Mér finnst ofboðslega leiðinlegt að gera húsverkin. Næstum óyfirstíganlegt. Þau eru samt misleiðinleg. Öll leiðinleg en ekki jafn. Ég veit ekki alveg hvað stjórnar leiðindunum en kannski kemst ég að því með því að skrifa þetta. Er það ekki einhver gömul aðferð? Skrifa sig frá vandanum?
Frá skásta til versta:
Að hengja upp þvott
Til að byrja með er mér alltaf fyrirmunað að muna að það sé þvottur í vélinni, að þegar vélar- og vinduniðurinn hættir sé komið að því að hengja upp. Setja á skol, klukkutímum síðar. En þegar kemur að því að hengja þvottinn upp er allt frekar auðvelt. Endurteknar hreyfingar og eitthvað sem virðist alveg taka enda. Taka upp úr balanum, hrista, hengja upp, endurtaka. En engar klemmur. Það er bara asnalegt og tefur fyrir.
Að taka til
Nú er ég að meina almenna tiltekt þar sem hver hlutur fer úr gangveginum. Einfalt mál ef hver hlutur á bara sinn stað og ekkert múður. Ég á barn og þá eru kassar mikilvægir. Ég raða lítið þegar ég tek til. Ég skófla.
Að þrífa klósett
Kannski setur venjulegt fólk klósettþrifin í einhvern yfirflokk heimilisþrifa en síðan ég bjó með nokkrum vinum mínum í Eskihlíðinni lít ég á þetta sem sértæka aðgerð á kaliberi við að skipta sjálfur yfir á vetrardekkin. Þar var þetta líka gert álíka oft og þar af leiðandi svipað þrifalegt. Mér fannst þetta samt aldrei neitt brjálæðislega leiðinlegt og í eðlilegu árferði, þar sem maður þarf ekki að vera með gasgrímu á snjáldrinu og stífkrampasprautuna klára, er þetta bara fínt. Tekur frekar fljótt af og svo heilla klósetthreinsisbrúsarnir mig alltaf. Gaman að sprauta þarna upp í. Bíða, skrúbba og sturta niður. Pínu vísindi. Skemmtilegt.
Að setja í vél
Ég verð að skipta þvottamálunum í þrjá fasa. Að setja í vélina er í sjálfu sér ekkert mál en ég verð óöruggur þegar ég þarf að flokka þvottinn. Það er eitthvað pínu ógeðslegt við það og ég verð alltaf logandi hræddur um að setja eitthvað með sem eyðileggst eða eyðileggur allt hitt. Ég veit heldur ekki hvar þvottaefnið á að fara. Ég set bara smá í öll hólfin.
Að vaska upp
Það er leiðinlegt að vaska upp. En mjög misleiðinlegt. Ef allt er frekar ferskt er þetta samt bara ágætt. Maður getur hlustað á tónlist og slökkt á heilabúinu. En þetta er samt eitthvað svo íþyngjandi, voðalegt og tilgangslaust og erfitt að koma sér að verki. Hanskarnir eru óþægilegir og vatnið annaðhvort of kalt til að hjálpa til eða svo heitt að hanskarnir bráðna við mann. Um leið og grindin fyllist verð ég brjálaður því það er ekki séns að ég nenni að þurrka úr henni og taka aðra lotu. Djöfull sem ég er búinn að brjóta mörg glös sem hrynja ofan af uppþvottagrindarskúlptúrnum.
Að skipta um á rúminu
Misleiðinlegt verk en það sem er verst við það er mannskemmandi. Byrjar vel, tæta bara allt af öllu og henda í hrúgu. Svo geri ég þau mistök að byrja á koddunum. Létt. Svo lakið. Ég held í alvöru að ég blóti alltaf upphátt þegar ég klifra yfir rúmið til að djöfla lakinu yfir hornið fjærst. Og að ég eigi ekki rúm sem er jafnt á alla kanta er óskiljanlegt því ég enda alltaf með skammhliðina á langhlið. Samt er eitthvað gefandi við að sjá lakið strengjast rennislétt yfir dýnuna. En þá er það versta eftir. Það getur enginn sett sængurver utan um sæng, það getur bara ekki verið. Hornin eru rúma tvo metra inni í verinu og sængin sjálf kuðlast eins og skæni í þotuhreyfli.
Að ryksuga
Nú erum við að komast í úrvalsdeildina. Þetta er talsverð aðgerð, svo einfalt er það. Sækja tækið, setja í samband, skipuleggja sig, díla við hávaðann, berjast við borðfætur og samviskuna þegar kemur að því að ákveða hversu langt undir rúmið maður á að teygja sig. Og svo sér maður eiginlega engan árangur. Ég vildi óska að ryk væri skærneonappelsínugult svo maður sæi það hverfa.
Að brjóta saman þvott
Ég get það ekki. Ég er lélegur í því og allt fer í steik. Ég er svona þokkalegur í að para saman sokka en leysi það reyndar með því að kaupa helst bara eins sokka. Restin er mér ómöguleg og ólögulegar flíkur á við hettupeysur eru mér sem galdur. Ég læt þetta fara ofboðslega í taugarnar á mér.
Að skúra
Þarna gefst ég upp. Mér finnst þetta bara rugl. Bleyta upp í drullunni til að færa hana til. Ég stíg í bleytu og renn til, skil eftir polla og helgidaga. Ég kann ekki að vinda moppuna og ég meira að segja fyrirlít að þvo fötuna eftir skúringar. Djöfull!
Að þurrka af
Þetta er það versta af öllu! Að þurrka af er eins og að skúra ofboðslega marga litla fleti nema með höndunum. Stundum lárétt, stundum lóðrétt og stundum bara eitthvað óskiljanlegt. Ég veit aldrei hvar ég byrjaði, hvað er eftir eða hvort ég er að gera eitthvert gagn. Rykið hættir að vera í grárri ábreiðu og verður að bogadreginni og storknaðri skán. Ég játa það hér og nú að ég hef margoft hent borðtuskunni í ruslið eftir afþurrkun því ég get ekki hugsað mér meira vesen á borð við það að skola hana og hengja upp. Verst. Í. Heimi.
Þetta virkaði ekkert. Ég veit enn þá ekkert hvers vegna mér er svona misilla við þessa hluti. En djöfull er gott þegar allt er hreint og fínt í kringum mann.
Athugasemdir