Hugmynd um að reisa risasjúkrahús fyrir erlenda sjúklinga á Íslandi undir stjórn heimsfrægs hjartalæknis hljómar að sumu leyti vel. Eins og áður þegar erlendir aðilar ætla sér stórbrotin afrek á Íslandi hrósa þeir landi og þjóð um leið og þeir selja okkur hugmyndina. En nokkur atriði ýmist stangast á eða ganga ekki upp.
1. Segjast ætla að flytja inn viðskiptavinina
Forsprakkar nýja spítalans, Henri Middeldorp og Dr. Pedro Brugada, segjast ætla að fá sjúklinga erlendis frá, og því muni einkarekni spítalinn ekki valda stigskiptingu og mismunun í heilbrigðisþjónustu Íslendinga. Þeir segjast aðallega ætla að stíla inn á evrópska sjúklinga. Dr. Brugada útskýrir þetta með staðsetningunni: „Það er auðvelt að komast hingað – Ísland er viðkomustaður á leiðinni frá Evrópu til Bandaríkjanna.“ En fyrir veikt fólk í Evrópu er mun auðveldara að fara flest annað. Til dæmis til allra annarra landa í Evrópu. Þá útskýrir Dr. Brugada þetta með öðru. „Svo er það loftið, kyrrðin, vatnið, rólegheitin og einstök náttúrufegurð. Ég efast um að það sé hægt að finna heilsusamlegra umhverfi en hér.“
Mosfellssveitin er yndisleg, jafnvel þótt maður hafi farið öll hringtorg Mosfellsbæjar á leiðinni þangað um Vesturlandsveginn. En staðreyndin er að þótt loftgæði á höfuðborgarsvæðinu séu betri en í flestum stórborgum eru þau ekki framúrskarandi. Víða í Evrópu má finna náttúrufegurð, kyrrð, rólegheit og svo framvegis - og jafnvel nálægð við markhópinn og gott veður.
2. Segjast ætla að flytja inn starfsmennina
„Við munum koma með sjúklinga, lækna og hjúkrunarfólk til Íslands,“ segir Henri Middeldorp. Fyrirtæki sem ætlar bæði að flytja inn viðskiptavini sína og starfsmenn sína frá öðrum löndum hlýtur að teljast afar sérstakt. Þá vakna tvær spurningar: a) Hvers vegna ættu þeir að ganga fram hjá hæfum, íslenskum læknum, sem eru á takmkörkuðum launum í alþjóðlegu samhengi? b) Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að eitt fyrirtæki ráði innlenda starfsmenn?
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði frá því í Bítinu á Bylgjunni í morgun að hann vissi af því að forsvarsmenn einkasjúkrahússins hefðu þegar rætt við íslenska lækna um störf.
3. Segjast hafa gert samkomulag við heilbrigðisyfirvöld
„Við höfum gert samkomulag við íslensk heilbrigðisyfirvöld um að við sækjumst ekki eftir íslenskum sjúklingum nema þeir borgi sjálfir fyrir sínar aðgerðir í stað þess að íslenska heilbrigðiskerfið greiði fyrir þá,“ sagði Henri Middeldorp í sjónvarpsfréttunum á fimmtudag. „Heyrði fyrst af þessu í fréttum RÚV,“ skrifaði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, hins vegar, daginn eftir. Samt eru til myndir af Kristjáni Þór með Dr. Brugada og þeir lýsa samskiptum sínum við stjórnmálamenn eins og að eiga nágranna á Ramsay street: „Stjórnmálamennirnir eru svo opnir. Þetta er eins og að fara í heimsókn til fjölskyldumeðlims,“ stendur skrifað í grein á vef Burbanks Capital, erlends móðurfélags einkasjúkrahússins. Nú segjast þeir hafa verið að tala um annað, en kannski er viðbúið í óformlegum fjölskylduheimsóknum að spjallið fari á flakk.
4. Óljós hagsmunatengsl
Henri Middeldorp er sagður eiga helming hlutafjár í félaginu utan um einkasjúkrahúsið, en ekki er gefið upp hver er á bakvið hinn helminginn. Óljóst er hver fjármagnar Middeldorp. Við vitum hins vegar að Dr. Brugada kynnti í upphafi að hann væri í samstarfi við Klíníkina í Ármúla, einkareknu heilbrigðisþjónustuna í fyrrverandi húsnæði Broadway við Ármúla 9, sem er í eigu Ásdísar Höllu Bragadóttur, þekktrar sjálfstæðiskonu og fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ. Brugada hitti Kristján Þór Júlíusson, „fjölskyldumeðlim“, í tengslum við þann rekstur. En skyndilega var kominn á teikniborðið einkaspítali á stærð við Landspítalann með þúsund starfsmenn.
