði verið af ætlaðri notkun á fyrirtækinu. Samkvæmt bréfinu til þingflokksins átti að nota félagið við nýtingu á kauprétti eiginmanns hennar, Tómasar Más Sigurðssonar. Hann starfaði á þessum tíma sem forstjóri Fjarðaáls í Reyðarfirði. Þetta ber að skoða í því samhengi að almenningur hefur augljóslega áhuga á að vita hvort ætlunin hafi verið að forðast skatta á Íslandi. Borðleggjandi hefði verið að taka það fram ef svo væri ekki.
Hvort um klaufaskap sé að ræða getum við ekki vitað, en yfirlýsingin sem send var á RÚV var þó augljóslega lesin yfir, svo ekki var um fullkomið flaustur að ræða við samningu hennar. Í fyrsta lagi er skráður höfundur skjalsins Óli Björn Kárason, en eini maðurinn með því nafni er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þetta sést á aukaupplýsingum skráarinnar. Í öðru lagi eru notaðar tvær leturgerðir í textanum, önnur sem myndar meginpart textans, en hin er notuð í innskotum sem eiga það flest sameiginlegt að fjarlægja ráðherrahjónin frá félaginu og málefnum þess.
-
Bréf Ólafar til þingflokksins kom seinast fyrir augu almennings. Þar segir að hún muni senda út tilkynningu til fjölmiðla seinna um daginn. Þingflokksbréfið var því líklega samið fyrir hinar tilkynningarnar. Það er þó eina yfirlýsingin þar sem tekið er fram að hvorki hún né eiginmaður hennar hafi vitað af staðsetningu félagsins á Bresku Jómfrúareyjunum. Þau hafi talið félagið vera í Lúxemborg. Eins og áður sagði starfaði eiginmaður Ólafar sem forstjóri Fjarðaáls á Reyðarfirði þegar félagið var stofnað.
Af hverju tók Ólöf þetta ekki fram í síðari yfirlýsingum? Er líklegt að eiginmaður hennar hefði þegið ráðgjöf og kvittað upp á notkun á fyrirtæki án þess að vita hvar í heimunum það yrði skráð?
- Annaðhvort kann enginn sem kom að yfirlýsingunni að tala eða villandi orðalag var viljandi notað um tengsl Ólafar við félagið. Í yfirlýsingunni af Facebook segir að „[í] undibúningi þessa máls veitti bankinn Tómasi umboð á umrætt félag og óskaði hann jafnframt eftir því að ég fengi sambærilegt umboð.“ Svipaður texti er í þingflokksbréfinu, með sömu innsláttarvillu í orðinu undirbúningur.
Staðreyndin er sú að Ólöf hafði umboð á félagið og eru skjöl þess efnis dagsett samdægurs og Tómas fékk umboð. Það getur því passað að hann hafi óskað eftir því, en sannarlega var þá orðið við ósk hans. Ólíklegt getur talist að þau hafi fengið staðfesta prókúru Tómasar án þess að fá staðfesta prókúru Ólafar. Hafi verið einlægur vilji í herbúðum Ólafar til að skýra aðkomu hennar að félaginu hefur þeim ekki tekist vel til.
- Af hverju héldu ráðherrahjónin að fyrirtækið hefði verið afskráð árið 2008? Í þingflokksbréfinu og yfirlýsingunni á Facebook er tekið fram að samkvæmt þeirra bestu vitneskju hafi fyrirtækið verið afskráð árið 2008. Samkvæmt gögnum Reykjavík Media var fyrirtækið afskráð árið 2012. Hvernig gátu þau mögulega fengið þessar röngu upplýsingar, og það án þess að vita á nokkrum tímapunkti í hvaða landi það var skráð?
- Var nokkurn tímann ætlunin að færa eignarhald félagsins til Tómasar? Ólöf leggur áherslu á að hvorki hún né eiginmaður hennar hafi átt félagið Dooley Securities S.A. eða annað sambærilegt félag í skattaskjóli. Á sama tíma veitti prókúra þeirra fullkomin yfirráð yfir félaginu, til dæmis til að taka út úr því fé. Í tölvupósti sem Landsbankinn sendi í tengslum við stofnun Wintris Inc. (félags Sigmundar Davíðs og eiginkonu) var samtímis lýst yfir að Sigmundur og Anna skyldu vera prókúruhafar og eigendur félagsins. Ólöf segir félagið Dooley Securities S.A. hafa verið verið stofnað að ósk Tómasar. Hvers vegna hefði Landsbankinn óskað eftir því við Mossack Fonseca að vera skráður eigandi ef til stæði að færa eignarhaldið skömmu síðar til viðskiptavinar síns? Reykjavík Media staðhæfir að hlutabréf aflandsfélaga geti verið skráð í vörslu aðila annars en raunverulegs eiganda aflandsfélags. Var það ætlunin í þessu tilfelli? Þá væri yfirlýsing Ólafar sannarlega óheiðarleg.
Af þessu má vera ljóst að ýmislegt er enn óljóst í frásögn Ólöfar Nordal um tengsl hennar við aflandsfélagið Dooley Securities S.A. Ætlun mín með þessari rýningu er ekki að staðhæfa að neitt vafasamt hafi átt sér stað, en hver á að njóta vafans? Fyrir mér er svarið augljóst: Ólöf Nordal er ráðherra og við eigum heimtingu á því að hún geri hreint fyrir sínum dyrum eða víki sæti.
Athugasemdir