Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með mismunandi aðferðum stjórnmálanna í Danmörku annarsvegar og Svíþjóð hinsvegar, til að takast á við vaxandi styrk þjóðernisflokkanna þar í landi og hvernig þessar tvær leiðir hafa mótað landslag stjórnmálanna og samfélagsumræðuna með mismunandi hætti. Ekki síst á þetta við um umræðuna um innflytjendamál, en þjóðernisflokkarnir sem um ræðir, Dansk Folkeparti í Danmörku (DF) og Sverigedemokraterna í Svíþjóð (SD), byggja tilveru sína ekki síst á andstöðu við innflytjendur og hræðslu- og hatursmálflutningi gegn múslimum.
Í báðum löndunum hafa flokkar með svipaðan málefnagrundvöll og DF og SF starfað um áratugaskeið. Fram á síðustu ár hafa slíkir flokkar hinsvegar ekki náð fótfestu eða fjöldafylgi enda var málflutningur þeirra fordæmdur sem haturáróður og þeir sagðir ósamstarfshæfir vegna hans. Opinber umræða um innflytjendamál var á þessum tíma almennt jákvæð, byggð á rökum um samfélagslega ábyrgð, umburðarlyndi og fjölbreyttan ávinning af fjölmenningarsamfélaginu. Fyrir kosningar kepptust allir flokkar við að sverja af sér öll tengsl og mögulegt samstarf við þjóðernisflokkanna.
Neikvæður spírall Dana
Um aldamótin þegar halla fór undan fæti hjá hægri ríkisstjórn Anders Fogh Rassmussen í Danmörku, má hinsvegar segja að leiðir landanna hafi skilið. Til að tryggja meirihluta á þingi var DF smátt og smátt boðið velkomið úr kulda pólitískrar einangrunar og valdaleysis, undir hlýjan hægrivæng valdsins. Í stað fordæmingar á málflutningi DF gegn innflytjendum og múslimum var þeim mætt með auknum skilningi og komið var til móts við ýmsar kröfur þeirra um herta innflytjendalöggjöf og minni stuðning við innflytjendur. Í dag efast enginn um að DF er fullgildur aðili að flokkabandalagi hægrimanna og málflutningur þeirra er viðurkenndur sem sjálfsagður og eðlilegur.
„Umræðan hefur þannig orðið sífellt neikvæðari, ekki síst í garð múslima sem DF útmálar nú óhikað sem ógn við samfélagið.“
Eftir að hægri vængurinn aflétti einangrun DF hafa málefni innflytjenda verið eitt af helstu kosningamálunum í Danmörku og umræðan stigmagnast í einskonar neikvæðum spíral, með örvæntingarfullum tilraunum annarra flokka til að höfða til sömu kjósenda og DF. Umræðan hefur þannig orðið sífellt neikvæðari, ekki síst í garð múslima sem DF útmálar nú óhikað sem ógn við samfélagið, menningarlega, samfélagslega og efnahagslega.
Þessi stóraukna og neikvæða umræða um innflytjendamálin hefur síðan leitt til þess að DF hefur aukið fylgi sitt jafnt og þétt og nú er svo komið að DF mælist með 18-22% fylgi, svipað og stóru flokkarnir gömlu, Socialdemokraterne (jafnaðarmenn) og Venstre (sem er hægriflokkur). Aukið fylgi sitt hefur DF ekki síst sótt í raðir fyrrum kjósenda jafnaðarmanna og þar með fært um 10% sem áður tilheyrði vinstrivængnum undir þann hægri. Það þarf því ekki að koma á óvart, að nú þegar skammur tími er til kosninga, herði jafnaðarmenn í Danmörku málflutning sinn í málefnum innflytjenda og reyni þar með að ná frá DF og hægriblokkinni þeim 4-5% sem vantar til sigurs og áframhaldandi valda.
Samstaða Svía gegn öfgum
Í Svíþjóð hefur á sama tíma tekist að tryggja nær algera samstöðu flokkakerfisins um pólitíska einangrun SD og fordæmingu á málflutningi þeirra í garð innflytjanda. Þetta hefur tekist, þrátt fyrir aukið fylgi SD og þá lykilstöðu sem þeir náðu í síðustu kosningum, en þá gátu þeir í raun ráðið úrslitum um hvort hægri eða vinstriblokkin kæmist til valda, svo fremi að blokkirnar hefðu viljað við þá samstarf.
En hvorug blokkin lét freistast og í stað þess að gefa eftir í fordæmingu sinni á málatilbúnað SD yfirgaf flokkabandalag hægrimanna Stjórnarráðið, helstu forystumenn þess hættu í stjórnmálum og eftirlétu völdin flokkabandalagi vinstrimanna. Ýmislegt hefur gengið á í sænskum stjórnmálum í kjölfar þessa og SD reynt allt til að brjótast út úr einangruninni, en enn sem komið er hefur samstaða annarra flokka um að einangra SD haldið.
„Öll umræða um innflytjendamál er einnig á mun jákvæðari nótum en í nágrannalandinu Danmörku.“
Yfirgnæfandi meirihluti sænsku þjóðarinnar virðist styðja þessa afstöðu hefðbundnu flokkanna, þrátt fyrir vaxandi fylgi SD. Öll umræða um innflytjendamál er einnig á mun jákvæðari nótum en í nágrannalandinu Danmörku þó sannarlega beri meira á neikvæðum málflutningi og hatri í garð innflytjenda eftir að SD efldist á þingi. Svíþjóð tekur enda á móti umtalsvert fleiri flóttamönnum á ári hverju en nokkur önnur þjóð á Norðurlöndum og ekki er um það deilt að álagið á innviði samfélagsins vegna þeirrar stefnu stjórnvalda er umtalsvert meira en annarsstaðar.
Það verður fróðlegt að sjá hvort Svíar ná á næstu árum að hemja vaxandi heift og hatur í garð innflytjenda með pólitískri einangrun SD eða hvort þeir missi einnig tökin, líkt og frændur þeirra Danir og veiti hatursumræðunni lögmæti.
Athugasemdir