Þegar hann lýgur er verið að ráðast á hann. Þegar kemst upp um hann verður hann reiður. Þegar hann gerir eitthvað rangt grefur hann undan þeim sem benda á það. Þegar fólki finnst eitthvað athugavert við það sem hann gerir er eitthvað að því fólki.
Hann er forsætisráðherrann okkar.
Íslenska taktíkin reynd á Svía
Þótt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi manna mest gert út á íslenskt þjóðarstolt síðustu ár getur maður nú ekki annað en skammast sín fyrir ásýnd þjóðarinnar út á við vegna hans.
Í kvöld sáum við forsætisráðherra okkar reyna að afvegaleiða sænskan fréttamann vegna réttmætra spurninga um hagsmuni hans, reiðast og ganga síðan út úr viðtali. Við fylgjumst með honum berjast við að segja ósatt vel og nota íslensku taktíkina sína sem hann notar hérna heima: Snúast gegn fréttamanninum og gagnrýna hann fyrir að spyrja spurninga.
Forsætisráðherrann okkar er staðinn að ósannindum og hræsni í viðtali við sænska fréttamanninn, þar sem hann talar um að velta þurfi við öllum steinum og gagnrýnir þá sem notast við skattaskjól.
Eftir það hefur hann breytt skilgreiningunni á „skattaskjóli“ með þeim hætti að hann sé ekki í skattaskjóli á Tortóla, þótt hann sé þar og þótt það sé skattaskjól, vegna þess að hann borgi skatta, þótt það sé ekki hægt að vita það því þetta er skattaskjól.
Við erum færð niður um flokk
Skilningsleysi Sigmundar á eðli lýðræðislegrar umræðu og gagnsæi, sem hann hefur markvisst reynt að innleiða á Íslandi, kemur hræðilega út fyrir Ísland í evrópsku samhengi. Vegna hans lítum við ekki út fyrir að vera í flokki með þroskuðum lýðræðisríkjum Norðurlandanna eða Vestur-Evrópu.
Um leið sjáum við samhengið af aðferðum hans til að manipúlera fólk frá því hann komst til valda; hvernig hann hefur reynt að breyta gildismati okkar til að það rúmi það sem hann gerir. Hvernig það er rangt af stjórnmálamönnum að segja frá hagsmunum sínum, en rétt að leyna þeim, hvernig hann er spenntur yfir vantrauststillögu á Alþingi, í staðinn fyrir að taka óánægju annarra alvarlega, hvernig það er rangt að spyrja hann spurninga, en rétt af honum að leyna og afvegaleiða. Hann snýr öllu á hvolf, og segir síðan að öllu sé snúið á hvolf á Íslandi. Hann er róttæki rökhyggjumaðurinn, við erum veruleikafirrt. Aðrir eru gerendur, hann fórnarlamb.
Við sjáum samhengið af því hvernig hann hefur ruglað í okkur og brenglað veruleikann, reynt að sannfæra okkur um að það sé eitthvað að okkur.
Lygar og reiði
Í viðtalinu laug Sigmundur og sagðist ekki hafa tengst neinu aflandsfélagi. „Ég, nei…“ segir hann og reynir síðan að framleiða svar sem er minni lygi. „Ég get staðfest að ég hef aldrei falið neinar eignir,“ segir hann svo. Þegar það kemur í ljós að hann hafi átt aflandsfélag í skattaskjóli og ekki gefið upp hagsmuni sína samkvæmt reglum um hagsmunaskráningu, reynir hann að ljúga sig út úr því.
„Þú ert að spyrja mig um einhverja tóma vitleysu,“ sagði Sigmundur við Jóhannes Kr. Kristjánsson, sem sýndi honum síðan pappíra.
„Alveg fyrir neðan allar hellur,“ sagði Sigmundur, eftir að hafa verið staðinn að lyginni, og gekk út.
Stríðið gegn RÚV
Eftir það hefur hann lagt upp í allsherjarstríð gegn Ríkisútvarpinu, allt frá Kastljósinu niður í Stundina okkar. Viðtalið var tekið 11. mars og nokkrum dögum síðar fór Sigmundur að grafa undan þeim sem komu nálægt umfjölluninni. Konan hans talaði um „Gróu á leiti“, þegar sannleikurinn var sá að þetta var ekki slúður, heldur skjalfestar staðreyndir. Síðan þá hefur Sigmundur varið sig með því að nota hjónabandið sem skjöld og ásakað þá sem gagnrýna hann fyrir að leyna hagsmunum, um að vera að biðja hann um að skilja við konuna sína. En hann gæti líka bara fylgt reglum og gefið upp hagsmuni sína. Það er enginn að biðja þig um að labba þótt þú sért beðinn um að nota belti eða fara ekki yfir á rauðu ljósi.
Strákarnir okkar
En hann er okkar. Og þau öll, stjórnmálamennirnir í skattaskjólunum og samherjar þeirra sem reyna að snúa okkur í hringi þar til við verðum nógu rugluð til að sætta okkur við hagsmunaárekstra, þöggun og lygar af hálfu kjörinna fulltrúa í æðstu stöðum.
Það eru tvær ástæður til að eiga félag í skattaskjóli: Að fela peninga eða losna við að borga skatta.
Það skiptir ekki öllu máli hvort Sigmundur hafi borgað alla skatta sem honum bar. Ásmundur Einar Daðason þingmaður getur sagt það sjö sinnum eða sjötíu sinnum. Við getum aldrei komist að því. Það er nægilegur trúnaðarbrestur að hafa farið þessa leið. Viðbrögðin og óheilindin í kjölfar umræðunnar um það eru hins vegar það versta: Hvernig hann reynir að umbreyta veruleikanum í kringum sig, grafa undan siðferði okkar og kröfum til kjörinna fulltrúa í eigin þágu.
Árekstur gilda
Árið 2009 var haldinn þjóðfundur til að skilgreina grunngildi íslensku þjóðarinnar. Undir lok sama árs seldi Sigmundur eiginkonu sinni hlut sinn í aflandsfélaginu sem átti kröfur á hendur íslensku bönkunum á svipuðu verði og eina kókflösku. En á þessu ári komst þjóðfundur að þeirri niðurstöðu að „heiðarleiki“ væri mikilvægustu gildi þjóðarinnar.
Gildi Sigmundar stangast á við gildi íslensku þjóðarinnar og þess vegna hefur hann lagt svo mikið á sig við að breyta þeim. Þess vegna er hann alltaf að skammast í fólki. Þess vegna finnst honum svo margir vera á móti honum. Þau stangast líka á við gildi nútímasamfélaga á Vesturlöndum. Þess vegna hefur hann reynt að færa okkur nær gamla Íslandi, þess vegna elskar hann þjóðbúninginn, þess vegna hefur hann óþol og ótta gagnvart Evrópu.
Við þurfum að ákveða hvort við ætlum að skipta út gildum okkar svo þau rúmi forsætisráðherrann okkar, eða fá forsætisráðherra sem rúmast innan heilbrigðis gildismats. Héðan frá eru bara leiðir til breytinga.
Athugasemdir