Ég sat á kaffihúsi í Stokkhólmi á fimmtudagsmorgun og las fréttir í dagblaðinu Dagens Nyheter um að viðbúnaðarstig vegna hugsanlegrar hryðjuverkaárásar í landinu væri nú 4 af 5 stigum mögulegum. Í forsíðufréttinni var sagt frá því að leitað væri að ætluðum terrorista í Svíþjóð og að auknar líkur væru á því að hryðjuverk yrðu framin í landinu. Framan á Aftonbladet var meira að segja mynd af þessum grunaða 22 ára meinta hryðjuverkamanni og nafn hans var birt. Ógnin var áþreifanleg - einungis tæp vika var liðin frá hryðjuverkaárásunum í París - og ég sat í miðborg Stokkhólms, á svæði sem var einn líklegast til að geta verið skotmark hryðjuverkamanna.
Þar sem ég las um leitina að hryðjuverkamanninum sá ég allt í einu hvar maður skildi eftir sig fulla íþróttatösku við borð rétt fyrir framan nefið á mér. Svo gekk hann í burtu frá töskunni. Ég horfði á íþróttatöskuna og velti því fyrir mér hvað væri ofan í henni. Síðan leit ég á manninn. Hann gæti hafa verið ættaður frá Miðausturlöndum. Hann var ekki með skegg heldur nauðrakaður og klæddur eins og hvaða Svíi sem er. Þennan dag var hann hins vegar ekki alveg eins og hver sem er og kannski vissi hann það sjálfur.
Auðvitað myndi enginn heilvita hryðjuverkamaður ganga um miðborg Stokkhólms fúlskeggjaður, í svörtum serk og með túrban. Lykilatriðið er að villa á sér heimildir; líta einmitt út eins og hver sem er, blandast inn í mannmergðina, vera „einn af okkur“ en svo kemur allt í einu bara: Búmm, búmm, búmm; allt verður blóð og engan grunaði neitt.
Ég hætti að lesa blaðið, leit á manninn, fylgdi honum með augunum og sá hvar hann gekk að afgreiðsluborðinu, náði sér í köku og kaffi latté, gekk svo aftur að borðinu hjá íþróttatöskunni, settist niður og át. Eftir því sem ég best veit tók hann ekki eftir því að ég gaf honum gaum.
Leitin að hryðjuverkamanninum meinta stóð yfir allan daginn og var langstærsta fréttamálið þann daginn og sænska þjóðin fylgdist með og ég líka.
Síðdegis á fimmtudaginn fór ég niður í neðanjarðarlestina til að fara heim til mín. Á bekknum sem ég tyllti mér niður á meðan ég beið eftir lestinni sat kona á miðjum aldri með slæðu utan um hár sitt. Hún var hugsanlega ættuð frá Miðausturlöndum. Í fanginu var hún með stóra svarta leðurtösku sem minnti á keilukúlutöskurnar sem maður sér í gömlum glæpamyndum. Hún var líklega komin vel á sjötugsaldur; hefði hæglega getað verið mamma mín og amma barnanna minna. Hvað var hún eiginlega með í töskunni hugsaði ég? Hryðjuverkamenn spyrja ekki um aldur fólks og jafnvel getur verið gott að láta börn og konur bera sprengjur af því þau líta ekki eins grunsamlega út og ungir karlmenn. Lestin mín kom en konan með töskuna varð eftir á bekknum.
Inni í lestinni settist ég niður á móti þeldökkum manni sem sennilega var á fertugsaldri. Var hann eitthvað pínulítið grunsamlegur? Hann var samt ekki með neina tösku. Getur verið að hann hafi verið með eitthvað inni á sér - sprengjuvesti? hugsaði ég. Svo fór ég út úr lestinni og gekk heim frá stöðinni og borðaði soðinn þorsk, stappaðan með smjöri og kartöflum í kvöldmat.
Ég sagði engum hvað fór í gegnum huga minn þennan dag af því ég skammaðist mín fyrir það. Alls staðar sá ég mögulega hryðjuverkamenn; eða alls staðar þar sem ég sá fólk með ákveðið litarhaft eða persónueinkenni sem í mínum huga ég tengdi við hugsanlega hryðuverkamenn; fólk sem ég hefði alla jafna ekki gefið neinn sérstakan gaum umfram aðra eða grunað um græsku. Ég hélt - já, ég hélt það sannarlega - að ég væri eini maðurinn, eða einn af fáum, sem væri nægilega vænisjúkur á þessum degi til að hugsa slíkar hugsanir. Þess vegna þagði ég um þær.
Ekki fyrr en daginn eftir - í fyrradag - áttaði ég á mig á því hvað ég hafði haft rangt fyrir mér.
„Fólk hætti sér í mollið en flestir eru með varann á sér.“
Í grein í Dagens Nyheter var viðtal við gesti nýja verslunarkjarnans Mall of Scandinavia í Solna sem opnaði í síðustu viku. Fyrirsögnin var: „Fólk hætti sér í mollið en flestir eru með varann á sér.“ Lögreglan var með sérstaklega mikinn viðbúnað í Mall of Scandinavia vegna þess að verslanamiðstöðin þótti vera hugsanlegt skotmark hryðjuverkamanna. Viðmælendur blaðsins meðal gesta skiptust eiginlega í tvo hópa. Annars vegar þeir sem voru með varann á sér og tortryggnir og svo hins vegar þeir sem voru æðrulausir gagnvart hryðjuverkaógninni.
