Jájá, ég veit að það dugar ekki að stjórna landinu eftir skoðanakönnunum. Meðan hér ríkir fulltrúalýðræði verður ríkisstjórnarflokkum að leyfast að tapa svolitlu fylgi í skoðanakönnunum án þess að hrökklast sjálfkrafa frá.
Það er aðeins ef þeir ganga um leið einhvern veginn svo fram af kjósendum með athæfi sínu að ástæða er til að fara að krefjast þess að þeir „skili lyklunum“ eins og einu sinni var sagt.
En þótt viðurkennt sé að ekki skuli hlaupið eftir hvaða skoðanakönnun sem er, þá verð ég jafnframt að játa að ég sé ekki almennilega lýðræðið í því að þriggja prósenta flokkur í skoðanakönnunum sé nú í þann veginn að fara að taka ákvarðanir um grundvallarbreytingar á samfélaginu.
Ég á við Bjarta framtíð – og ég á við breytingar á heilbrigðiskerfinu. Því að, já, þær eru á döfinni, þótt reynt sé að gera lítið úr því.
Breytingar sem þar á ofan er ljóst að mjög ríflegur hluti íslensku þjóðarinnar er gjörsamlega á móti.
Er eitthvað lýðræðislegt við þetta?
Er eitthvað lýðræðislegt við þetta?
Og þó er það í rauninni ekki flokkurinn Björt framtíð, sem ætlar að kalla þessar breytingar yfir okkur.
Enda er vandséð hvort sá flokkur er til ennþá. Hvort hann er ekki bara þingflokkurinn einn, þessar fáeinu manneskjur sem slysuðust inn á þing í krafti þess að hluti kjósenda trúði orðum þeirra um ný vinnubrögð, opna stjórnsýslu, hvað var það fleira – jú, ekkert fúsk!
Nei, það er enginn flokkur sem stendur að þessum breytingum sem Björt framtíð ætlar að gera á heilbrigðiskerfinu, það er einn maður.
Einhvern tíma verður stjórnmálaferill Óttars Proppé efni í skemmtilega úttekt eða bók eða sjónvarpsþátt eða eitthvað.
Hinn alúðlegi bóksali og rokksöngvarinn knái sem komst á þing í krafti þess að líta öðruvísi út en hefðbundnir stjórnmálamenn, klæða sig öðruvísi og umfram allt, tala öðruvísi. Og í bókinni eða sjónvarpsþættinum verður sýnt vandlega fram á að kjósendur treystu því að Óttarr Proppé myndi ástunda það sem hann boðar: ný og opin vinnubrögð, ekkert baktjaldamakk, ekkert fúsk, engin óheilindi.
Kannski munu þau sem þessa úttekt gera þá koma auga á einhverja skýringu á því sem næst gerðist.
Að Óttarr sneri svo gjörsamlega, svo algjörlega við blaðinu þegar hann var kominn til valda að þess eru sennilega engin dæmi í íslenskri stjórnmálasögu.
Hann byrjaði á því að hnýta flokk sinn svo gjörsamlega við Viðreisn að það takmarkaði mjög möguleika á að mynda ríkisstjórn sem gæti haft í heiðri einmitt þau baráttumál í stjórnsýslu, heilbrigðiskerfi o.fl. sem Björt framtíð hafði boðað í kosningabaráttunni.
Þar með fengu Engeyjaröflin í Viðreisn í raun frítt spil til að mynda sína óskaríkisstjórn með Engeyjaröflunum í Sjálfstæðisflokknum.
Og nú þegar Óttarr er orðinn heilbrigðisráðherra – og einhvers staðar inni í ráðuneytinu rykfalla undirskriftalistar Kára Stefánssonar um átak í heilbrigðismálum, og einhver í ráðuneytinu ræskir sig kannski kurteislega þegar berast í tal skoðanakannanir sem sýna að fólk á Íslandi vill alls ekki einkarekið heilbrigðiskerfi ríka fólksins – nú, þegar Óttarr er í aðstöðu til að láta verkin tala, þá sýnir hann öll merki þess að vera allt í einu orðinn kurteis þjónn Engeyjarvaldsins.
Og það lætur hann framkvæma skítverkin fyrir sig, meðan það sjálft getur haldið sig til hlés – í mesta lagi að forsætisráðherra Engeyjarvaldsins sé stöku sinnum kallaður heim frá Flórída, til að koma í pontu Alþingis og tala digurbarkalega um að „græðgi sé góð“ í heilbrigðiskerfinu sem annars staðar.
Þótt Engeyjarvaldið hafi að vísu lært að orða þennan frasa ögn mildilegar – nefnilega þannig að „arður sé eðlilegur“.
Við vitum alveg að Engeyjarvaldið trúir þessu – að minnsta kosti meðan það sjálft hirðir gróðann af sjúklingunum.
En að Óttarr Proppé skuli ætla að gerast skurðhnífur Engeyjarvaldsins í þessu máli – með jamli sínu, japli og fuðri um hvað þetta sé „flókið mál“ í stað þess að taka af skarið um að – nei, sjúklingar skulu ekki verða féþúfa á Íslandi, og að hann sé farinn að taka upp þann ömurlega sið að „láta ekki ná í sig“ – nei, því hefði ég aldrei trúað.
Það er nú komið í ljós að hið hlálega rangnefni Björt framtíð er reyndar réttnefni á einu sviði – flokkurinn og formaður hans, hinn tryggi þjónn Óttarr Proppé, fela í sér bjarta framtíð fyrir þá sem vilja græða á heilbrigðiskerfinu.
Óttarr Proppé á ennþá möguleika á að lokaniðurstaða úttektarinnar eða sjónvarpsþáttarins fyrrnefnda verði ekki sorgfullur harmleikur, þar sem hreinlyndur utangarðsmaður verður óvænt sauðtryggastur þjónn valdsins og auðræðisins. Til þess þarf hann bara að hætta í þessari ríkissjórn.
Skila lyklunum.
Áður en fylgi Bjartrar framtíðar verður komið niður í mínustölu, en á sárum sjúklinga liggja hræfuglar.
Athugasemdir