
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra vill að íslenska ríkið veiti miklu minna fé til fátækustu ríkja heims næstu árin en áður stóð til.
Samkvæmt þingsályktunartillögu sem hann lagði fram í síðustu viku verður dregið verulega úr áætluðum markmiðum Íslands um þróunaraðstoð á árunum 2016-2019. Rétt er að taka fram að Íslendingar komast ekki með tærnar þar sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa hælana hvað varðar framlög til þróunaraðstoðar miðað við verga þjóðarframleiðslu.
Gunnar Bragi segir fyrri markmið um þróunarsamvinnu óraunhæf, enda hafi þau gert ráð fyrir fjárframlögum „sem er rekstur Landhelgisgæslunnar í tæp 3 ár eða 1/5 af rekstri Landspítalans sem er 45 milljarðar samkvæmt fjárlögum 2015“. Eins og Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður hér á Stundinni, benti á í gær talaði Gunnar Bragi hins vegar ekkert um Landspítalann og Landhelgisgæsluna þegar ákveðið var að afþakka tugi milljarða í formi veiðigjalda, auðlegðarskatts og raforkuskatts fyrr á kjörtímabilinu.
Í gær dró heldur betur til tíðinda. Þökk sé stöðugleikaskilyrðum ætti staða ríkissjóðs að batna til muna næstu ár. Að sögn Sigmundar Davíðs verður „ríkið betur í stakk búið til að sinna öllum mögulegum hlutverkum“. Seðlabankastjóri bendir þó á að nýta þurfi fjármunina með þeim hætti að ekki myndist þrýstingur á verðlag innlands; varast skuli að pumpa peningum út í hagkerfið á Íslandi.
Þegar birtir til og hagur ríkissjóðs vænkast vill utanríkisráðherra að Alþingi svíkist undan fyrri skuldbindingum sínum gagnvart fátækasta fólki heims. Því verður vart trúað að meirihluti Alþingis leggi blessun sína yfir slíka forgangsröðun.
Athugasemdir