Góðærið sem er nú er frábrugðið því sem var 2004 til 2008 vegna þess að það byggir á mikilli eftirspurn eftir þjónustu, það er að segja ferðamannaþjónustu. Það er raunverulegt góðæri í þeim skilningi að eftirspurn eftir innlendri framleiðslu hefur aukist. Gjaldeyristekjur hafa verið mjög miklar, Seðlabankinn hefur safnað í forða og erlendar skuldir verið greiddar niður. Þetta er gagnstætt því sem var á fyrra tímabilinu þegar erlendar skuldir hrönnuðust upp og lífskjör byggðust að verulegu leyti á lántökum erlendis. Skuldir heimila og fyrirtækja hafa undanfarin ár farið snarlækkandi en þær fóru vaxandi árin fyrir 2008. Þess vegna er það svo að áfall líkt því sem gerðist árið 2008 getur ekki átt sér stað við núverandi kringumstæður.
„Áfall líkt því sem gerðist árið 2008 getur ekki átt sér stað við núverandi kringumstæður.“
Hættan er hins vegar sú ef fer í sama horf á næstu árum, að þau verði eins og 2004-2008, nú þegar skuldir hafa verið ýmist afskrifaðar eða greiddar niður. Innlend hagstjórn ráði ekki við það verkefni að hafa hemil á innlendri eftirspurn, viðskiptaafgangur snúist í halla, fjármagn taki að flæða inn á ný og svo framvegis.
Það er því afar mikilvægt að þeir sem fara í ríkisstjórn og Seðlabanka Íslands sýni að þeir hafi lært af reynslunni og sagan endurtaki sig ekki.
Pistill Gylfa Zoëga er innlegg í umfjöllun um nýja góðærið sem birtist í októberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir