Nammigangurinn í stórmörkuðunum er býsna freistandi. Þangað sækja börn og unglingar til að fá sér bland í poka. Því er ekki alltaf vel tekið þegar foreldrarnir reyna að hafa vit fyrir börnunum sínum með því að setja mokstrinum einhver takmörk. Alltaf er það vandræðaleg og hálf dapurleg uppákoma þegar foreldrar sjást draga litlu frekjudallana sína argandi og gargandi upp úr gólfinu við kassann og hraða sér með þá spriklandi út úr búðinni. Það er svona sena sem kemur upp í huga mér þegar talið berst að áfengisfrumvarpinu sem felur í sér afnám á einkaleyfi Áfengisverslunar ríkisins til sölu á áfengi og þar með veitingu leyfis til sölu áfengis í matvöruverslunum. Það eru einhverjir frekjudallar í þinginu sem leggja þetta frumvarp fram aftur og aftur þrátt fyrir viðvaranir sérfræðinga og útbreidda andstöðu meðal almennings sem mér finnst haga sér svolítið eins og litlu frekjudallarnir við búðarkassann. „Ég vil geta keypt mér hvítvín með humrinum á sunnudögum“ er orðið vörumerki þessarar stefnu sem sögð er standa fyrir „frelsi“.
„Frelsi“ er söluvænt í pólitík. Hver vill tala gegn frelsi? En bíðum við – er þetta frekjufrumvarp eingöngu sett fram til að auka frelsi? Ég held ekki. Að vilja kaupa sér hvítvín með humrinum á sunnudögum er lítið annað en kjánaleg smjörklípuaðferð til þess fallin að draga athyglina frá þeirri atlögu að ríkinu sem felst í frumvarpinu, verði það að lögum. Þessi atlaga felur í sér gamalkunna tegund einkavæðingar, það er einkavæðingu gróðans en samfélagsvæðingu kostnaðarins. Okkur var tíðrætt um þessa tegund einkavæðingar þegar afleiðingar bankahrunsins 2008 blöstu við.
Atlaga að ríkinu
Opinber umræða um áfengisfrumvarpið hefur að vísu reynst kærkomin fyrir mig sem háskólakennara. Í þessari umræðu má finna kennslubókardæmi um það hvernig einkarekstur getur smám saman grafið undan tilvist og mikilvægi hins opinbera sem lykilaðila við fjármögnun og framkvæmd opinberrar stefnu. Dæmi um þetta er þegar ríki eða sveitarfélag gera þjónustusamning við fyrirtæki eða félagasamtök, um rekstur ákveðinnar þjónustu við almenning. Þjónustusamingar eru í slíkum tilvikum stjórntæki hins opinbera. Rannsóknir hafa sýnt að þegar hið opinbera beitir slíkum stjórntækjum þá gerist það að sá sem veitir þjónustuna, einkafyrirtækið eða félagasamtökin, verður hinn sýnilegi aðili þjónustunnar og notendur hennar hætta smám saman að sjá þátt hins opinbera þrátt fyrir að fjármögnun þjónustunnar sé að mestu komin úr okkar sameiginlega sjóði, ríkissjóði. Í þessu sambandi hef ég verið óþreytandi við að taka sem dæmi við meistaranemendur mína í opinberri stjórnsýslu umræður sem áttu sér stað í þættinum Vikulokin á Rás1 í Ríkisútvarpinu vorið 2015. Í umræðunum var réttmæti þess að ríkið væri að græða á sölu áfengis dregið stórlega í efa einmitt vegna þess sem einn þátttakandi orðaði eitthvað á þessa leið: „Af hverju á ríkið að vera að græða á áfengi – ríkið sér ekki einu sinni um áfengismeðferð, heldur er það SÁÁ“. Í þessum umræðum var gróflega vegið að þeirri staðreynd að hið opinbera, sem markar stefnu og fjármagnar velferð með sköttum og gjöldum, er þungamiðja velferðar í landinu.
Með umboð fyrir almannaheill
Hið opinbera skipuleggur og ráðstafar fjármagni úr okkar sameiginlegu sjóðum til mikilvægra verkefna í þágu almennings og það ekki að ástæðulausu. Ríkið fjármagnar til dæmis ekki aðeins áfengismeðferðina sem SÁÁ veitir samkvæmt þjónustusamningi, heldur fellur allur samfélagslegur kostnaður sem hlýst af neyslu áfengis, svo sem vegna slysa, ofbeldis og glæpa, á ríkið. Þar sem ríkið ber mestan hluta kostaðarins sem af neyslu áfengis hlýst þá á ríkið að græða og helst græða vel á sölu áfengis. Vandinn er ekki sá að ríkið græði, heldur er vandinn sá hvernig þessum tekjum og tekjum ríkisins almennt er ráðstafað, hvernig og við hverja hið opinbera semur hverju sinni og hvernig það stjórnar þeim samningum sem gerðir eru í almannaþágu. Hér ráða stjórnmál ferðinni.
„Ef ég ætti fyrirtæki sem starfaði á markaði, þá myndi ég ekki ráða til mín starfsmenn sem væru almennt á móti fyrirtækjarekstri“
Og þar sem stjórnmálin ráða hér ferðinni, þá er áhugavert og gagnlegt til umhugsunar að velta þeirri spurningu fyrir sér hverju það sætir að þeir sem hvorki virðast skilja umboð sitt né það hvað felst í almannaheill og vilja hlut hins opinbera sem minnstan skuli veljast inn á þing til að fara með almannahagsmuni. Ef ég ætti fyrirtæki sem starfaði á markaði, þá myndi ég ekki ráða til mín starfsmenn sem væru almennt á móti fyrirtækjarekstri, vildu hlut fyrirtækisins sem minnstan og ynnu að því bæði ljóst og leynt að koma starfsemi fyrirtækisins í hendur annarra, jafnvel vina og vandamanna. Nei takk.
Athugasemdir