Í grein eftir mig sem birtist í Fréttablaðinu í morgun sagði ég að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi holað að innan velferðarkerfið. Jóhanna hefur brugðist við þessu með því að benda á að ríkisstjórn hennar hafi tekið við hörmulegu búi og ekki mátt sín mikils. Fleiri hafa gefið í skyn að ég hafi verið ósanngjarn í orðum mínum af því að efnahagur ríkisins hafi verið svo bágur á hennar tíma að það hafi kallað á niðurskurð alls staðar. Í svari sínu gefur Jóhanna það í skyn að ég hafi sett málið í rangt samhengi. Nú ætla ég ekki að vera dómari um það hvað sé rétt eða rangt samhengi hér enda held ég að skilgreinig á þeim hljóti að vera nokkuð á reiki en ég ætla að deila með ykkur í hvaða samhengi mín skoðun varð til:
Efnahagur þjóðarinnar var bágur og ríkisfjármál í rusli og það hlýtur að hafa verið erfitt verk að taka við taumunum en þá vildu Jóhanna og hennar fólk og þá fengu þau. Þrátt fyrir bágt ástand tókst þeim að afla fjár til þess að búa til efnahagsreikninga fyrir nokkra banka, bjarga hinum ýmsu fjármálastofnunum víðsvegar um land, ljúka við byggingu Hörpu og bora gat í gegnum Vaðlaheiðina. Það má vel vera að það séu til rök sem styðji þá skoðun að allt þetta hafi verið nauðsynlegra en að viðhalda velferðarkerfinu óskertu en ég kaupi þau einfaldlega ekki. Það breytir engu hér um að AGS hefur hrósað okkur fyrir niðurskurðinn vegna þess að ég lít fyrst og fremst á hann sem innheimtustofnun fyrir alþjóðlega lánardrottna. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Jóhanna hefði viljað viðhalda velferðarkerfinu af því hún hefur um langan tíma verið málssvari þeirra sem minna mega sín en það er bara eitthvað sem gerist innan höfuðskelja íslenskra stjórnmálamanna þegar þeir setjast á valdastóla. Það er akkúrat það sem ég var að fjalla um í greininni minni frá því í morgun.
Athugasemdir