Ég þori ekki að nefna orðið „hugsjónir“ svo við skulum segja að stjórnmál eigi að snúast um málefni. Það er vissulega leiðinlegt orð, minnir einhvern veginn á þurra og dálítið verpta maltbrauðsneið með verksmiðjukæfu – málefni, nei, ekki er það spennandi – en hugsjónir hafa á sér illt orð í bili, núna á tímum þegar mestu hugsjónamennirnir virðast vera þröngsýnustu hópar samfélagsins: Múslimalaust Ísland árið 2020 og svoleiðis eitthvað. Svo við notumst við málefni, já, stjórnmál eiga sem sagt að snúast um málefni.
Nema hvað við vitum fullvel að ansi oft þá snúast þau ekkert um málefni, þau snúast um hagsmuni, hagsmunagæslu og síðast en ekki síst völd. Völd til að gæta hagsmuna, já, en líka bara völd valdanna vegna. Við Íslendingar þekkjum marga stjórnmálamenn sem hafa látið stjórnast af valdagleði eða máttsýki eða hvað við viljum kalla það.
Tveir eru nú nýlega horfnir af sviðinu.
Davíð Oddsson var að vísu alltaf meiri hagsmunagæslumaður en við áttuðum okkur á. Hann var bara svo fyrirferðarmikill að hann skyggði alltaf á þá sem hann var að passa fyrir, við sáum þá ekki, ekki fyrr en fór að sljákka í Davíð sjálfum og hann megnaði ekki að breiða skugga sinn yfir allt útgerðarauðvaldið sem hafði tekið hann upp á sína arma fyrir löngu. En völdin sjálf voru honum líka mikið kappsmál.
Hinn – Ólafur Ragnar Grímsson – hugsaði eiginlega ekki um neitt nema völd, þótt dugnað sinn nýtti hann vissulega til margra hluta, og voru sumir skárri en aðrir. Hann má eiga það að hann var aldrei á snærum neins, nema þau ár þegar hann glaptist til að styðja vitlausustu útrásarvíkingana, en jafnvel það gerði hann bara í eiginhagsmunaskyni og henti þeim fyrir róða strax og þeir voru orðnir honum fjötur um fót. Ólafur Ragnar er sennilega tærasti valdapólitíkus sem Ísland hefur nokkru sinni alið.
Sem sagt – málefni eða völd, um hvorttveggja getur pólitíkin snúist og þar er togstreitan á milli. Tvíhöfða þurs, þar sem hausarnir tveir þrefa án afláts en geta líka deilt bæði hugmyndum og baráttuaðferðum.
En nú er kominn þriðji hausinn á skepnuna.
Því Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er farinn að reka pólitík sem snýst hvorki um málefni né völd, heldur hreinasta rugl.
Núna standa fyrir dyrum afar mikilvægar þingkosningar. Við stöndum frammi fyrir því að hér þarf að gera mikilvægar kerfisbreytingar til hagsbóta fyrir fólkið í landinu og snúa af þeirri braut þjónkunar við peningaöflin sem alltof lengi hefur viðgengist. Það eru sem sé alvöru málefni sem kjósa þarf um.
Og sérhagsmunaöflin munu kappkosta að halda þeim völdum sem þau hafa tryggt sér og tuggið á í áratugi.
Á þessum tíma er okkur hins vegar boðið upp á skrípasýningu þar sem forsætisráðherra sem hrökklaðist frá vegna lyga og spillingarmála (það er spilling ef menn leyna mikilvægum prívathagsmunum sínum er varða stórkostlega mikilvæg mál), sá forsætisráðherra er nú svo óforskammaður að hann er að basla við að snúa til baka. Og það án þess að hafa á nokkurn hátt gert hreint fyrir sínum dyrum, viðurkennt mistök eða sýnt nokkur iðrunarmerki. Þvert á móti fer hann um með meiri lygum en nokkru sinni, heldur óskiljanlegar ræður um orrustuna við Waterloo þar sem hann getur ekki einu sinni ákveðið hvort hann er Napóleon eða hertoginn af Wellington, belgist út af eintómum grillum um eigið mikilvægi og sér samviskulausa ofsækjendur í hverju horni.
Og þetta rugl er okkur boðið upp á eins og væri það pólitík í alvöru landi. Það væri náttúrlega sök sér ef þarna væri einn maður á ferð fram og aftur sína blindgötu en kjósendur flokksins í Norðausturkjördæmi fylktu sér um hann, og töldu einmitt þennan mann álitlegan til setu á Alþingi.
Það er náttúrlega eitt ruglið enn að þessir 170 framsóknarmenn í Norðaustri skuli hafa ákveðið að eyða tíma okkar allra og orku í mikilvægri kosningabaráttu í skælbrosandi óforskammað rugl.
Athugasemdir