Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði óþægilega augljósa tilraun til að blekkja fólk í Kastljósinu í gærkvöldi.
Fyrir kosningar hafði Bjarni, eins og margir aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, lofað fólki því að það fengi að kjósa í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Í kosningasjónvarpinu á Stöð 2 endurtók hann þetta skýrt:
„Í Evrópusambandsmálinu munum standa við það sem við höfum ályktað, um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún gæti farið fram á fyrri hluta þessa kjörtímabils… En við munum standa við það, að hlusta eftir því sem fólkið í landinu vill.“
„Við munum standa við það, að hlusta eftir því sem fólkið í landinu vill.“
Þeir sem voru að velta fyrir sér hvern þeir ættu að kjósa, og voru kannski mjög hlynntir viðræðum við ESB en líka hlynntir skattalækkunum Sjálfstæðisflokksins, þurftu ekki lengur að hugsa út í ESB-málið, evruna eða krónuna, því það yrðu aðrar kosningar um það. Þeir þurftu ekkert að pæla í því að kjósa Samfylkinguna eða Bjarta framtíð út á ESB-málið, sem var samt eitt allra stærsta mál þessara flokka.
Í Kastljósinu í kvöld hélt Bjarni því hins vegar blákalt fram að við hefðum kosið um ESB-málið í kosningunum sem hann sagði að snerust ekki um ESB.
„Síðan koma kosningar og þar lögðu flokkarnir upp með skýrar línur varðandi áherslur sínar í Evrópumálum. Það er ekki hægt að túlka þá niðurstöðu öðruvísi en að þeir sem lögðu mesta áherslu á inngöngu í Evrópusambandið, þeir fengu enga áheyrn hjá kjósendum. Ríkisstjórn með þetta sterkan meirihluta, hún er bara að framfylgja vilja kjósenda og þingsins í þessu máli, það er ekkert öðruvísi.“
„Ríkisstjórn með þetta sterkan meirihluta er bara að framfylgja vilja kjósenda“
Bjarni er blákalt að reyna að sannfæra okkur um að með því að svíkja okkur um aðkomu að málinu sé hann að framfylgja vilja okkar, vilja sem hann greindi út frá kosningum sem snerust einmitt ekki um málið.
Hann er líka að reyna að telja okkur trú um að hann sé að framfylgja vilja þingsins með því að sniðganga þingið.
Þetta bendir til þriggja óhugnalegra atriða.
1. Fyrst hann er staðinn að svona augljósum tilraunum til að afvegaleiða fólk er hann mjög líklegur til að reyna að blekkja fólk um önnur atriði.
2. Hann hefur þann sjónarhól að vilji almennings viðkomi því bara að velja á milli flokksins hans og hinna flokkanna á 1.461 dags fresti.
3. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu líklega náð töluvert minna en 51,1% fylgi í kosningunum ef þeir hefðu ekki sannfært kjósendur um að kosningarnar snerust ekki um ESB og gjaldmiðilinn - sem voru hugmyndafræðilega veikustu punktarnir í stefnu þeirra - og þannig í raun gert óþarft fyrir stuðningsfólk ESB-viðræðna að kjósa Samfylkinguna eða Bjarta framtíð.
Þar til þeir sviku það. Af þvi að við vildum það.
Og sniðgengu þingið, því það vill það. Þótt þess þurfi ekki ef það vill það.
Athugasemdir