Stjórnarskráin, grundvallarskjal og sáttmáli íslenska þjóðríkisins, er eitt af þeim „eilífðarmálum“ sem eru í gangi á hverjum tíma og hefur verið svo allt frá stofnun lýðveldisins árið 1944 (og lengur). Um hana hafa staðið og standa enn deilur og rifrildi. Hvernig má það vera? Af hverju hefur þessi litla þjóð, þetta smáríki, ekki getað komið sér saman um þetta grunnplagg?
Í greinarstubb þessum er ekki ætlun mín að svara þessari stóru spurningu með endanlegum hætti. Það er hinsvegar mat mitt eftir að fylgst með umræðunni um stjórnarskrá (sem fór á mikið flug eftir Hrunið 2008, en sú umræða og vinna var nánast gerð að engu) að helsta ástæða þess að Íslendingar hafi ekki fengið nýja stjórnarskrá, eða mjög veigamiklar breytingar á henni, sé sú að þær breytingar stangist á við vissa og sterka efnahagslega hagsmuni hér á landi. Meðal annars sem snúa að eign og umsýslu á auðlindum.
Uppkast er til
Að vissu leyti má líkja Íslandi við einskonar munaðarleysingja í stjórnarskrármálum. Að vísu er til „uppkast“ að stjórnarskrá frá stjórnlagaráði (2011). En ferlið er óklárað og marar í hálfu kafi. Enginn veit hvað um þetta verður, þetta er ókláraður kafli í sögu Íslands. Verða örlög þess að rykfalla og falla í gleymskunnar dá?
Öðruvísi er til dæmis farið með ríki eins og Bandaríkin, sem að loknu miklu sjálfsstæðisstríði við Breta, tók í notkun stjórnarskrá árið 1788, átta árum eftir að landið lýsti yfir sjálfstæði. Þá vinnu höfðu þeir sem ég vil kalla „frumfeður“ (Founding Fathers) Bandaríkjanna unnið og í þeim hópi voru stórmenni á borð við Thomas Jefferson og George Washington.
Frumfeður
Við Íslendingar munum sennilega aldrei eignast okkar „frumfeður.“ Stjórnarskrá okkar er gjöf frá fyrrum nýlenduherrum okkar, Dönum, í tilefni 1000 ára byggðar á Íslandi (1874). Og þetta plagg sem Kristján níundi konungur kom með í för sinni hingað höfum við notað hingað til, með nokkrum breytingum, til dæmis mannréttindakafla. Þegar Ísland hlaut svo sjálfstæði frá Dönum árið 1944, var orðinu ,,kóngur“ skipt út og orðið „forseti“ sett í staðinn. Svo einfalt var nú það. Eins konar „klippa-klístra“ aðferð var notuð við grundvallarlög og sáttmála þjóðarinnar þegar hún lýsti yfir sjálfstæði frá Dönum, sem þá voru hersetnir af Þjóðverjum og undir járnhæl Adolfs Hitlers.
Fögur fyrirheit – þroskuð þjóð?
Fögur fyrirheit voru gefin í stjórnarskrármálum eftir efnahagshrunið árið 2008, en þau hafa öll meira eða minna runnið út í sandinn og orðið að engu. Hið „nýja“ Ísland birtist aldrei, það „gamla“ reyndist sterkara þegar upp var staðið. Að vísu hefur verið starfandi stjórnarskrárnefnd undanfarin misseri, en í ljósi sögunnar er ekki ástæða til bjartsýni.
Að mínu mati mun það sýna ákveðin þjóðarþroska takist að semja og lögfesta hér á landi stjórnarskrá, sem samin er og hugsuð af Íslendingum, fyrir Íslendinga. Nútímaplagg, fyrir hóp fólks sem vill líta á sig sem nútímaþjóð. Það plagg er reyndar til eins og áður er getið og er mörgu leyti hið ágætasta að mati undirritaðs. En það má kannski stilla því þannig upp að án þess að það gerist, sé ekki um fullan og varanlegan aðskilnað frá Dönum að ræða. Að mínu mati ætti það að vera metnaðarmál íslensku þjóðarinnar að semja sína eigin stjórnarskrá.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði
Athugasemdir