Sigmundur Davíð fer yfir tölurnar og klórar sér í kollinum. Hvernig í veröldinni stendur á því að allir þessir Íslendingar streyma úr landi – vita þeir ekki hvað allt er æðislegt?
„Þetta er augljóslega ekki vegna þróunar á vinnumarkaði eða stöðu heimilanna,“ sagði Sigmundur um málið í samtali við Vísi. Hann bætti svo við að mögulega væri þetta vegna þess að fólk hefur það svo gott. Nú sé það loksins í svo góðum málum að það hefur kost á að flytja til útlanda.
Hagfræðingurinn Ásgeir Jónsson er líka undrandi yfir þessu öllu saman. „Þetta eru ekki kreppuflutningar,“ segir hann í samtali við Moggann. „Það er eitthvað djúpstæðara á ferðinni núna“.
Þingmaður Framsóknarflokksins, Þorsteinn Sæmundsson, ljáði máls á vandanum fyrir ári síðan. Þá stakk hann upp á því að ríkið myndi „laða brottflutta Íslendinga aftur heim“ með girnilegri áburðarverksmiðju.
Þorsteinn segist ekki vera á villigötum, í nýlegu samtali við Vísi, og nefnir í því samhengi ungan verkfræðing sem var byrjaður að froðufella af spenningi yfir þessari nýju verksmiðju. Þingmaðurinn bætti svo við það væri mikilvægt að greina vandann. Hverjir flytja af landi brott og hvers vegna?
Það er sjálfsagt mál að verða við þessari áskorun Þorsteins og setja málið í samhengi.
Komið hefur fram í fjölmiðlum að það er helst ungt og vel menntað fólk sem fer úr landi. Samkvæmt gögnum Hagstofu er flóttinn að færast í aukana (í fyrsta skiptið frá hruni) og byrjaði nokkurn veginn sama dag og Sigmundur Davíð tók við lyklunum að forsætisráðuneytinu. Það er því freistandi að álykta að eitthvert samband sé þarna á milli.
Unga fólkið á ekki neitt
Einföld greining á skattframtölum einstaklinga segir heilmikla sögu. Unga fólkið hefur sjaldan verið í jafnslæmum málum og nú. Það er vafalaust ein af aðalástæðunum fyrir því að margir horfa yfir hafið í leit að betra lífi.
Staðan er þessi: Elsti aldurshópurinn hefur náð vopnum sínum og gott betur á meðan yngri kynslóðirnar berjast í bökkum.
Í venjulegu árferði aukast eignir einstaklings sem er á bilinu 20 – 29 ára, um fjórar milljónir á áratug, en þessi tala hefur skroppið saman í rúma milljón á síðustu tíu árum.
Þetta er eiginlega svo galin staðreynd að mig langar til að endurtaka hana: Á síðustu tíu árum náðu einstaklingar fæddir 1975 – 1984 einungis að skrapa saman einni milljón í eignir umfram skuldir!
„Á síðustu tíu árum náðu einstaklingar fæddir 1975 – 1984 einungis að skrapa saman einni milljón í eignir umfram skuldir!“
Það er því engin furða að ungt fólk eigi í erfiðleikum með að kaupa sína fyrstu íbúð. Til þess að fá lán fyrir 25 milljón króna íbúð þarf að reiða fram 3,75 milljónir í eigið fé. Það tæki því rúmlega þrjátíu ár fyrir ungan karl eða konu að safna sér fyrir íbúð, sé miðað við eignamyndunarhraðann hér að ofan.
Hvað hefur ríkisstjórnin gert?
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra skrifaði um það á heimasíðu sína hvernig hægt væri að leysa vandann: Unga fólkið gæti bara búið lengur hjá foreldrum sínu. Og svo gæti það líka verið duglegra að spara. Þannig væri hægt að safna sér fyrir íbúð með tíð og tíma.
Ríkisstjórnin hefur þó verið með húsnæðismálin á oddinum frá því hún tók við. Til dæmis ráðstafaði hún um 80 milljörðum króna til þess að greiða niður skuldir almennings þannig að lánin yrðu bærilegri. Ef tölurnar eru skoðaðar betur kemur í ljós að þessi peningurinn fór að langmestu leyti til þeirra sem eldri eru.
Þessi forgangsröðun er óskiljanleg þegar litið er til eignastöðu þessa hópa.
Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að fella niður auðlegðarskattinn, en hún taldi að þar væri of hart fram gengið. Skatturinn var 1,5% og lagðist á einstaklinga sem áttu eignir umfram 75 milljónir og hjón með meira en 100 milljónir. Hann skilaði þjóðarbúinu sex milljörðum árið 2013.
Auðlegðarskatturinn var mjög hagfelldur yngri kynslóðum, en 99% af honum var sóttur í vasa þeirra sem höfðu náð 40 ára aldri. Ekki er víst að fjármögnunarleiðin sem kemur í stað auðlegðarskattsins verði unga fólkinu jafnhagkvæm.
Þó er ljóst að að minnsta kosti einn ungur maður fagnar afnámi auðlegðarskattsins meira en aðrir. Samkvæmt tölum frá Austurfrétt og gögnum ríkisskattstjóra virðist Sigmundur Davíð hafa þurft að leggja út fyrir 11% af öllum þeim auðlegðarskatti sem fólk yngra en 40 ára greiddi árið 2013. Og það er nú bara svolítið merkilegt.
Það versta er samt eiginlega tilhneiging ríkisstjórnarinnar til þess að binda hendur þeirra sem á eftir koma. Nýtt fiskveiðikerfi skal vera til 23 ára. Samningurinn um ESB-aðild skal helst rifinn og brenndur. Í undirbúningi er búvörusamningur til áratuga.
Sumir flytja úr landi en aðrir bíta á jaxlinn. Get ég haldið niðri í mér andanum í eitt og hálft ár – eða fram að næstu kosningum – er spurning sem brennur á mörgum.
Sigmundur Davíð furðar sig á stöðunni og segir óvinsældir Framsóknarflokksins byggðar á misskilningi og neikvæðri umræðu. En þar skjátlast honum. Fólk skilur Framsóknarflokkinn mjög vel og það er ástæðan fyrir óvinsældunum. Og ef Sigmundur á við gagnrýna umræðu – þá verður hann bara að taka því.
Niðurstaðan er þó alveg skýr: Það sem Sigmundur Davíð og flokkur hans hefur gert fyrir ungt fólk er nákvæmlega það sem það flýr.
Athugasemdir