Það er kannski að bera í bakkafullann lækinn að fjalla meira um landsréttarmálið, en ég ætla samt sem áður að rita um það nokkur orð.
Við getum rætt þetta frá ýmsum sjónarhornum og allstaðar ber að sama brunni, handarbaksvinnubrögð hvert sem litið er. Það er hægt að ræða um ofríki ráðherra þar sem hún tekur fram fyrir hendur nefndarinnar sem á að sjá um að velja dómarana. Það er hægt að tala um spillinguna sem blasir við þegar breytingarnar eru skoðar og einkavinavæðingin kemur í ljós. Það er hægt að ræða um ósætti sem hefur blossað upp um mál sem sátt þarfa að ríkja um og hafði ríkt fram að þessu - og að nýtt dómsstig hefur nú störf í skugga málaferla og ósættis í samfélaginu. Það má líka velta fyrir sér hvort Alþingi hafi afgreitt málið rétt - sem vafi virðist leika á.
En ég ætla að ræða jafnréttisvinkilinn sem hefur óvænt skotið upp kollinum og margir stjórnarliðar halda dauðahaldi í til að réttlæta þessa misbeitingu ráðherravalds
Á seinustu metrunum hefur verið reynt að réttlæta fúskið og spillinguna með því að bera því við að hér hafi ráðherra verið að vinna í þágu jafnréttis þegar hún að eigin geðþótta fór að hringla í þeim lista sem hæfisnefnd lagði til.
Þessu get ég ekki unað og eins og ég sagði í atkvæðaskýringu á Alþingi þá er þetta hreinlega móðgun við konur. Sumum kann að finnast það langsótt og ætla ég að grípa tækifærið og útskýra málið.
Flestar konur sem komnar eru yfir miðjan aldur hafa einhverntíma þurft að bíta í það súra epli að fá ekki vinnu eða framgöngu í félagsstarfi vegna kynferðis. Margt hefur þokast í rétta átt og við sem eldri erum höfum margar lagt mikla vinnu í að þoka þessum málum áfram með því að gefast ekki upp og taka okkur sæti við borðið með því að neita að gefast upp fyrir gamaldags og úreltum hugsunarhætti.
Stundum eru þessir litlu sigrar ekki augljósir og jafnvel ekki ýkja merkilegir í stóra samhenginu en þegar öllu er til skila haldið þá hafur þetta komið okkur á þann stað að í dag eiga kynin að eiga jafnann rétt í starfi og leik og um það ríkir sátt í samfélaginu þó að alltaf megi gera betur og aldrei megi sofna á verðinum.
Á fyrri árum jafnréttisbaráttunnar var stundum gripið til þess ráðs að hafa svo sem eina konu með svona upp að hlutirnir litu vel út svona uppá punt. Ekki var gert ráð fyrir að þessar konur hefði komist áfram á eigin hæfni eða að þær ættu að gera svo sem neitt merkilegt, heldur eingöngu fengu þær að vera með til að allt liti rétt út. Þessi hugsunarháttur þótti svo sjálfsagður að þegar ein af okkar skörulegustu stjórnmálakonum var valin í valdastöðu í sínum flokki þá var hún kölluð gluggaskraut.
Skipun dómara í landsrétt minnir mig óneitanlega á gamla tíð og ég fæ óbragð í munninn yfir því hvað ungum alþingiskonum í ríkisstjórnarflokkunum virðist ganga vel að kyngja þessum hrókeringum í nafni jafnréttis og keppast þær nú hver um aðra þvera að mæla þessu bót. Að nota það yfirskin að auka hlut kvenna í dómarstétt til að fegra þennan gjörning er ekkert annað en gluggaskreyting af verstu gerð og þeim ótvírætt hæfu konum sem voru færðar til er enginn greiði gerður.
Körlum sem hafa svo gott sem fengið falleinkunn en eru rétt giftir er hampað á kostnað hæfara karla sem hafa ekki rétt flokksskírteini og einnig á kostnað margra hæfari kvenna. Það má hreinlega velta því fyrir sér hvort þær konur sem færðar voru upp séu eingöngu gluggaskraut í huga Frú Sigríðar Á. Andersen, háttvirts dómsmálaráðherra, sem hingað til hefur ekki haft mikla trú á kynjakvótum og hreinlega talað gegn þeim.
Guðrún Ágústa Þórdísardóttir
55 ára varaþingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi
Athugasemdir