Þann 30. október síðastliðinn brann Colectiv-klúbburinn í Búkarest eftir að að kviknað hafði í honum á tónleikum þegar neistar úr eldsýningu sveitarinnar sem var að spila komst í innréttingar staðarins. Ég spila á bassa með þungarokkshljómsveitinni Skálmöld. Tónleikarnir á Colectiv voru þungarokkstónleikar. Skálmöld hefur spilað nokkrum sinnum í Rúmeníu, nú síðast fyrir örfáum vikum á tónlistarhátíð í Búkarest en í febrúar á þessu ári spiluðum við einmitt á Colectiv. Við þekkjum fólk sem var á þessum tónleikum. Við vitum um nokkra sem lentu í brunanum en maður veltir líka fyrir sér öllum þeim andlitum sem maður hefur kynnst en ekki sett nafn við á þessum ferðum okkar. Er þetta fólk lifandi og við fulla heilsu? Öryggismálum á Colectiv var allharkalega ábótavant og ljóst að þeir 54 sem ýmist létust í brunanum sjálfum eða vikurnar sem síðan eru liðnar hefðu alls ekki þurft að gera það. Spilling, mútur, græðgi og vanvirðing gagnvart náunganum gerðu það að verkum að húsnæðið var með öllu óhæft til tónleikahalds, hvað þá að þar færi fram meðhöndlun eldfimra efna. Öllum var sama þótt illa gæti farið og þegar það loks gerðist féll saklaust fólk í valinn. Fólkið mitt. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og rúmenska stjórnin sagði af sér. Okkur er sagt að þetta gæti haft í för með sér breytingar til batnaðar.
Hálfum mánuði síðar réðust hryðjuverkamenn inn á rokktónleika í París og þegar yfir lauk höfðu hátt á níunda tug látið lífið. Eins og við vitum var árásin í Bataclan tónleikahöllina hluti af stærra áhlaupi og alls létust 129 í París þetta kvöld. Án þess að ég sé á nokkurn hátt að tala niður þá atburði sem gerðust víðsvegar um borgina hef ég vissulega hugsað mest um tónleikana með Eagles of Death Metal. Skálmöld hefur margsinnis spilað í París og þótt við höfum aldrei spilað á Bataclan hefði það allt eins getað gerst. Að auki hefði ég vel getað verið gestur á þessum tónleikum, svona ef ég hefði verið staddur í París þetta kvöld. Þetta er lífið sem ég lifi og loftið sem ég anda að mér. Ágætis vinur minn missti félaga sinn á Bataclan og ég frétti af fólki á hverjum degi sem tengist mér mismikið en á um að sárt að binda. Þungarokksheimurinn er alls ekki stór og þetta hefur áhrif á okkur öll.
Allt í einu eru vondu kallarnir í heiminum farnir að hafa bein áhrif á mitt líf. Ég er 37 ára og alla tíð hafa fjölmiðlar flutt mér fréttir af fólki að drepa annað fólk beint eða óbeint. Í gegnum lífið hafa þessir hlutir svo færst nær mér með hverju árinu sem líður en ég hef enn sem komið er náð að ljúga því að sjálfum mér að þeir standi mér nógu fjarri til þess að ég og fólkið mitt sé óhult. En ekki núna. Sviðið sem ég stóð á fyrir 9 mánuðum síðan er brunnið vegna þess að einhverjir aumingjar höfðu ekki fyrir því að fylgja sjálfsögðum öryggisreglum og aðrir aumingjar höfðu ekki fyrir því að sjá um það að hinir aumingjarnir gerðu eins og fyrir þá var lagt. Ef einhver hefði kveikt óheppilega í sígarettunni sinni í febrúar hefði það getað verið ég sem dó á Colectiv (allir meðlimir sveitarinnar sem stóðu á sviðinu létu lífið nema einn). Ég hef spilað á óhemjumörgum tónleikastöðum um allan heim, í París, í Búkarest og óteljandi borgum og bæjum til viðbótar. Hvað ætla ég að gera ef þar birtast illmenni með sjálfvirka riffla og sjálfsmorðssprengjubelti?
„Eigum við að að hætta og lúffa þannig fyrir þessum helvítis aumingjum?“
Við heyrum orð eins og „öfgamúslímar“, „spilling“, „hryðjuverkamenn“, „íslamska ríkið“, „ISIS“ og fleiri sem eiga að ég held að útskýra fyrir okkur á einhvern hátt hvað um er að vera. Það hjálpar mér bara andskotann ekki neitt. Mér er drullusama hvaða tylliástæður eiga að vera fyrir því að kunningjakona mín sem fór fyrir mig út í apótek í Búkarest fyrir sléttum mánuði síðan liggi núna milli heims og helju á sjúkrahúsi eftir brunann. Það er bara ein ástæða fyrir því: Þarna úti er fólk sem er sama um hvort saklausir lifa eða deyja. Þarna úti er fólk sem virðir ekki líf annarra og ég neita að veita þeim þann munað að reyna að skilja hvers vegna. Þetta nær út yfir útskýringar og út yfir röksemdarfærslur. Þið eruð ekki hryðjuverkamenn, þið eruð ekki ISIS, spilltir sjórnmálamenn eða öfgatrúarhópar. Nei. Þið eruð aumingjar og þið eruð fávitar!
Já, ég er 37 ára og núna loksins snerti þessi taumlausa illska líf mitt án milliliða. Ég hef svo sem enga rökstudda ástæðu til að halda að hún eigi eftir að hopa og einhvern veginn er mun nærtækara að ætla að allt fari smátt og smátt til helvítis á sama hraða og síðan ég fæddist. Vonandi ekki, en hey, sjáið þið eitthvað annað í kortunum? Ef eitthvað á að breytast verðum við að hætta að hata aðra. Já, við sjálf líka, ekki bara vondu kallarnir úti í heimi því þessi djöfull vomir alls staðar í kringum okkur alveg sama hvernig við reynum að loka augunum fyrir því. Ekki hata, það drepur. Og hvað á maður í þungarokkshljómsveit að gera? Eigum við að að hætta og lúffa þannig fyrir þessum helvítis aumingjum?
Aldrei.
Nákvæmlega þegar þetta blað berst í hendur fyrstu lesenda verð ég í flugvél með Skálmöld á leið til meginlandsins í mánaðarlanga tónleikaferð um Evrópu. Og mikið djöfull verður það gaman.
Sjáumst rétt fyrir jól.
Athugasemdir