Ég horfði svo mikið á Ólympíuleikana að ég kom svefnlaus í vinnuna í hálfan mánuð. Mest á frjálsar en ég gat líka alveg dundað mér við að fylgjast með greinum sem ég veit ekki alveg út á hvað ganga og kann ekki reglurnar í. Sumar greinar hafði ég ekki einu sinni séð áður. Vatnapóló og trampólínfimleikar? Fullkomin snilld sem mér myndi ekki detta í hug að fylgjast með nema á fjögurra ára fresti. Þetta er best. Það er eitthvað ótrúlegt við þennan viðburð. Og sérstaklega frjálsar. Sem gamall unglingalandsliðsmaður og æfingafélagi Sigurbjörns Árna fæ ég einstaklega mikið út úr því áhorfi.
Þetta var samt meira gaman fyrir nokkrum árum. Kannski var ég bara svona ungur og vitlaus og blindur á tilveruna en ég man eftir því að hafa fengið svona sameiningarfíling þegar ég horfði á Ólympíuleika. Logandi eldur sem átti að tákna ást og frið og jafnræði og óskir um betri heim. Heilbrigt og réttsýnt fólk klætt í sína eigin fánaliti að keppast launalaust við að verða landi sínu og þjóð til sóma. Afl sem gekk þvert á pólitísk átök og stríð milli heimshluta. Einn völlur, allir jafn réttháir og við sama borð.
Hvað í helvítinu gerðist svo eiginlega?
Nú skyggir verulega á áhorfsgleði mína að hugsa um staðreyndir málsins. Jú, vitanlega er glansmyndin þarna til staðar og hefur aldrei kastað jafn stórkostlegri ofbirtu og nú. Þvílíkar hetjur, þvílík hátíð, þvílíkur íburður. En sama hversu innilega ég reyni að gleyma öllu því ljóta og ömurlega þá mattast glansinn svo óskaplega fljótt. Hvar á ég að byrja? Tökum Ríó til dæmis. Fyrir venjulega íbúa Brasilíu voru þessi hátíðahöld alls ekki hátíð. Ég hef reyndar komið til þessa fallega lands og ég veit mjög vel að þar eru ljótustu hlutirnir mjög ljótir og þeir skánuðu ekki við þann stórkostlega peningaaustur sem fór í þessa geðveiki. Fólk í vinnu hjá hinu opinbera þar í landi fær ekki launin sín vegna þess að þeir peningar eru ekki til og börn hreinlega svelta í hel við stjarnfræðilega dýra veggi mannvirkjana sem eiga að hýsa þessa jafningjasamkomu. Eða nei, auðvitað ekki, því fólk sem á um sárt á binda fær ekkert aðgang svo nærri glansmyndinni. Þá væri allt ónýtt. En við vitum þetta vel. Okkur finnst þetta bara ekki alveg vera okkar mál og látum því slæda.
Þetta er sjálfsagt alvarlegasti parturinn af þessu, að almenningur þjáist vegna þess að peningarnir fara í að auglýsa fyrir heiminum að allt sé í lagi og að allir séu vinir. Það er siðleysi á kvarða sem ég kann ekki að lýsa. En hvað svo með íþróttirnar sjálfar? Keppnina góðlátlegu sem þau vinna sem búa yfir mestri hreysti, kven- og mannkostum? Fólkið sem hefur lagt mest á sig, fólkið sem eru fánaberar sinna þjóða? Hvað er hægt að segja um það allt saman?
„Almenningur þjáist vegna þess að peningarnir fara í að auglýsa fyrir heiminum að allt sé í lagi og að allir séu vinir.“
Hvar á ég að byrja?
Ég segi hér af fullri alvöru að ég treysti engum sem tekur þátt á Ólympíuleikum. Ég er ekki að segja að allir séu svindlarar en sá stóri hópur af afreksfólki sem hefur fallið á lyfjaprófum eða orðið uppvís að öðru misferli kastar slíkum skugga á alla sem taka þátt. Ég horfi á hvern einasta keppanda og berst við að halda rödd innra með mér í skefjum, röddinni sem hvíslar að mér hvort þessi vöðvabygging náist í alvöru með löglegum leiðum. Þessi árangur? Þessi bæting á gamla heimsmetinu? Þessi einstaklingur sem vinnur allt sem hægt er að vinna ár eftir ár eftir ár, honum treysti ég síst. Getur þetta verið hægt? Til eru milljón leiðir til að sneiða hjá því að upp um þig komist við misnotkun lyfja. Er þetta ekki bara keppni í því hver er bestur á því sviðinu? Í dag eru þar að auki svo miklir peningar í spilinu að öllum er skítsama um heilindi. Nei, auðvitað svindla ekkert allir, en það er búið að eyðileggja keppnina fyrir okkur. Við treystum engum og höfum heldur enga ástæðu til þess að gera það. Ekki þegar heilli þjóð er meinað að taka þátt á Ólympíuleikum vegna skipulagðrar yfirhylmingar með lyfjabrjálæði sinna keppenda.
Til viðbótar við þetta skiptir fólk um þjóðerni eins og þurfa þykir. Sumir auðvitað af illri nauðsyn en ansi margir vegna þess eins að of erfitt reynist að komast í liðið í heimalandinu. Fólki er sem sagt sama um reglurnar og uppruna sinn og tekur þátt þrátt fyrir að heimsbyggðin svelti á þeirra kostnað. Og við tökum öll þátt og ljúgum því að okkur að allir séu vinir og vel innrættir.
Þetta gengur ekki svona. Ég er þess vegna með hugmynd sem gæti nýst bæði leikunum og mér. Því miður er ég ekki viss um að þetta ráð eyði fátæktinni og eymdinni en hræsnin í það minnsta minnkar. Við förum sömu leið og torfæruíþróttamenn á Íslandi. Þar er keppt í tveimur flokkum, flokki óbreyttra bíla sem keyra má á þjóðvegum landsins annars vegar og flokki sérútbúinna bíla þar sem allt er leyft. Auðvitað er um að gera að leyfa krúttlega fólkinu sem ennþá er heiðarlegt að keppa sín á milli, en ég vil líka hafa ofurflokk. Þar sem lyf eru ekki svindl og allt má. Skítt með kynjaskiptingar eða frá hvaða landi þú ert. Mín vegna mega steravélmenni taka þátt svo lengi sem heimsmetið í 100 metra hlaupi fer niður fyrir 9 sekúndur, langstökksmetið yfir 15 metra og spjótið upp í stúku.
Tökum þetta alla leið. Þetta er hvort eð er allt saman svindl og skítlega óheiðarlegt.
Athugasemdir