Síðustu dagar hafa verið hinar tíðindamestu í breskum stjórnmálum síðan, ef ekki frá tapi Churchills í kosningunum eftir seinni heimsstyrjöldina, þá frá hrundögum Thatchers. Segja má að hér sé allt á tjá og tundri eins og eftir leifturárás. Mesta haglél sem ég hef séð á sumardegi skildi eftir sig alhvíta jörð í Cambridge á föstudag. Sumir þóttust þar sjá teikn á lofti og spáðu engisprettufaraldri næst sem undanfara heimsslita. Sálfræðilitteratúrinn hefur eignast nýtt heilkenni, Bregret, samsett úr Brexit og regret: sár eftirsjá og iðrun að hafa greitt Brexit atkvæði í mótmælaskyni gegn kerfinu, en í þeirri fullvissu að tillagan yrði felld. Skoðanakönnun sýnir að meira en milljón kjósenda þjáist af Begret – en það er of seint að iðrast eftir dauðann ...
Ég hef fylgst ögn með skrifum um Brexit í íslenskum vefmiðlum og mér sýnist sem þeir hafi almennt staðið sig vel í að koma fréttum af viðburðum og viðbrögðum til skila. Þó eru nokkur atriði sem ekki hafa skilað sér nógu vel yfir hafið og heim – og því langar mig til að deila eftirfarandi hugleiðingum.
1. Tandoori-áhrifin
Skilja má á sumum fjölmiðlum heima að bróðurparturinn af kjósendum Brexit hafi verið hvítir, kristnir ellilífeyrisþegar með grunnskólapróf og lesendur Daily Mail (álíka brennimerking hér og að hlusta á Útvarp Sögu á Íslandi). Það er að vísu satt að 75% af þessum hópi greiddi atkvæði með Brexit, en það skýrir ekki 17 milljón atkvæði. Þetta hlutmengi þjóðarinnar er einfaldlega ekki nógu stórt til þess. Eitt sem gleymist er að talsverður hluti Múslima og Hindúa greiddi atkvæði með Brexit, raunar svo stór hópur að án fulltingis hans hefði Brexit fallið. Það er til dæmis engin hending að Birmingham, þar sem ég vinn, var eina stórborgin í Bretlandi þar sem Brexit hafði sigur, á meðan 76% fólks í Cambridge, þar sem ég bý, vildi vera áfram í ESB. Þetta kann að hljóma ankannalega. Var ekki megináróðurinn gegn innflytjendum og eru þessir Bretar ekki einmitt fyrsta eða önnur kynslóð innflytjenda? Skýringin er þó einföld.
Samfara auknum straumi innflytjenda frá Evrópu, sem ekki er hægt að stýra, hafa reglur um landvistarleyfi fyrir íbúa annars staðar úr heiminum verið hertar. Atvinnuleyfi fæst ekki lengur fyrir sérhæf störf nema árslaun séu 20 þúsund pund eða meira. Kokkar á indversku veitingastöðunum þéna ekki einu sinni svo mikið. Síðustu árin hefur einu indversku veitingahúsi verið lokað að meðaltali á viku.
Matargerðin þykir stöðnuð, m.a. vegna þess að hún gengur ekki í endurnýjun með nýjum kokkum frá Asíu. Samtök indverskra veitingahúsaeigenda hvöttu því fólk óspart til að kjósa Brexit. Það mætti kalla þetta Tandoori-áhrifin. Þetta er vitaskuld angi af stærra dæmi: ótta asískra innflytjenda hér við að vinir, vandamenn og samlandar þeirra eygi enga von um landvist meðan straumurinn frá Evrópu er óheftur. Nigel Farage spilaði óspart á þessa strengi með áherslu sinni á jafnræði í landvistarleyfum sem byggðist á verðleikum en ekki upprunalandi.
2. Blyton eða Dickens?
Ég hef áður vísað á Fésbók í söknuð margra eldri Breta eftir einmenningarsamfélagi eins og lýst er í bókum Enid Blyton frá 5. og 6. áratugnum. Ég sé að einhverjir hafa tekið þessa líkingu upp og gert sér mat úr henni. Ég efast þó um að margir heima geri sér fulla grein fyrir hve djúpt þátíðarþrá Breta ristir. Við þekkjum ekkert slíkt á Íslandi vegna þess að við sjáum fortíðina í skuggaþoku fátæktar og einangrunar. Alið er á þessari þátíðarþrá í endalausum myndaflokkum hér um fagurlitaða fortíð. Jafnvel þegar framhaldsþættir eru gerðir eftir sögum Dickens, sem lýsti betur skuggahliðum örbirgðar og vonleysis en flestir aðrir, er myndin fegruð og áherslan öll lögð á „glæstar vonir“ millistéttarinnar sem kemst til álna og frama. Margir af þeim sem greiddu Brexit atkvæði – og ekki bara elsta kynslóðin – voru að bera víur í „gömlu góðu dagana“ þegar lífið var friðsælla og einfaldara, alveg eins og í sjónvarpsseríunum.