5. Stjórnmálamenn eigi ekki að tala um þetta
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, tekur upp hanskann fyrir aðstandendur einkasjúkrahússins og gagnrýnir þá sem vilji inngrip, á þeim grundvelli að slíkt væri geðþótti. „Það er gleðiefni að ekkert hefur verið rætt um málið við stjórnmálamenn eða embættismenn. Þeir hafa þá ekki gert sig vanhæfa við formlega afgreiðslu málsins. Þar ber þeim að fara að lögum og reglum hvað sem skoðunum þeirra líður.“ Ásdís Halla er fyrrverandi aðstoðarmaður Björns.
Hins vegar kemur fram hjá Önnu Björg Aradóttur, sviðsstjóra eftirlits og frávika hjá embætti landlæknis, að það sé ekki hægt að koma í veg fyrir mögulegan skaða á íslensku heilbrigðiskerfi nema með inngripi eða lagabreytingum. „Nei, það er í raun og veru ekki neitt í lögum, en það sem embætti landlæknis hefur áhyggjur ef slíkur einkarekstur yrði að einhverju marki, þá myndi hugsanlega starfsfólk sem er nú í opinbera kerfinu sækja þangað, hugsanlega vegna betri kjara og það gæti haft áhrif á opinbera kerfið. En það er ekkert sem bannar það.“ Þannig að til að fyrirbyggja mögulegan skaða þyrftu stjórnmálamenn að koma að málinu.
6. Torskilin viðskiptahugmynd
Hugmyndin er að erlendir sjúklingar komi hingað til lands, ekki bara ríkir, heldur þeir sem fái borgað frá sjúkratryggingum erlendis frá, samkvæmt Henri Middeldorp. „Alls ekki, því við erum að tala um sjúkratryggingu sem flestir Evrópubúar hafa ráð á, og sérstaklega Bandaríkjamenn.“
Grunnurinn að bissnesskeisinu er því ekki kerfið á Íslandi, ekki endilega mun dýrari þjónusta, ekki íslenskt starfsfólk, ekki markaðurinn á Íslandi, heldur náttúran og stemmningin. Henri Middeldorp talar um pólitískan óróleika í Evrópu og Bandaríkjunum. „Til að vera úti í náttúrunni. Ef þú lítur í kringum þig hérna sérðu hvað ég meina. Þetta er besti staður í heimi til að jafna sig eftir stóra skurðaðgerð.“ Hugsanlega er græðandi að slaka úti í náttúrunni í Mosfellssveit eftir skurðaðgerð á hjartanu í lok júlí. En Henri Middeldorp gæti líka horft í kringum sig í október, nóvember, desember, janúar, febrúar og mars og borið það saman við staði í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem minna er um lárétta úrkomu.
Hæft heilbrigðisstarfsfólk á lágum launum og hrörnandi opinbert heilbrigðiskerfi virðist hins vegar vera það skynsamlegasta í viðskiptahugmyndinni.
Óljóst er hvort stóri einkaspítalinn muni ná að gera samninga við Sjúkratryggingar Íslands um að fá íslenska sjúklinga greidda af opinberum heilbrigðisútgjöldum íslenska ríkisins, en það væri þeim í hag og líklegt að þeir reyni það - eins og orð þeirra benda til.
7. Lofum þessu, en samt er allt opið
Og varðandi það að fá ekki íslenska sjúklinga? Ásdís Halla hjá Klíníkinni var ekki mótfallin því, eins og haft var eftir henni í óbeinni ræðu í Morgunblaðinu þegar Dr. Brugada var kynntur til leiks í maí. „Meti heilbrigðisyfirvöld það hins vegar svo, að þau vilji að íslenskir sjúklingar fái aðgang að þjónustunni eða einhverjum þáttum hennar, yrði án efa orðið við því, en engar slíkar viðræður hafi átt sér stað.“
Henri Middeldorp sér líka kostina í því að ráða íslensku læknana, sem þeir ætla samt ekki að gera - samkvæmt „heiðursmannasamkomulagi“ sem heilbrigðisráðherra kannast ekki við. „Við störfum með erlendum sjúklinga sem borga hvort eð er svo væri það ekki frábært að þeir borguðu íslenskum læknum sem greiddu svo skatta hér?“ sagði hann í fréttum Sjónvarps á laugardaginn.
8. „Það er ekkert til að rústa“
Viðbrögð Henris Middeldorp við áhyggjum um að einkarekinn spítali muni soga til sín starfsfólks úr opinberu heilbrigðiskerfi landsmanna eru að gera lítið úr íslensku heilbrigðiskerfi, eða réttara sagt gera ekkert úr því: Heilbrigðiskerfið okkar er ekki neitt og því er ekkert til að eyðileggja. „Það er ekkert til að rústa. Ef fólk kvartar undan því að við séum að rústa einhverju þá þarf að vera eitthvað til þess að rústa, ef svo má segja,“ sagði hann í Fréttablaðinu. Sem sagt, ef hann veldur tjóni á einhverju skiptir það ekki máli vegna þess að það var ekkert gott hvort sem er. Þótt það sé heilbrigðiskerfi heillar þjóðar. Hann virðist aðhyllast einhvers konar líknarmorð á almennu heilbrigðiskerfi Íslendinga.
Athugasemdir