Stjórnvöldum hefur mistekist fullkomlega að mæta stórum hópi fólks sem treystir á leiguhúsnæði. Á sama tíma og milljarðar hafa verið gefnir úr ríkissjóði fljóta litlu ljótu leiguungarnir um í drullupollinum sem er íslenskur leigumarkaður. Síðasta sumar skrifaði ég um þessi mál í DV ásamt öðrum blaðamanni. Á tveimur dögum fengum við tugi frásagna frá fólki í vonlausri stöðu. Allir mögulegir biðlistar eru löngu sprungnir og hafa verið lengi. Þetta var fyrir ári síðan og þá var neyðin mikil og hafði verið lengi. Ekkert hefur gerst síðan. Ólíklegt er að þau frumvörp sem nú eru til umræðu í þinginu hafi raunveruleg áhrif á næstu mánuðum, jafnvel misserum. Staðan hefur bara versnað. 80 fermetra íbúðir í úthverfum Reykjavíkur leigjast á allt að 230.000 krónur á mánuði.
Sjálfur þekki ég þessa stöðu vel. Ég er í mastersnámi, í leiguhúsnæði og með tvö börn. Nú hef ég reynt að vera fullu námi í tvær annir og vinna á bilinu 30-50% starf með því. Það er nauðsynlegt til að reka heimilið þar sem námslán ná upp í sirka helming fastra útgjaldaliða, þá er eftir öll neysla. Skuldirnar hlaðast upp.
Sem færir athyglina að annarri staðreynd. Íslenskt námslánakerfi er rjúkandi rúst. Ómarkvissara og ópraktískara kerfi hlýtur að vera erfitt að finna. Kerfið er tekjutengt sem veldur því að það hvetur til meiri skuldasöfnunar en þörf krefur. Sem er óumflýjanlegt þar sem framfærslan er skammarlega lág. Það er ómögulegt að draga úr skuldasöfnun með því að afla tekna á meðan á námi stendur. Þá skerðast námslánin á móti. Til hvers að hafa þetta svona? Hvaða heilvita einstaklingur er að fara standast fjóra áfanga á háskólastigi (sem er full vinna) til þess eins að fá verðtryggt lán sem hann þarf að greiða til baka á vöxtum? Fimm ef hann ætlar að fá fullt lán.
„Ef nemi lendir sem sagt í „lífinu“ ... þá skerðast námslán hans...“
Í mörgum tilfellum neyðast námsmenn til að vinna til þess að ná endum saman. Þá fer af stað vítahringur aukinnar skerðingar og þörf á meiri tekjum (vinnu) á móti. Til að gera þetta svo fullkomlega glórulaust þá miðast lán á vorönn við tekjur ársins á undan. Þannig að ef námsmaður lenti í áfalli á haustönn (eða á árinu) er vorönnin svo gott sem ónýt. Tökum dæmi; maki nema veikist og missir tekjur, bíll bilar, nemi lendir í bílslysi, varð að fara til tannlæknis, veikist eða slasat og þarf meðhöndlun. Með öðrum orðum, ef þú ert lifandi. Ef nemi lendir sem sagt í „lífinu“ og þarf að auka við sig vinnu tímabundið til að halda heimilinu á floti þá skerðast námslán hans alla vorönnina einnig. Sem veldur því að hann neyðist til þess að vinna meira. Enginn sveigjanleiki er til staðar hjá LÍN til að mæta slíkum áföllum. Gleymum því ekki að það er rúmlega fullur vinnudagur að vera í háskólanámi. Bættu svo uppeldi á einu til tveimur börnum í blönduna. Bara hið fullkomna umhverfi til að ná árangri í námi.
Staðreyndin er sú að námslánakerfið er þannig uppbyggt að það hvetur til meiri skuldasöfnunar en þörf krefur vegna innbyggða hvatans um að taka fullt lán. Sem gerir það að verkum að námsmenn koma skuldsettari út á atvinnumarkaðinn að námi loknu, eiga þar með erfiðara með að kaupa húsnæði eða leigja og hafa minna á milli handanna til einkaneyslu. Það þarf ekki doktorsgráðu í hagfræði til að sjá hver áhrifin eru í stóra samhenginu. Þar að auki hefst háskólanám hér á landi einu til tveimur árum seinna en í nágrannalöndum okkar. Sem veldur því að líklegra er að stærri hluti nemenda búi í eigin húsnæði á námstímanum. Sem aftur þýðir hærri útgjöld og meiri skuldasöfnun. Fram að þessu hefur ekki verið minnst einu orði á nám erlendis. Það er efni í heilan pistil til viðbótar og fer að verða nánast ómögulegur valkostur.
Endurheimtur LÍN eru mjög lélegar. Því hærri sem lánin eru því ólíklegra er að þau séu greidd til baka. Lausnin er því ekki bara að hækka framfærslu. Hvernig er hægt að halda úti kerfi sem er svo óhagkvæmt fyrir alla aðila? Fyrst endurheimtur eru á annað borð afleitar af hverju er þá ekki reynt að haga hlutum þannig að námslán hangi ekki eins og myllusteinn um háls landsmanna um ókomin ár? Það þarf að endurhugsa kerfið frá grunni.
Það er meira en nóg að tengja lán við námsárangur og auðvitað á að skapa kerfi sem hvetur nemendur og skapar umhverfi til að stunda námið betur. Til dæmis með því að gefa eftir hluta lána ef góður árangur næst. Í stað umhverfis sem ýtir hreinlega undir aukið álag á meðan á námstíma stendur og heftir gæði náms.
Menntun er fjárfesting. Fjárfesting í mannauðnum og er einn af mikilvægustu gangráðum hagvaxtar.
Athugasemdir