3. „Doctor Livingstone, I presume“
Bretar hafa aldrei fyllilega skilað evrópska menningu. Þeir hafa jú eytt talsverðum hluta sögu sinnar í að berjast við frönsku „froskana“ og þýsku „kálhausana“. Þeim finnst eitthvað uppskrúfað og óekta við hámenningu Evrópu og hafa aldrei fyrirgefið bresku rómantísku skáldunum sem döðruðu við fornmenningu Grikkja og Rómverja. Bretar hafa hins vegar jafnan haft mikinn áhuga á framandi heimshlutum. Það er engin tilviljun að margir af frægustu landkönnuðum og fornleifafræðingum sögunnar hafa verið breskir.
Jafnvel á nýlendutímunum alræmdu áttu Bretar í sérkennilegu ástar-og-haturssambandi við nýlendur sínar. Þetta var gagnkvæmt. Hugsið ykkur til dæmis hve sérkennilegt Breska Samveldið er: að fjöldi þjóða sem var undir járnhæl Breta vildi ólmur halda sambandinu gangandi á einhvern hátt. Hví ætti klárinn að sækja þangað sem hann var kvaldastur? Getið þið ímyndað ykkur franskt eða spænskt Samveldi?
Margir Bretar eru enn tengdir samveldislöndunum – ekki síst Kanada og Ástralíu – sterkari andlegum böndum en löndum á borð við Holland eða Svíþjóð. Að segja sig úr lögum við Evrópu er því ekki sambærilegur angistarvaki og það væri til dæmis fyrir Þjóðverja.
4. Fall Clinton-kenningarinnar
Bretar hafa til skamms tíma greitt atkvæði, þegar á hólminn er komið, í anda Clinton-kenningarinnar: „It is the economy, stupid“. Jafnvel í síðustu þingkosningum var það ekki sú staðreynd að Milliband svelgdist á beikonsamloku sem olli sigri Íhaldsflokksins heldur að landsmenn töldu fjárhag sínum betur borgið undir stjórn Camerons og Osbornes en Verkamannaflokksins. Í nýrri skoðanakönnun kom hins vegar í ljós að 61% kjósenda Brexit kusu þann kost þrátt fyrir að gera ráð fyrir því að hann myndi annað hvort ekki gagnast þeim fjárhagslega eða jafnvel koma niður á pyngjunni. Þetta er athyglisverður sigur Hegels á Marx og virðist marka endalok Clinton-kenningarinnar í breskum stjórnmálum. Með öðrum orðum: Kjósendur voru ekki blekktir til að trúa því að Brexit væri fjárhagsleg bjargræðisleið. Þeir höfðu nógu sterka sannfæringu til að greiða atkvæði gegn eigin veski. Það gerir sigur Brexit í raun enn meira hrollvekjandi fyrir þau okkar sem hafa ólíka sannfæringu.
5. Fölsk vitund
Þó að hughyggja Hegels virðist hafa unnið sigur á efnishyggju Marx í þessum kosningum má hafa aðra kenningu Marx í baksýn: um falska vitund fólks sem greiðir atkvæði gegn eigin hagsmunum (og þá er ég ekki að tala um efnahagslega hagsmuni, sjá að ofan) vegna þess að villt hefur um fyrir vitund þess um hvað því er fyrir bestu. Á Íslandi þekkjum við þetta sem Sumarhúsaheilkennið. Það er engin hending að þeir sem brosa drýgst í kampinn yfir þessum úrslitum eru forystumenn kínverska kommúnistaflokksins sem nota þau nú sem rök fyrir því hvert óskorað lýðræði fávíss lýðs leiði okkur. Mildari túlkun sömu hugsunar er að segja „fyrirgefið þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjörðu“. Ég hef sjálfur verið hallur undir beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur. En ég hef fengið bakþanka eftir þessar kosningar – þó að mér þyki miður að þurfa að taka stöðu með „framvarðarsveitum“ Leníns sem eiga að hafa vit fyrir fólki.
Hver sem framvinda næstu daga og vikna verður er ljóst að Brexit-kosningin í Bretlandi verður uppspretta áframhaldandi hugrenninga um kosti og galla lýðræðisskipulags og hversu auðvelt er að grafa undan því með lýðskrumi. Gleymum samt aldrei niðurstöðu Churchills um að lýðræðið virðist versta form stjórnskipunar þangað til maður hefur skoðað alla hina kostina.
Höfundur er prófessor í heimspeki, Háskólanum í Birmingham, Englandi. Greinin birtist áður á Facebook-síðu hans.
Athugasemdir