Einn gesturinn sagði: „Það er leiðinlegt að maður byrjar að horfa með öðrum hætti á menn með skegg eða á konur sem bera slæðu um höfuðið. En maður gerir það, það er eins ósjálfrátt viðbragð. Mér finnst þetta óþægilegt og ég vildi eiginlega ekki fara út í dag.“ Annar gestur sagði svo: „Ég ætla ekki að hætta að lifa mínu lífi vegna einhverrar hryðjuverkaógnar. Ef eitthvað gerist þá gerist það, maður getur verið óheppinn á verið á röngum stað á röngum tíma, en ég stýri því ekki.“ Sumir voru smeykir á meðan aðrir voru æðrulausir.
„Ég er sjálfur hræddur núna og er gætinn og af hverju má annað fólk ekki vera það líka?“
Kannski voru orð þriðja mannsins einna áhugaverðust af því hann lenti sjálfur í því að verða fyrir tortryggni vegna þess að hann var með sítt skegg. Sá maður leit út fyrir að vera frá Miðausturlöndum og heitir Hussan Khaleghi. „Ég er hræddur og grandvarari en vanalega. Ég myndi aldrei fara á fjölmennan stað á laugardagskvöldi út af því hver staðan er. Fólk er líka hrætt við mig út af skegginu mínu […] Ég er búinn að panta tíma hjá rakaranum. Ég verð að láta taka af mér skeggið. Í vikunni hef ég séð með mínum eigin augum hvernig fólk forðast mig. Um daginn keypti ég mér nýja tölvu. Ég bar hana í kassanum í gegnum verslanamiðstöðina Solna Centrum og sá hvernig fólk færði sig í burtu þegar ég kom gangandi. Ég skil það fullkomlega því skeggið mitt gerir það að verkum að ég lít út fyrir að vera hættulegur. Ég er sjálfur hræddur núna og er gætinn og af hverju má annað fólk ekki vera það líka?“ Hassan segir svo frá því að viðbrögð hans við þessum móttökum fólks sé að byrja að tala hátt og snjallt á sænsku þannig að fólk átti sig á því að hann sé bara venjulegur, sænskur samfélagsþegn.
Ég var því sannarlega ekki einn um vænisýkina og tortryggnina í garð fólks sem hefur einhver hugsanleg persónueinkenni, eða sem ber einhver tákn, sem kunna að tengjast íslam eða uppruna frá Miðausturlöndum. Auðvitað vil ég ekki að slíkar vænisjúkar hugsanir gagnvart venjulegu fólki, sem tengist hryðjuverkum ekki neitt, fari í gegnum huga minn. Að sjálfsögðu veit ég að ég á ekki að hugsa svona en þesar hugsanir eru nær því að vera ómeðvitaðar en meðvitaðar og eru þær órökréttar afleiðingar - nánast „viðbragð“ eins og fjallað er um hér að ofan - tortryggni eða ótta. Ég gæti sagt að ég hugsaði ekki svona, haldið því leyndu að ég geri það, og sagt að ég hafi ekki verið smeykur og í huganum stimplað ömmulegu konuna í lestinni sem hryðjuverkamann og saumavélatöskuna hennar - eða hvað þetta nú var - sem sprengjuhylki. En það er bara ekki satt. Að temja huga sinn algjörlega og missa hann ekki út á órökréttar eða óæskilegar brautir er hægara sagt en gert þegar umræðan um hryðjuverkaógn er svo mikil í samfélagi.
„En það gengur ekki að reyna að beita óskhyggjunni gegn þeirri staðreynd að þessum morðingjum getur tekist ætlunarverk sitt án þess þó að fremja hryðjuverkaárás.“
Á það hefur líka verið bent margoft síðastliðna viku að það sé mikilvægt að fólk sem býr í löndum þar sem hryðjuverkaógn er til staðar haldi áfram að lifa lífi sínu sem fyrr og láti óttann ekki ná tökum á sér. Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, kom þessum boðskap meðal annars til dæmis á framfæri fyrr í vikunni. Því það er einmitt það sem hryðjuverkamennirnir vilja eins og leiðarahöfundur Dagens Nyheter benti á í dag þegar hann vísaði til hræðslu fólksins í Mall of Scandinavia: „Dauðadýrkendurnir í ISIS gleðjast auðvitað yfir þessu. Að búa til hræðslu og sundrung er markmið þeirra. Og auðvitað er rétt að reyna að telja í sig kjark og vinna gegn hræðslunni. En það gengur ekki að reyna að beita óskhyggjunni gegn þeirri staðreynd að þessum morðingjum getur tekist ætlunarverk sitt án þess þó að fremja hryðjuverkaárás. Að mörgu leyti ræðst hryðjuverkaógnin sem sagt á sjálfstæði fólks. Samfélag sem bíður á milli vonar og ótta er ekki eins frjálst og opið og það var.“
Ég veit að það voru engar sprengjur í töskunum hjá fólkinu á kaffihúsinu og í lestinni. En ég veit líka að ég mun örugglega hugsa sambærilega hluti aftur og aftur á meðan hryðjuverkaógnin er ennþá fyrir hendi að mati sænskra yfirvalda. Á sama tíma veit ég að ég má ekki og á ekki að hugsa þannig.
Athugasemdir